fimmtudagur, 29. júlí 2010

Endurnýting og endurvinnsla

Ég hef alltaf verið dálítið veik fyrir hugsuninni um að endurvinna hluti.
Finnst það eiginlega dálítið smart - fyrir utan auðvitað hvað það er gott fyrir umhverfið.

Oft hefur það þó verið meira í orði en á borði hjá mér eins og fleirum.

En þessi hugsunin að henda ekki heldur nota áfram virkar svo vel á mig.
Og ég er svo sem alltaf að reyna.

Ég safna dagblöðum og þvæ mjólkurumbúðir og fer með á viðeigandi staði.
Og í nokkur ár höfum við safnað lífrænum úrgangi sem til fellur úr eldhúsinu í moltutunnu útí í garði - og það er auðvitað ákveðið kikk að sjá ruslið verða að fínustu gróðurmold.

Eitt af því sem heillaði mig við bútasauminn á sínum tíma var þessi hugsun að nýta allt sem til féll og búa til nýja flotta hluti. Það var náttúrulega vegna fátæktar og kreppu sem hann varð upphaflega til. Engu mátti henda sem hægt var að nýta áfram og nýjar flíkur voru saumaðar úr gömlum.
Ja -svo reyndar klikkaði ég illilega, þegar ég datt í bútasauminn, á því að það var auðvitað mun skemmtilegra að kaupa ný og falleg efni. En það eimir þó af nýtni hugsun hjá mér því ég get ekki hent einum einasta fjandans efnisbút - því kannski kemur hann að notum síðar.

En hvað um það. Hugsunin er til alls fyrst eins og einhver sagði.
Og ég er markvisst að vinna niður lagerinn ... og reyna að stilla mig um impulskaup. Því ég get játað það hér að ég hef eytt stórum fjárhæðum í sparnaðarinnkaup.

En í gær var ég í endurvinnslugírnum.
Þá urðu tveir bolir að tveimur strákaboxerum.
Og nýji eigandinn er bara nokkuð ánægður.
Og mamma hans líka.

Engin ummæli: