miðvikudagur, 4. ágúst 2010

Verslunarmannahelgi

Við vorum bara þrjú heima um verslunarmannahelgina.

Stóri drengurin fór til Eyja á fimmtudagskvöld.
Eitthvað sem hann var búinn að plana með margra vikna fyrirvara.
Og systir hans ákvað með aðeins styttri undirbúningi að fara á sama stað á laugardeginum.

En við vorum sem sagt heima.
Og fannst það bara fínt.
Að snudda í garðinum, fella tré, sauma og lesa.
Og Asi og vinir hans fóru í tjaldútilegu í garðinum og skemmtu sér hið besta langt fram á nótt.

Eitt kvöldið fórum við út að borða.
Á Sægreifann sem er niðri við höfn - í alveg dásamlegu umhverfi.
Veðrið var eins og eftir pöntun svo að við sátum úti og borðuðum hina víðfrægu fiskisúpu Sægreifans.
Súpan er borin fram í glærri skál og með henni fær maður einnota plastskeið. Súpan sem er ljómandi góð, komst samt ekki í hálfkvisti við lúðubita á teini, sem eru þeir alalbestu sem ég hef smakkað.
Og með þessu drukkum við hvítvín úr plastglasi.
Ekki kannski fínt og lekkert en stemmingin maður.


Asi kunni þó ekki alveg að meta gæðin.
Harðneitaði að borða súpu eða fisk.
Og vildi alls ekki kók (sem var reyndar pepsi).

Málinu var því reddað á bakaleiðinni.

Engin ummæli: