laugardagur, 7. ágúst 2010

Stressuð - hvað?

Ég hef stundum verið að spekúlera í hvernig stress hefur mismunandi áhrif á fólk. Þið vitið hvernig sumum fallast hendur undir álagi meðan aðrir segjast aldrei vinna betur en einmitt þá.

Ég hef nefnilega alveg einstakt lag á því að hafa áhyggjur og stressa mig yfir hlutum og aðstæðum.
Og ekki bara stórum og mikilvægum hlutum heldur ekki síður yfir einhverju litlu og jafnvel nauðaómerkilegu.
Og það er allt of oft sem ég burðast með klump í maganum, ógleði og hjartslátt upp í háls. Og á meðan er hugurinn á fleygiferð.

Og ég öfunda þá sem að geta tekið á stressinu og unnið með það á jákvæðan hátt. Bæði þá sem róa sig með því að koma röð og reglu á næsta umhverfi og líka þá sem ná að nýta óróann með því að taka á í ræktinni eða hlaupa út um allar jarðir. Augljósir kostir, fyrir utan kyrrari huga, eru náttúrulega annars vegar snyrtilegra umhverfi og hins vegar stæltari einstaklingur.

Ég hef meira að segja öfundað þá sem missa matarlyst við þessar aðstæður.

Því ekkert af þessu á við um mig.
Ónei.
Því miður.

Stressuð hef ég sko enga eirð í tiltekt, mig langar ekki vitund í ræktina og það hvarflar bara ekki að mér að fara út að hlaupa. Meira að segja bækur og handavinna ná ekki að halda athyglinni.

Ég freistast hins vegar í eldhúsinu.
Baka...
narta...
og narta meira

Sem hefur náttúrulega hræðilegar afleiðingar.

En eins og allir vita að þegar stressið hellist yfir þá er það allra meina bót að setjast niður með notalegu fólki.
Og spjalla.
Og hlæja svolítið.

Og maður áttar sig allt í einu á að stressklumpurinn er horfinn.

Engin ummæli: