miðvikudagur, 27. október 2010

Margt um að hugsa

Undanfarið hef ég ekki skrifað stafkrók á þetta blog.

Svo sem eins og sést.

Ég hef nú samt verið heilmikið að bardúsa.
Svolítið skemmtilegt sem tók allan minn tíma - og allar mínar hugsanir.

(Ég viðurkenni það hér og nú að ég er ekkert voðalega góð í að 'múltitaska')

En mér datt sem sagt í hug að skella mér í garninnflutning.
Og reyna að láta áhugamálið borga sig - frekar en að vera sífellt að borga með því.
Þið vitið eins og fíklarnir sem selja til að fjármagna eigin neyslu.

Ég fann garnið í vor, en það tók nokkrar tilraunir að finna rétta garnsalann.
Ja eða spunaverksmiðjuna svo ég sé nú nákvæm.

Eftir bréfaskriftir, símhringingar og dágóðan skammt af þolinmæði er garnið loksins komið í hús.

Og það er baaara flott.

Og ég hef prjónað prufur af ýmsum stærðum og gerðum.

Og legið yfir hugmyndum hvað garnið eigi að heita, og reynt að láta mér detta í hug hvernig ég eigi að koma því í sölu.

Fyrst sýndi ég það í vinnunni
svo fór ég með það í saumaklúbb
og nú er ég búin að opna nýja blogsíðu (ætli ég verði ekki að auglýsa hana á Facebook)

Ef þið viljið kíkja þá heitir nýja síðan Textíl -garn og er á blogger.

Ég er samt ekkert endilega hætt með þessa síðu.

Mér finnst nefnilega ágætt að geta sett hér inn handavinnuna mína og annað sem mér dettur í hug.

Ég er til dæmis með heilan bunka af handavinnu sem ég á eftir að skrifa um.

fimmtudagur, 16. september 2010

Rósir

Ég á þetta fína gróðurhús.
Það hefur reyndar aðeins látið á sjá eftir að Ingó fór í skógarhögg og braut rúður í leiðinni.
En það kemur kannski ekki að sök því vegna kóngulóarhræðslu minnar hefur húsið lítið verið notað.
Sem gróðurhús altsvo.
En hefur verið nýtt sem geymsla í staðinn.

Fyrir nokkrum árum (áður en kóngulær lögðu garð og gróðurhús undir sig) setti ég niður rós.
Og sum árin hefur hún blómstrað þessum fínu bleiku blómum.

Eins og þessi.

miðvikudagur, 15. september 2010

Kúruteppi

Ég er búin með teppið.
Það er alveg tilbúið og algjörlega klárt, nema svona tvinnaspottar sem virðast hafa öðlast sjálfstætt líf og vaxa hér og þar.

Í teppið fóru efni af lagernum - nema ég þurfti að kaupa dálítð af svörtu lérefti.
Ég var fyrst að hugsa um að hafa bakstykkið svart og svo datt mér í hug að sauma saman stóra búta í mismunandi lit.

En þar sem þetta átti að vera kúruteppi þá ákvað ég að gera hvorugt og hafa bakefnið úr flóneli.
Það verður nú að viðurkennast að rautt flónel með krakkamyndum, sem var upphaflega keypt sem náttfataefni fyrir mörgum árum, er kannski ekkert voðalega smart eða í stíl við framhliðina.

En það er aukaatriði.
Kúruteppi þurfa að hafa mjúka bakhlið.

Ég sá það þegar teppið var tilbúið að ef ég hefði haft það örlítið stærra þá hefði það passað á rúmið hans Asa.
En hefði og hefði .. það þýðir ekkert að spá í það.
Næsta teppi verður haft pínu stærra.
Það er að minnsta kosti enn til nóg af efnum.

Til minnis.
stærð: 116x183 cm (45,5x72,5")
bindingin er skáband úr svarta léreftinu skorin í 2.5"
Vattið er þunnt - gerfi (mun þægilegra er að quilta bómullarvattið)
Munstrið heitir disappearing nine patch quilt og hér má sjá hvernig það er gert.

Haustlitir

Litirnir eru aðeins að byrja að breytast.
Grænt er smám saman að verða gult og rautt.
Það er greinilega haust.
Andkaldir morgnar.
Sokkar og trefill.

Duglegt fólk

Krakkarnir mínir eru duglegir í eldhúsinu.
Nú eru Asi og fröken B. þar að búa til pítu.
Þau steikja hakk og skera niður grænmeti undir dúndrandi músik.

Þessar myndir eru reyndar ekki teknar núna - heldur um síðustu helgi.
Asi stefnir í að verða jafn duglegur og þau stóru en á laugardag bjó hann til músli og á sunnudag tók hann slátur með pabba sínum.

Það þarf enginn hafa áhyggjur sem býr með svona fólki.

þriðjudagur, 14. september 2010

Andvaka

Þó ég sé A-manneskja - og eigi gott með að vakna á morgnana - þá finnst mér eiginlega fullmikil nótt ennþá til að vera komin á stjá.

En ég er búin að vera glaðvakandi frá því klukkan fjögur.

Mér vitanlega er engin ástæða fyrir þessu sólarhringsrugli - en þegar ég vaknaði var ég að skipuleggja efni.

mánudagur, 13. september 2010

Þetta nuddast áfram

Það er ekkert lítið sem hefur rignt í dag. Algjört skýfall.
Fröken B. kom áðan eftir að hafa hjólað úr skólanum - og það hefði mátt vinda hana.

Ég er heppin að geta bara verið inni að dunda mér.
Og hef setið við teppissaum frá því ég kom heim.

Fyrst settist ég við vélina og kláraði næstum að quilta - á bara eftir það sem maður reddar í lokin þegar teppið er eiginlega tilbúið.

Svo skar ég efni í bindingu - en eftir smá pælingart ákvað ég að hafa það úr svarta efninu.
Náði að sauma bindinguna á teppið - það er þann hluta sem er saumaður í vél.

Ég er rétt komin af stað með handsauminn - sem er bindingin á bakstykkinu.
Klára það á morgun.

sunnudagur, 12. september 2010

Eldhúsverk og annað

Það er mikil aksjón í gangi.
Ingó og Asi eru í eldhúsinu.
Þeir eru að gera slátur úr afgangslifrunum frá því í vetur.

Fröken B. lét sig hverfa og sökkti sér í námsbækur..
...og ég er mjög upptekin að sauma.

Öll íbúðin ber þess merki hvað ég er upptekin.

Ég er búin að færa til húsgögnin í stofunni til að fá nógu stóran sléttan flöt, á borðstofuborðinu er skurðarhnífur og motta, straubrettinu er plantað á ganginn og efnisbútar og tvinnaafgangar eru út um alla íbúð.

Já og svo er ég búin að breiða úr mér í heilt herbergi með saumavélar og helstu fylgihluti.

En sem sagt efnisbútarnir eru að verða að teppi.

Framhliðin er alveg tilbúin og í þvottavélinni er flónelsefni sem ég ætla að nota í bakhliðina.

Spennandi.

laugardagur, 11. september 2010

Snúrupoki

Ég hef lengi ætlað mér að sauma þunnan snúrupoka sem hægt er að taka með í ferðalög undir nærföt eða því um líkt.

Það er náttúrulega alveg ljóst að það er töluvert huggulegra að hafa slíkan fatnað á einum stað í töskunni frekar en dreifðan um hana alla.
Nú eða í plastpoka.
Ekki spurning.

Svo hér kemur fyrsta tilraun (já hann tókst ekki nógu vel þannig að ég geri fleiri æfingapoka).
En ég verð nú samt að játa að ég er ægilega ánægð með hann.

Til minnis.
Stærð 27x30 cm.
Til að bandið sé nógu langt til að þræða tvo hringi eftir að búið er að snúa það - þarf það að vera rúmlega 20 x breidd pokans.
Veit ekki alveg hvaða stærðfræðiformúla liggur þar að baki.

Rigningardagar...

...eru oft ansi drjúgir.

Fyrst voru augnabliks yfirborðs þrif, svo bökuðum við skinkuhorn og svo ..
og svo átti ég daginn -bara fyrir mig.
Innidagur eins og þeir gerast bestir.
Ingó og Asi fóru í búðarleiðangur og við fröken B. áttum húsið einar.

Ég þurfti reyndar að skreppa örstutta stund í næsta hús til að fá lánaða saumavél - því ég hafði lánað mína.

Fröken B. las fyrir skólann en ég saumaði smá, las og saumaði meira.

Meðan ég var að venjast saumavélinni saumaði ég nálapúða

Ég þarf greinilega að átta mig betur á hvernig á að stilla vélina - sporið er óttalega skrítið og hræðilega ójafnt.

Þetta er pottþétt vélin. :-)

fimmtudagur, 9. september 2010

Einn enn

Ég held að ég sé með þráhyggju.

En enn einn vettlingurinn kominn.

Og ég gleymdi aftur að taka myndir á leiðinni.

Næst tek ég myndir - pottþétt.

Tekið til í ísskáp

Lítill gutti í skólanum tilkynnti mér í dag að það að henda mat væri að henda peningum.
Mikið rétt, og ég er alveg sammála honum.
Mér blöskrar stundum hvað maður hendir miklu.

Það þarf þó að vera til ákveðin útsjónarsemi og hugmyndaríki til að búa til nýja rétti sem eru ekkert líkir þeim upphaflegu.
Því hér á heimilinu eru ekki allir fylgjandi því að nýta afganga og borða sama matinn tvo daga í röð (ok stundum þrjá).

Og ég verð að játa að ég er ekkert voðalega snjöll í að dulbúa mat.
En kann þó nokkra rétti sem að nýtast vel í að klára úr ísskápnum.

Hrísgjrjónaafgangar eru gjarnan notaðir í grjónagraut fyrir Asa, sem er ekki enn búinn að fá nóg þó systkini hans séu búin að borða yfir sig af slíkum mat

Og það er óbrigðult að búa til tiltektarlasagna.
Í það getur farið ótrúlegasta hráefni.

Mitt uppáhald eru hins vegar bökur með alls konar innihaldi.
Afgöngum af kartöflum, lauk, grænmeti, áleggi - eða bara hverju sem er.

Í kvöld var afgangamatur.
Grjónagrautur, baka, salat og kjúklingavængir.
Mmm ljómandi gott.

Í svona eldamennsku slæðast mistök stundum inn á milli og eitthvað sem hefur verið geymt of lengi reynist ónýtt.
Silungurinn var til dæmist ekki borðaður.

miðvikudagur, 8. september 2010

Tilraun tvö

Jæja annar vettlingur er kominn og þessi tókst mun betur.
Ég þarf að skrifa uppskriftina niður - taka myndir af vinnuferlinu og setja hér inn.
Það var auðvitað meiningin að gera það með þennan een - var búinn með hann áður en ég áttaði mig.

mánudagur, 6. september 2010

Bjórvettlingar - tilraun

Fröken B. sýndi mér áðan ægilega sniðuga hugmynd áðan.

Þetta var bjórvettlingur.
Það er að segja vettlingur sem heldur höndunum heitum og bjórnum köldum.

'Geturðu ekki pikkað þetta upp', sagð'ún,
'vinkonur mínar væru allar til í að fá svona í jólagjöf'

Ég settist niður og skoðaði vettlinginn - en gat á engan hátt áttað mig á hvernig hann var búinn til.
Gúgglaði - fann uppskrift sem ég gat stuðst við - fann lopa og prjóna - kom mér fyrir í sófanum og byrjaði

Fröken B. gekkst inn á vinnubýtti - þar sem hún eldaði meðan ég prjónaði

Og nú er kominn prufuvettlingur.
Ekki fullkominn en ...
Ég þarf að gera fleiri - svona til að fínissera uppskriftina.

sunnudagur, 5. september 2010

Sunnudagsógleði


Í dag ætlaði ég að sauma þessi lifandis ósköp.
Og klára teppið sem ég byrjaði á fyrir einhverju síðan.

Síðan þessi mynd var tekin er ég búin að sauma alla búta saman - og var rétt að byrja á að hugsa hvernig kanturinn utanum ætti að vera.

En það er í mér einhver lumpa.
Beinverkir og ógleði.
Og það eina sem hægt er að gera í þeirri stöðu er að skella sér aftur í lárétta - og vona að bíórásin bjóði upp á eitthvað almennilegt.

laugardagur, 4. september 2010

Út að borða

Í gær fórum við á Hereford-steikhús.
Í afmælismáltíð - þar sem afmælisbarnið var reyndar fjarverandi - nema í hugum okkar.

Þetta var ekkert smá flott.

Við fengum borð á besta stað við glugga með útsýni yfir Laugaveg.
Í salnum var slatti af fólki en þó var ekki troðfullt.
Og ljúf tónlist í bakgrunni var ekki svo yfirþyrmandi að við gætum ekki talað.

Og við töluðum
og töluðum
og hlógum líka
og skáluðum í tilefni dagsins

Maturinn var góður - þjónustan til fyrimyndar og fólkið var frábært.

Ég segi bara takk fyrir gott kvöld mín kæru.

Laugardagur

Það rignir - og það er rok.
Og það er gott að vera hér inni í notalegheitum.

Skoða blog, lesa, prjóna eða bara eitthvað allt annað.
Með engin plön og engar skyldur.

föstudagur, 3. september 2010

Mamma

Í dag er þriðji september.

Afmælisdagur mömmu.
En hún hefði orðið sjötíu og þriggja ára.

Og eins og í fyrra ætlum við að halda upp á daginn ...gera eitthvað ...minnast hennar.

Meiningin er að fara saman út að borða - og við ætlum á sama stað og við fórum á fyrir þremur árum þegar hún varð sjötug.

Við þurftum reyndar að hugsa okkur svolítið um
- hvort við vildum fara þangað aftur
- því að sú máltíð tókst reyndar ekkert voðalega vel.

Kannski vegna þess að við kunnum ekki nógu vel að lesa í aðstæður eins og þær voru á þeim tíma.
Það er svo auðvelt að vera vitur eftir á.

Það er svo margt með hana sjálfa sem karakter og ýmislegt tengt veikindum hennar sem ég áttaði mig oft engan veginn á þegar við vorum föst í hringiðunni.

Mamma var alltaf sterk og hugrökk.
Það vissi ég svo sem alltaf.
En sundum vildi ég að hún hefði treyst okkur til að vera sterki aðilinn.

Hún var dugleg
og framkvæmdi ótrúlegustu hluti.
Samt var hún ekki þessi óhrædda týpa - frekar tókst á við hræðsluna í sér.

Hún prófaði ýmislegt og kom hlutum í verk - ég held að það megi kalla hana frumkvöðul
Hún kenndi, var í járnabindingum, ferðaðist, fór ein í nám til útlanda með þrjá unglingskrakka, rak verslun, prjónaði, saumaði, sinnti félagsstörfum auk hundrað annarra hluta sem ég tel ekki upp nú.

Hún hafði þær bestu hendur í heimi - og var aldeilis frábær nuddari.
Ég man að fótanuddið hennar var ææði.

Hún gat verið blíð og stundum hryssingsleg
en ég veit hún hefði vaðið eld fyrir okkur

Ég sakna hennar
Ég sakna hennar eins og hún var þegar hún var heilbrigð
en ég sakna líka stundanna sem við áttum eftir að hún var orðin veik.

mánudagur, 30. ágúst 2010

Pabbi


Átta ár.

Það er ótrúlegt hvað tíminn líður.

En í dag eru átta ár síðan pabbi dó.

Pabbi var..

.. stór og kraftmikill og forkur til vinnu
.. fyndinn og rak upp hláturrokur sem áttu uppruna lengst ofan í maga
.. heiðarlegur og réttsýnn
.. hugrakkur
.. maður með skoðanir - en flíkaði þeim ekki í óspurðum
.. maður sem gott var að leita til

Ég man setningar sem hann sagði, frasana, áherslurnar, brosið, hendurnar..
..og ég man hvernig hann hristist allur þegar hann hló

það eru komin átta ár ...
og ég sakna hans á hverjum degi

sunnudagur, 29. ágúst 2010

Litun

Það eru mörg ár síðan ég litaði seinast.
Ég man að það var gífurlegt maus.
Risastór pottur á eldavélinni - sjóðandi vatn og litaslettur út um alla veggi.

Í dag er þetta allt annað.
Ekkert mál að henda lit og salti í þvottavélina ásamt því sem lita á.
Segja þeir sem hafa prófað.
Og ég ákvað að reyna líka.

Ég átti efnisbúta (kemur á óvart) í litum sem nýttust engan veginn.
Slatta af hvítu þykku efni sem væri kjörið að nota í töskur ef það væri dekkra.
Dálítinn bút í babyljósbláu.
Og smá jersey-bút í óræðum gul-græn-brúnum lit.

Allt fór þetta í vélina ásamt lit.
Alls ekki flókið.
Svo var bara að vona að efnin væru ekki úr allt of miklu gervi - svo þau tækju við litnum.
Afraksturinn var að mestu leyti grár.

Hvíta efnið, sem er lengst til vinstri á myndinni, varð milligrátt.
Ljósbláa efnið varð ljósgrátt.
En jerseybúturinn fékk þennan fína kolsvarta lit.
Það var ágætt að ég skellti honum með - annars hefði ég haldið að ég hefði klúðrað lituninni.

Ætla að prófa þetta aftur við fyrsta tækifæri.

Handavinnuraunir


Ég er búin að grauta í alls konar handavinnu undanfarið.

Ég saumaði nærföt - hmm á mig, sem ég hef ekki alveg verið tilbúin að sýna hér.
Svo er ég með bútasaumsteppi sem er langt komið.
Með þessu er ég með tvær peysur í vinnslu - önnur var alveg að klárast þegar ég stakk henni til hliðar - og hin er styttra komin.
Tveir nærbolir eru eiginlega tilbúnir - ég þarf bara að klára að hekla líningu og þá eru þeir tilbúnir.
Svo á ég slatta af stökum sokkum og vettlingum sem þurfa auðvitað einhvern tíma að fá makkera.

En ég á greinilega við eitthvað kláruvandamál að stríða þessa dagana.
Langar hreint ekkert að ganga ljúka við og ganga frá.
Finnst skemmtilegra að byrja á einhverju nýju.

Og í dag ákvað ég að sauma nálapúða.
Fullt af þeim.

Ákvað að nota efni úr afgangakörfunni sem geymir búta sem eru svo litlir að þeir nýtast eiginlega ekki í neitt (en má samt ekki henda) eða eru í skrítnum - eða jafnvel ljótum litum (en má samt ekki henda).

Gerði fyrst fjóra - og bætti svo einum enn við.
Enda nauðsynlegt að eiga allskonar nálapúða.

Inn í púðana fór ullarkembuafgangur sem ég er búin að eiga síðan hér um árið er ég fór í gegnum þæfingartímabilið.
Hugsið ykkur ef ég hefði nú verið búin að henda kembunni.




laugardagur, 28. ágúst 2010

Laugardagur

Laugardagur er minn uppáhaldsdagur.

Jafnvel laugardagur eins og í dag þegar ég vakna þreytt eftir næturgöltur með beinverki, vöðvaverki og ónýtar tær.

Ég er greinilega ekki í nógu góðri hælaskóþjálfun eftir heilt sumar á fótlaga sandölum.

Og var með áhyggjur af því að þurfa að styðjast við göngugrind í dag.
En það slapp þó fyrir horn.

Sem var eins gott því planið í dag var vinkonumiðbæjarferð.

Þá tilheyrir að rölta Skólavörðustíg, skoða í fatabúðir, fara á kaffihús og skoða í bókabúðir.

Jamm og svo fórum við reyndar líka á opnun listsýningar.
Þetta var samsýning nokkurra einstaklinga og viðfangsefni hennar var silkiþrykk - í mismunandi útfærslum.


Sumt var bara nokkuð flott.
Sérstaklega þar sem myndir voru þrykktar á efni.
Ég gæti alveg hugsað mér að læra þessa tækni.
Og sé fyrir mér púða, töskur og fleira því um líkt.

Ég náði að versla bráðnauðsynlega hluti eins og fataliti og salt.

Og var svo ljónheppinn að finna bolla - einmitt eins og mig vantaði.

fimmtudagur, 26. ágúst 2010

Sjálflægni

Ég sat og prjónaði og horfði með öðru auganu á Amazing Race í sjónvarpinu.

Ég veit ekki hvort þið hafið séð þáttinnn en hann gengur út á æðislegt þrautakapphlaup þar sem nokkur lið keppa hvert á móti öðru. Og hver þáttur endar á því að seinasta liðið í mark dettur út.

Og eins og gefur að skilja er mjög óvanalegt að menn hjálpist að milli liða.

Þar til áðan.

Þá hjálpaði lið A liði B.

Og svo var það í mynd og útskýrði ástæðuna.

Lið A: hja við erum bara svona gott fólk sem hjálpar öðrum

Næst í mynd var lið B - og þeir höfðu þetta að segja

Lið B: hja við erum bara svona góðir gæjar sem allir vilja hjálpa

Mér fannst þetta alveg frábært -
Einn atburður - tvær sögur

Hvort lið lýsti atburðinum út frá sér og sinni sjálfhverfu.

Æj það er svoo krúttlegt.

miðvikudagur, 25. ágúst 2010

Að berjast við vindmyllur

Don Kíkóti er nafn sem hringir bjöllum.

Ég fletti því upp í Gegni áðan -að það var árið 1981 sem fyrsta bókin um Don Kíkóta kom út í þýðingu Guðbergs Bergssonar.

Ég man að þetta var mikið verk og margar bækur.

Sem ég las reyndar ekki þá - ja og er svo sem ekki búin að því enn - en á svipuðum tíma voru í sjónvarpinu teiknimyndir um ævintýri Don Kíkóta sem ég sá.

Mig rámar því aðeins í kynni af þessum bilaða riddara, sem ásamt vini sínum Sansjó Pansa, barðist meðal annars við vindmyllur, sem Don Kíkóti taldi vera risa.

Og allir sjá náttúrulega hvað það er vonlaust.

Í mér leynist dálítill Don Kíkóti - en nú hef ég ákveðið að læra af gjörðum hans.

Og ætla að hætta að berjast við vindmyllur.
(Að minnsta kostir sumar þeirra.)

Og sætta mig við að sumt sigra ég ekki - eða breyti.

Amen.

þriðjudagur, 24. ágúst 2010

Fyrsti skóladagurinn

Fyrsti alvöru skóladagurinn var í dag.
Í gær var bara rétt skroppið að ná í stundaskrá.

Það er búið að vera smá spenningur í loftinu.

Ný skólataska hefur beðið í holinu í heila viku - algjörlega tilbúin - fyrir utan nestið náttúrulega.

Þetta er taska sérvalin af tólfáringnum

Og hún var ekki valin af því hún er sérlega vönduð með styrktum botni, breiðum böndum og púðum í bakið -

Onei - þetta var sú eina sem var með hólf fyrir i-pod og leiðslur fyrir heyrnartólin.

Morgunhani

Það er notaleg kyrrð í loftinu.
Enda ekkert skrítið - það er eiginlega varla kominn morgunn.
Og venjulegt fólk er enn í draumalandinu

Það er náttúrulega bilun að vakna og fara á fætur á þessum tíma.
Og ég veit að það er stresstaugin sem ýtir við mér.
Sú sama sem rænir mig kvöldunum með því að láta mig sofna allt of snemma.

En ég verð reyndar að viðurkenna að mér finnst þetta alltaf dálítið góður tími - þessi tími eldsnemma á morgnana sem ég á algjörlega fyrir mig.

mánudagur, 23. ágúst 2010

Súkkulaðimuffins

Á ferð minni um blogland í gær rakst ég á myndir og uppskrift af súkkulaðimuffins.

Sem ég varð auðvitað að prófa.
Þær tóku 5 mínútur í framkvæmd og 15 mínútur í ofni.
Einfalt, þægilegt og ferlega gott.

Þar sem uppskriftin er á dönsku - ætla ég að snara henni á ylhýra - en læt fylgja link með í þá upphaflegu.

Súkkulaðimuffins
- 12 stk - stórar

250 gr hveiti
1 tsk. matarsódi
225 gr sykur
40 gr kakó
1 tsk vanillusykur
100 gr brytjað súkkulaði
1 1/4 dl mjólk
90 gr bráðið smjör
2 1/2 dl AB-mjólk
1 egg

Allt sett í skál og hrært saman með skeið (ekki hræra í vél). Sett í muffinsform (12 stór eða 20 minni). Bakast við 200 gr í 15- 20 mínútur.

sunnudagur, 22. ágúst 2010

Sunnudagur

Það fer ekkert á milli mála að það styttist í haustið.

Öll þessi ber - og meira að segja reyniberin eru að verða rauð.
Blómin eru að komast á seinni hlutann.
Trén eru að byrja að fá á sig nýjan lit.

Og það er einhvern veginn öðruvísi lykt í loftinu.

Og ég hef tekið eftir því að það er orðið andkalt á morgnana -þó svo að suma daga hitni ágætlega yfir daginn.

Annars sýnist mér það vera að breytast líka - ég held að hitinn í gær hafi ekki farið yfir 12 stig þegar heitast var. Og núna sýnir mælirinn aðeins 6 stig.

Jebbs það er nokkuð ljóst að sumrinu er að ljúka.

En það er ekki svo slæmt - því þá tekur við ný byrjun og aðrar áherslur.

Skólafólk fer að setja sig í stellingar.
Rökkrið kallar á kertaljós sem alltaf fylgir einhver notaleg stemming.
Og það sem var á to-do listanum í sumar og átti að gerast inni - fer kannski að komast aftur á dagskrá.

En núna ætla ég að njóta kaffisins, skoða blogg og dunda mér -þar til aðrir heimilismenn fara á fætur.

laugardagur, 21. ágúst 2010

Menningarnótt

Ég er með hálfgert samviskubit.

Við ættum náttúrulega að fara í bæinn, með tólfáringnum, og kíkja á menninguna.
Kíkja í gallerí og á kaffihús.
Horfa á flugeldasýninguna.
Sýna okkur og sjá aðra.

En það er bara svooo kalt úti -
og endalaust af fólki í bænum
og engin bílastæði

já og kalt - var ég búin að nefna það?

Að við ætlum bara að vera heima þetta árið.

föstudagur, 20. ágúst 2010

Sumar á flösku

Fyrir nokkrum árum kenndi ágæt kona mér að búa til sólberjalíkjör.

Uppskriftin getur ekki verið einfaldari því aðeins þarf sykur, sólber og vodka.
Ja reyndar líka stóra krukku og nauðsynlegt er að hafa slatta af þolinmæði.

Líkjöragerðinni fylgir smá vinna í upphafi - því krukkunni þarf að snúa einu sinni á dag þar til allur sykur hefur náð að leysast upp og vökvinn er orðinn fallega rauður.

Svo er bara að bíða - og helst að reyna að gleyma öllu um væntanlega líkjör - þar til í desember.
Þá er krukkan dregin fram, berin síuð frá og vökvinn fer á flöskur.

Ótrúlega hollt og gott.
Og þá er bara að smakka og bjóða og njóta.

fimmtudagur, 19. ágúst 2010

Ræktun


Á pallinum hjá okkur er risastórt ker sem í hafa verið gerðar ýmsar ræktunartilraunir.
Ég hef sett niður sumarblóm, trjárunna, jarðarber og kartöflur.
Ekki þó allt í einu - heldur hvert í sínu lagi.

Afraksturinn hefur svo sem ekki verið merkilegur fyrr en í sumar.

Fyrst settum við niður kartöflur - sem voru teknar upp um miðjan júlí - og svo sáði ég spínat- og salatfræjum.
Og grænmetið sprettur þvílíkt í þessu góða veðri sem er búið að vera undanfarið.
Og hér er auðvitað borðað grænt í hvert mál.

Græðgi

Þegar ég kom heim fór ég út í garð
og fékk mér lúkufylli af berjum.
Og svo aðra
og eina enn
og hefði eflaust haldið áfram að úða í mig
en beit í eitthvað skrítið
- eitthvað hart
- sem gaf ekki eftir eins og berin höfðu gert
Hrækti og spýtti
Arrgg
Ég var nærri búin að éta bjöllu
ojj ojj ojj

miðvikudagur, 18. ágúst 2010

Bíó

Ég var að spá í hvort það væri ellimerki að sitja á miðvikudagskvöldi og horfa á nærri þrjátíu ára gamla söngvamynd.

Ég hef það mér til afsökunar að hafa ekki séð myndina áður...
..og Julie Andrews syngur alveg ótrúlega flott

Ég held að ég sé smám saman að breytast í foreldra mína.

þriðjudagur, 17. ágúst 2010

Tekist á við hversdaginn

Fyrsti vinnudagurinn gekk bara fínt.
Þó okkur liði samt mörgum eins og við værum bara rétt að koma úr löngu helgarfríi.
En það er alltaf gaman að hitta fólk aftur og fá uppdateringu á því hvað hefur gerst síðan síðast. Og fólk, frísklegt og brúnt eftir sumarið, situr í kaffi og spjallar og hlær og spjallar - já og vinnur auðvitað líka.

Í lok dags fengum við frábæran fyrirlestur um ADHD - orsakir - áhrif - meðhöndlun og fleira. Fyrirlesturinn hélt Gylfi Jón Gylfason sálfræðingur og kennari, sem hefur unnið mikið með börn með ADHD, heimili þeirra og skóla

Í gærkveldi var ég frekar þreytt eftir langan dag - það bókstaflega slokknaði á mér. Ég varð algjörlega meðvitundalaus í sófanum.
En það tengist kannski líka því að nóttina á undan svaf ég ekki mikið - var alltaf að vakna og kíkja á klukkuna- ætlaði sko ekki að sofa yfir mig. Og þegar Ingó fór á fætur um fjögurleytið að keyra systur sína glaðvaknaði ég og fór líka á fætur.
Þessir fyrstu dagar í vinnunni eru oft einhvers konar jafnvægisstilling.

mánudagur, 16. ágúst 2010

Vinni vinni

Fyrsti vinnudagur eftir frí er í dag.

Það er í mér dálítill fiðringur.
Ég hlakka til að hitta fólk aftur eftir sumarfrí.
Suma hef ég ekkert hitt lengi.
Hlakka til að fara í vinnustellingar og svona.

En líka dálítil eftirsjá.
Eftir sumrinu, frjálsræðinu, fríinu.

fimmtudagur, 12. ágúst 2010

Sulta

Það er aldeilis mikið af berjum þetta árið.
Bæði sólber og rifs.
Og það þótt það hafi verið klippt grimmt í vor.

Við borðum sólberin beint af trjánum og svo eru þau auðvitað frátekin í jólalíkjörinn.
Og þau eru alveg að verða tilbúin.

Úr rifsinu bý ég til hlaup og sultu úr hratinu.
Tími auðvitað ekki að henda neinu

Tíndi nokkur ber um daginn - um leið og þau urðu rauð.
Fékk sultu í tvær oggulitlar krukkur - sem kláruðust auðvitað um leið.

Nú er ég búin að búa til nokkrar í viðbót - bæði hlaup og hrat.
Mmm.

Og enn eru til ber.
Ég er að spá í að frysta slatta - það verður fínt að fá nýtt hlaup einhvern tíma í vetur.

þriðjudagur, 10. ágúst 2010

Framhald af stressi

Mér tókst að stressa mig í nærri fimm daga...
...yfir einhverju sem gekk svo ekki upp.

Vorkenndi mér svo þessi lifandis ósköp.

En svo var það líka búið.

sunnudagur, 8. ágúst 2010

Sunnudagsnotalegheit

Það stefnir í fallegan dag.
Himinninn er að verða heiður.
Og hitinn mjakast upp og er núna kominn í 13 stig.

Ég vaknaði fyrir allar aldir og tókst að laumast niður án þess að vekja sambýlingana.
Sit við tölvuna, drekk ilmandi kaffi og nýt þess.

Það er svolítil haustlykt í loftinu.
En kannski er það bara í kollinum á mér - sem er farin að sjá fyrir endann á sumarfríi eins besta sumars sem ég man eftir.

laugardagur, 7. ágúst 2010

Garðurinn

Það er ljóst að garðvinna er eilífðarverkefni.
Og þá er ég ekki bara að tala um að arfareitingu, slátt og trjáklippingar.
Eða gróðursetningu af ýmsu tagi og pallaviðhald.

Nei það þarf líka að skipta um jarðveg, laga grasflöt og jafnvel helluleggja.
Auk þúsund annarra hluta sem ég man ekki að nefna.

Undanfarin sumur höfum við (lesist Ingó) hellulagt bæði fyrir framan hús og meðfram því.
Og nokkrar hellur hafa farið í kringum matjurtabeðin.
Og nú er komið að því að setja stétt frá pallinum að matjurtagarðinum.

Og ég sé um móralska stuðninginn.

Stressuð - hvað?

Ég hef stundum verið að spekúlera í hvernig stress hefur mismunandi áhrif á fólk. Þið vitið hvernig sumum fallast hendur undir álagi meðan aðrir segjast aldrei vinna betur en einmitt þá.

Ég hef nefnilega alveg einstakt lag á því að hafa áhyggjur og stressa mig yfir hlutum og aðstæðum.
Og ekki bara stórum og mikilvægum hlutum heldur ekki síður yfir einhverju litlu og jafnvel nauðaómerkilegu.
Og það er allt of oft sem ég burðast með klump í maganum, ógleði og hjartslátt upp í háls. Og á meðan er hugurinn á fleygiferð.

Og ég öfunda þá sem að geta tekið á stressinu og unnið með það á jákvæðan hátt. Bæði þá sem róa sig með því að koma röð og reglu á næsta umhverfi og líka þá sem ná að nýta óróann með því að taka á í ræktinni eða hlaupa út um allar jarðir. Augljósir kostir, fyrir utan kyrrari huga, eru náttúrulega annars vegar snyrtilegra umhverfi og hins vegar stæltari einstaklingur.

Ég hef meira að segja öfundað þá sem missa matarlyst við þessar aðstæður.

Því ekkert af þessu á við um mig.
Ónei.
Því miður.

Stressuð hef ég sko enga eirð í tiltekt, mig langar ekki vitund í ræktina og það hvarflar bara ekki að mér að fara út að hlaupa. Meira að segja bækur og handavinna ná ekki að halda athyglinni.

Ég freistast hins vegar í eldhúsinu.
Baka...
narta...
og narta meira

Sem hefur náttúrulega hræðilegar afleiðingar.

En eins og allir vita að þegar stressið hellist yfir þá er það allra meina bót að setjast niður með notalegu fólki.
Og spjalla.
Og hlæja svolítið.

Og maður áttar sig allt í einu á að stressklumpurinn er horfinn.

föstudagur, 6. ágúst 2010

Skógarhögg

Það er stór og falleg ösp fyrir framan hús hjá mér.
Ja þær eru eiginlega þrjár á örlitlum bletti.

Undanfarið ár eða svo hefur ein þeirra tekið upp á því að halla í átt að húsinu.
Og ég verð að játa að ég hef haft af því dálitlar áhyggjur - og er alls ekki viss hvort þak og gluggar þoli ef hún skyldi nú taka upp á því að fara alveg á hliðina.
En ég var samt ekki alveg til í að fórna þeim öllum.

Og eftir að hafa borið okkur upp við fólk sem vit hefur á málum - ákváðum við að láta slag standa og freista þess að fella hættuvaldinn.
Það dæmdist á Ingó að klífa tréð og saga niður greinar...
...en ég stóð fyrir neðan, hrópaði hvatningarorð og sýndi móralskan stuðning.

Og greinarnar fóru hver af annarri - þar til ekkert var eftir nema þriggja metra stofnspíra.
Nú vantar okkur bara stóra sög - þá er þetta komið.

miðvikudagur, 4. ágúst 2010

Verslunarmannahelgi

Við vorum bara þrjú heima um verslunarmannahelgina.

Stóri drengurin fór til Eyja á fimmtudagskvöld.
Eitthvað sem hann var búinn að plana með margra vikna fyrirvara.
Og systir hans ákvað með aðeins styttri undirbúningi að fara á sama stað á laugardeginum.

En við vorum sem sagt heima.
Og fannst það bara fínt.
Að snudda í garðinum, fella tré, sauma og lesa.
Og Asi og vinir hans fóru í tjaldútilegu í garðinum og skemmtu sér hið besta langt fram á nótt.

Eitt kvöldið fórum við út að borða.
Á Sægreifann sem er niðri við höfn - í alveg dásamlegu umhverfi.
Veðrið var eins og eftir pöntun svo að við sátum úti og borðuðum hina víðfrægu fiskisúpu Sægreifans.
Súpan er borin fram í glærri skál og með henni fær maður einnota plastskeið. Súpan sem er ljómandi góð, komst samt ekki í hálfkvisti við lúðubita á teini, sem eru þeir alalbestu sem ég hef smakkað.
Og með þessu drukkum við hvítvín úr plastglasi.
Ekki kannski fínt og lekkert en stemmingin maður.


Asi kunni þó ekki alveg að meta gæðin.
Harðneitaði að borða súpu eða fisk.
Og vildi alls ekki kók (sem var reyndar pepsi).

Málinu var því reddað á bakaleiðinni.

laugardagur, 31. júlí 2010

Saumadagur

Veðrið er milt og allt úti er sérkennilega grátt.
Það er þokumistur yfir öllu og einhvers konar ævintýrablær.
Og fyrstu regndroparnir eru að falla.

Það bara gerast ekki betri saumadagar en þetta.

föstudagur, 30. júlí 2010

Mmmm

Ég elska carpaccio.
Og hef alltaf haldið að það væri aðeins á færi alfærustu matreiðslumanna að útbúa það - en ekki okkar venjulega fólksins.
Og hef borgað morð fjár fyrir þennan rétt á veitingastöðum.

En nú er ég búin að finna leið.
Á bændamarkaði Frú Laugu á Laugalæknum er hægt að kaupa carpaccio í neytendaumbúðum.
Fyrir sáralítinn pening.

Maður þarf ekkert að gera nema setja það á diska.
Ja setja kannski smá olíu, salt og pipar.
Og parmesan. Mikið af honum.

Og svo bara njóta.

fimmtudagur, 29. júlí 2010

Endurnýting og endurvinnsla

Ég hef alltaf verið dálítið veik fyrir hugsuninni um að endurvinna hluti.
Finnst það eiginlega dálítið smart - fyrir utan auðvitað hvað það er gott fyrir umhverfið.

Oft hefur það þó verið meira í orði en á borði hjá mér eins og fleirum.

En þessi hugsunin að henda ekki heldur nota áfram virkar svo vel á mig.
Og ég er svo sem alltaf að reyna.

Ég safna dagblöðum og þvæ mjólkurumbúðir og fer með á viðeigandi staði.
Og í nokkur ár höfum við safnað lífrænum úrgangi sem til fellur úr eldhúsinu í moltutunnu útí í garði - og það er auðvitað ákveðið kikk að sjá ruslið verða að fínustu gróðurmold.

Eitt af því sem heillaði mig við bútasauminn á sínum tíma var þessi hugsun að nýta allt sem til féll og búa til nýja flotta hluti. Það var náttúrulega vegna fátæktar og kreppu sem hann varð upphaflega til. Engu mátti henda sem hægt var að nýta áfram og nýjar flíkur voru saumaðar úr gömlum.
Ja -svo reyndar klikkaði ég illilega, þegar ég datt í bútasauminn, á því að það var auðvitað mun skemmtilegra að kaupa ný og falleg efni. En það eimir þó af nýtni hugsun hjá mér því ég get ekki hent einum einasta fjandans efnisbút - því kannski kemur hann að notum síðar.

En hvað um það. Hugsunin er til alls fyrst eins og einhver sagði.
Og ég er markvisst að vinna niður lagerinn ... og reyna að stilla mig um impulskaup. Því ég get játað það hér að ég hef eytt stórum fjárhæðum í sparnaðarinnkaup.

En í gær var ég í endurvinnslugírnum.
Þá urðu tveir bolir að tveimur strákaboxerum.
Og nýji eigandinn er bara nokkuð ánægður.
Og mamma hans líka.

þriðjudagur, 27. júlí 2010

Húrra húrra húrra

Ég fór í ræktina í morgun.
Rétt eins og ekkert væri sjálfsagðara.
Hljóp á brettinu á hraðanum 12 með 15 % halla í þrjú korter.

Neibb bara grín.
Glætan að ég geti það.

En ég fór samt í ræktina - í fyrsta skipti í meira en eitt og hálft ár.
Gekk á brettinu í nærri 20 mínútur og hljóp í ...uhmm ...180 sekúntur.
Brenndi 120 kalóríum - ef brettið lýgur ekki.

Mér reiknast til að með því að halda svona áfram á hverjum degi muni ég ná kjörþyngd eftir svona 20 - 25 ár.

En ég er þrátt fyrir það bara nokkuð ánægð með mig.

mánudagur, 26. júlí 2010

Taska

Ég er búin að sitja dálítið drjúgt við saumavélina í dag.
Þessi taska er þó það eina sem er tilbúið fyrir sýningu.

Efnin eru upprunalega úr Ikea en ég átti þau bæði til á lagernum.

Taskan getur snúið hvort sem maður vill með röndóttu hliðina út og rautt fóður - eða rautt út og röndótt fóður.
Ég setti flíselín í botninn til að styrkja hann.

Overlockvél

Ég vildi bara hafa það skjalfest að ég gat þrætt overlockvélina.
Alveg ein og sjálf
(með aðstoð leiðarvísisins)
Ég vissi að þetta námskeið myndi borga sig.

laugardagur, 24. júlí 2010

Pils fyrir frúna

Það er alveg ótrúlegt hvað mikið er til að efnum á þessu heimili.
Alls konar bútar, af mismunandi gerð, lit og stærð.

Í kassa fann ég þrjá búta af bláu joggingefni.
Akkúrat af passlegri stærð í buxur á svona sirka 2- 4 ára gutta.
Sem ég á auðvitað ekki í dag en hef væntanlega átt þegar ég keypti bútana.

Þannig að það er náttúrulega heilmikil áskorun - nýtingin altsvo - (útséð með það að ég eigi fleiri 2-4 ára stráka - í bili)
Hugs hugs.

Ég ákvað því að prófa að sauma pils.
Í fullorðins stærð.

Og hér má sem sagt sjá afraksturinn.

fimmtudagur, 22. júlí 2010

Kleinudagurinn mikli

Eitt af því sem ég var búin að plana í sumar var að baka kleinur.
Í gegnum árin hef ég gert nokkrar tilraunir til kleinubaksturs en árangurinn hefur í stuttu máli sagt verið herfilegur.
Og þá er ég ekki að ýkja.
Ýmist verður feitin of heit og þá verða kleinurnar svartar að utan og hráar inní eða þá að feitin er ekki nógu heit og þá drekka kleinurnar í sig alla feitina.
Og það leiðir til sömu niðurstöðu - því afraksturinn verður algjört óæti.

Það eru margar vikur síðan ég sá að ég yrði að fá aðstoð við baksturinn og talaði því við kleinusérfræðing sem er reyndur í sínu fagi og á trausta uppskrift.

Það var þó ekki fyrr en í dag sem kom að kleinudeginum mikla -því eins og allir vita þá eyðir maður ekki sólardegi slíkan bakstur.

Þetta var ekkert smá flott - við notuðum fjögur kíló af hveiti og fengum yfir 300 kleinur. Steiktum svo allt upp úr fjórum lítrum af Isio olíu.

Og svona er uppskriftin:

Kleinur

1 kg. hveiti
150 gr. smjör brætt
250 gr. sykur
3 egg
4 tsk. lyftiduft og 2 tsk. matarsódi
1 glas kardimommudropar
1 glas vanilldropar
1 peli súrmjólk eða rjómi

Eggin, sykurinn og smjörið hrært, öllu blandað saman við, hnoðað létt saman. Varist að gera deigið seigt. Rúllið útí ferhyrnig, ekki mjög þunnt. Búið til kleinur. Steikið í Isio-olíu - ljósbrúnt.

sunnudagur, 18. júlí 2010

Kjóll fyrir fröken

Verkefni vikunnar er kjóll á fröken B. (sem ég get líka notað).
Hann er búinn að vera dálítið lengi í smíðum - þó svo að sjálfur saumaskapurinn tæki ekki svo langan tíma.

Í hann notaði ég efni af lagernum - efni sem er frá því einhvern tíma á seinustu öld.
Sniðið er úr Ingelise (þarf að fletta upp hvaða)- og er sáraeinfalt -
Þetta er a-snið, þar sem smávegis tekið úr handvegi og svo er snúra þrædd efst á fram- og bakstykki.

Sól, sól, sól

Þetta er búin að vera alveg yndisleg vika og hefur liðið eins og örskot.

Ég hef bæði fundið mér tíma til að dundast eitthvað sjálf og svo hef ég líka tekið mig verulega á í félagslegri þáttum.
Þó ég hafi ekki verið neitt svakalega dugleg í vikunni að gera handavinnu þá hef ég lesið þeim mun meira, sólað mig frá morgni til kvölds (hja svona um það bil), hitt fólk, farið á kaffihús, í afmæli og í prjónaklúbb.
Ótrúlega aktív.

En í morgun er ég búin að vera heima að snuddast. Ein.
Stóri drengurinn er að vinna (eins og alla daga) og hin þrjú eru niðri í Kópavogsdal og taka þátt í Símamóti með einum eða öðrum hætti.

Og ég er komin í bikiníið og sest út á pall - með andlitið í sólina.
Alveg guðslifandifegin að hafa öll þessi tré sem skapa skjól fyrir vindi og nágrannaaugum.

laugardagur, 17. júlí 2010

Nýjar kartöflur

Nýjar kartöflur úr garðinum.
(Ja þessar eru nú reyndar ræktaðar keri uppi á palli)
- en fyrsta uppskeran er sem sagt komin í pott.

sunnudagur, 11. júlí 2010

Bröns í bongóblíðu

Það var ótrúlegt hvað það rættist úr veðrinu í morgun.
Fyrst var skýjaslæða yfir öllu en smá saman varð himininn nær alveg heiður og hitastigið fór bara upp á við.
Við komum okkur vel fyrir úti með bækur -og gott kaffi í seilingarfjarlægð.
Og ég er þvílíkt ánægð með fjarsýnissólgleraugun mín.

Ég er að lesa bókina Enzo sem á að taka fyrir í næsta prjónlesklúbbi.
Dálítið skrítin bók. Ég er ekki alveg viss hvað mér finnst um hana og bíð spennt eftir því að heyra hvað hinar stelpurnar segja.

Í hádeginu var okkur boðið í bröns.
Á risastórum svölum á þriðju hæð - með útsýni yfir allan bæ.
Veðrið var alveg frábært, maturinn æðislegur og fólkið skemmtilegt.
Við gleymdum okkur alveg og sátum í marga tíma.

Þetta getur bara ekki verið betra.

Púða lokið

Jæja nýju dúllurnar eru komnar á sinn stað þeirra sem 'láku'-
Ég er búin með bakstykkið og að hekla púðann saman.
Stærðin er fín 40x40

Ég var að spá í að hafa rennilás til að það væri þægilegra að taka ytra byrðið af til að þvo það
- en mundi svo að druslan lak - og verður því kannski ekki mikið þvegin. :-(
Ekki gott.
En að því frátöldu er ég bara ánægð með gripinn.

laugardagur, 10. júlí 2010

Minningar

Við systur hittumst í kaffi í dag - eins og svo oft áður.
Mér finnst það alveg frábært að sitja svona saman og ég held að henni finnist það líka.

Og við spjöllum og hlæjum, rifjum upp minningar eða kryfjum þetta daglega.
Og oft náum við ágætis flugi og oft fáum við fínar hugmyndir.

Í dag datt henni systur minni í hug að horfa á gamlar vídeomyndir.
Myndir sem voru teknar fyrir 20 árum þegar elstu krakkarnir voru litlir.
Og við vorum ungar og fallegar.

Þetta var gjörsamlega frábær dagur.
Við horfðum dolfallnar á mömmu leika við EH meðan hún mataði hann.
Og hlógum þar til við fengum í magann þegar mamma og fröken B. sem þá var tveggja ára sungu Ó Jesú bróðir besti og spjölluðu um bók.
Og við drukkum í okkur myndir af mömmu og pabba á ferðalagi um verslunarmannahelgi.
Og nutum þess að heyra raddirnar þeirra.

Þegar þriðja systirin var búin að vinna kom hún líka.
Við borðuðum allar saman saman og héldum svo áfram með vídeóið.

Þetta er náttúrulega fjársjóður. En pabbi og mamma voru nokkuð dugleg að taka myndir og enn er eitthvað til sem við eigum eftir að skoða.

Vá hvað ég hlakka til þegar við verðum búnar að setja kvikmyndirnar á stafrænt form.

föstudagur, 9. júlí 2010

Frjókorn

Frjókorn yfir öllu rétt eins og snjóskaflar.

Bæjarferð

Við Maja skruppum í bæjarferð í dag.

Við settumst við besta borðið á stéttinni fyrir framan Kaffi París, borðuðum salat og sóluðum okkur.
Blankalogn.
Bara frábært.

Gengum svo um og kíktum í búðir og ég keypti mér skyrtu.
Ekki slæmt.

Dagar

Það er svolítið fyndið að suma daga hittir maður ekki lifandi veru.
Það eru svona dagar þegar maður lúsles fréttablaðið og kemur sér svo fyrir í rólegheitum með bók eða handavinnu og er bara einn að dunda.

Svo eru aðrir dagar sem eru einhvern veginn allt öðru vísi.
Fólk kíkir í kaffi -og algjörlega óvænt koma allir á sama tíma - eins og þeir hafi sammælst um það og húsið iðar af lífi.

fimmtudagur, 8. júlí 2010

Loksins sól

Það rættist úr veðrinu seinni partinn.
Sól og blíða.
Vá hvað ég var búin að bíða lengi eftir þessu.

miðvikudagur, 7. júlí 2010

Reddingar

Í morgun fékk ég konur í kaffi sem reyndust miklir handavinnureddarar.
Þeim fannst agalegt að henda heklustykkinu til hliðar - en auðvitað kæmi aldrei til greina að hafa það eins og það var.

Þær fengu skæri og klipptu á þræði - og röktu upp ....
Og ég heklaði og setti saman og voila.. nýtt framstykki.

Á eftir setti ég garnið í klór til að reyna að ná litnum úr.
En ekki að ræða það - hann var pikkfastur.

mánudagur, 5. júlí 2010

Með tár í augum

Undanfarna daga hef ég verið að hekla dúllur.
Sem áttu að verða að púða.
Sumarlegum púða í öllum litum.

Og í gærkveldi þegar framstykkið var tilbúið ákvað ég að skola það í volgu vatni - og laga það og slétta.

Og fékk svo áfall í morgun þegar ég sá ....
...haldiði að appelsínuguli liturinn hafi ekki 'lekið' og litað út frá sér.

Ég gæti sko grátið.

sunnudagur, 4. júlí 2010

Nærbolaprjón

Ég pantaði mér ullargarn frá J.C Rennie í Skotlandi í vor.
Æðislegt garn, 900 grömm af 100 % shetlandsull.

Ullin kemur á stórum spólum, óþvegin og angandi af ... ja ég veit ekki hverju - einhvers konar olíu kannski.

Þetta er svakalega skemmtilegt efni að vinna með.
En ég var dálítið óheppin með litinn.
Ekki alveg litur fyrir mig.
Sem var þó meiningin þegar ég pantaði.
Þetta reyndist dálítið babylegt.

Ég ákvað að prófa að prjóna nærbol.
Fitjaði upp 120 lykkjur.
Prjónaði 25 cm (held ég), felldi af 8 undir ermi og fitjaði svo upp 32 fyrir axlarstykki.
Felldi af í annarri hverri umferð með laskaúrtöku.

Nú verður spennandi að sjá hvernig bolurinn nýtist - garnið er auðvitað töluvert snarpara en babyullin sem ég hef áður notað. Og svo má alls ekki þvo hann í vél.

laugardagur, 3. júlí 2010

Af lífi og sál

Ég legg mig alla fram á þessu fótboltamóti.
Ég reyni að fylgjast með leikjum míns liðs eins vel og hægt er og halda einbeitingu út allan leikinn.
Sem tekst bara nokkuð vel þó ég segi sjálf frá.
Svona oftast nær að minnsta kosti.
Smá einbeitingarleysi, þar sem ég stúderaði klæðaburð foreldra - veðrið eða eitthvað annað, hefur samt haft af mér mörk.

Ég er eiginlega best á klukkunni.
Ég er alltaf með það alveg á hreinu hvað margar mínútur eru eftir af leiknum.
Og get sko alltaf svarað því hvað leiktímanum líður- þó ég sé kannski ekki alveg viss hvernig markatalan er eða hvort liðið sé að vinna.

Eitt er það sem ég þarf að æfa mig í er lingóið sem tilheyrir boltanum.
Ég dáist mjög að þeim sem geta hrópað gáfulegar og uppbyggilegar athugasemdir sem hvetja leikmenn og hafa mögulega áhrif á gang leiksins.

Og ég legg mig alla fram við að læra viðeigandi orð og setningar.
Á þessu móti hef ég lært eftirfarandi:

preeessa
maður - maður
berjast
koma svo
ákveðinn
rólegur
vel gert
spila strákar
Og strákarnir standa sig eins og hetjur þrátt fyrir hróp og köll foreldranna.

fimmtudagur, 1. júlí 2010

1. júlí

Í dag rignir eins og hellt sé úr fötu.
Himnarnir hafa opnast.
Það er skítaveður.

Fína gistiherbergið er í útihúsi með oggu litlum glugga -og veggir og gólf eru ekki einangruð.
Og í herberginu er bæði rakt og skelfilega kalt.

Í dag er akkúrat eitt ár frá því að mamma dó.
Kannski er fyrsta 'dánarafmælið' erfiðast.
Ég veit það ekki.

(Er annars til annað orð en dánarafmæli. Það hljómar svolítið bjánalega. - Maður tengir afmæli við eitthvað gleðilegt.)

En mamma hefur verið rosalega sterk í huganum hjá mér í dag og undanfarna daga.

Og í dag er Ingó umsjónarmaður og fylgir liðinu.
Og ég er ein að vorkenna sjálfri mér.

Mér er kalt.
Ég er með höfuðverk.
Mér er illt í maganum.
Mér er óglatt.

Asi keppir þrjá leiki í dag.
Og þrisvar harka ég af mér og mæti upp á völl.

miðvikudagur, 30. júní 2010

Sól...

... og hiti og Akureyri skartar sínu fegursta.

Asi átti ekki leik fyrr en undir kvöld - þannig að við spókuðum okkur bara í bænum.

Þetta verður fín vika.

þriðjudagur, 29. júní 2010

Akureyri enn á ný

Aftur er stefnan tekin á Akureyri.
Asi er að fara á N1-fótboltamót - eins og nær allir 11 og 12 ára strákar á Íslandi.
Og við förum að sjálfsögðu með.

Við ætlum að hafa vaðið fyrir neðan okkur og erum búin að panta gistingu á vel staðsettu gistiheimili.
Við nennum sko ekki að kúldrast í tjaldi, í vosbúð og kulda.
Onei.

Tengdamamma ætlar að vera okkur samferða en hún er að fara að heimsækja skyldfólk í Þingeyjarsýslunni.

sunnudagur, 27. júní 2010

Algjörlega óvænt

Kemur á óvart.
Viskustykki.
Enn og aftur.

Þau eru svolítið erfið þessi köflóttu efni. Þau passa einhvern veginn ekki með neinun öðrum efnum.

Annars finnst mér þetta efni fínt- það minnir mig dálítið á skyrturnar hans pabba.

laugardagur, 26. júní 2010

Garðurinn

Það er ekkert smá flott spretta í garðinum.
Jarðarberjaplöntur, kál og kartöflugrös hafa vaxið heilmikið - og ég er aðeins búin að vera viku í burtu.
Og sírenan ilmar - í fullum blóma.

föstudagur, 25. júní 2010

Komin heim

Vöknuðum í morgun í þessari líka svaka blíðu.
(Gula fíflið mætt.)
En við létum það ekki trufla okkur - enda áttum við að skila íbúðinni klukkan 12.

Tókum smá krók og skutluðum systurbarnabarni og mömmu þess út á Dalvík.
Keyrðum til baka.
Og kláruðum að þrífa, pakka í bílinn og skila lyklum.

Lögðum svo af stað heim á hádegi - í sól og 13 stiga hita.

Í Varmahlíð er skyldustopp.
Þar stoppa ég aaalltaf.
Þetta er svona forfeðratenging.
Og sólin í Skagafirði bregst ekki frekar en venjulega.
Og núna var hitinn kominn í 19 stig.

Í Varmahlíð fást líka þær bestu grilluðu samlokur sem sögur fara af.
Núna var bara stutt stopp - og samlokurnar voru teknar með í bílinn.

Öll ferðin heim gekk svakalega vel.
Og tók aðeins fimm tíma.
Þrátt fyrir stopp á öllum skyldustöðum.
Við erum bara nokkuð ánægð með okkur.

fimmtudagur, 24. júní 2010

Skrítin reynsla

Eitt af því sem ég hef gert undanfarna daga er að fara í Te og kaffi í Eymundsson og fá mér frappó eða íste.
Maður getur eiginlega orðið háður þessu.

Frappóið hefur alltaf verið frábært rétt eins og frappó á að vera.
Ískalt með íshröngli.
Og þjónustan hefur verið fín.

Þar til í dag.
Þá klikkaði hvorutveggja.

Ég fékk kaffi - sem var vissulega kalt en lapþunnt og í þvi var ekki vottur af íshröngli.
Þetta var bara þunnt kalt kaffi, eins og maður hefði gleymt bollanum á borðinu.

Fyrst ætlaði ég bara að spyrja hvort þetta ætti að vera svona þunnt - þá sagðist sú í afgreiðslunni geta bætt smá klökum útí.
Mér leist ekkert á það. Sagði að þetta væri eiginlega bara kalt kaffi.
Þá fékk ég að vita með miklum þjósti og áherslum að frappó væri kalt kaffi.

(Sem er auðvitað alveg rétt - og ég vissi - en fram að þessu hefur það þó verið meira í líkingu við bæði væntingar mínar og mynd á auglýsingu. Og þetta kaffi stóðst engan veginn þær væntingar. )
Þá kom hinn á vaktinni inn í málið - og sagði að smekkur manna væri misjafn. Og þegar ég benti á myndina að þykka fína frappóinu sagði hann þau aldrei hafa afgreitt loklaust frappó.

Ég ákvað að láta þetta mál ganga lengra - og tók af þeim mynd til að láta fylgja með kvörtunarbréfi.
Þá ruku þau á mig og sögðu myndatökur bannaðar og heimtuðu að ég eyddi myndinni. Núna og fyrir framan þau.

Ég verð nú að játa að ég er í smá sjokki yfir viðbrögðunum.