laugardagur, 10. júlí 2010

Minningar

Við systur hittumst í kaffi í dag - eins og svo oft áður.
Mér finnst það alveg frábært að sitja svona saman og ég held að henni finnist það líka.

Og við spjöllum og hlæjum, rifjum upp minningar eða kryfjum þetta daglega.
Og oft náum við ágætis flugi og oft fáum við fínar hugmyndir.

Í dag datt henni systur minni í hug að horfa á gamlar vídeomyndir.
Myndir sem voru teknar fyrir 20 árum þegar elstu krakkarnir voru litlir.
Og við vorum ungar og fallegar.

Þetta var gjörsamlega frábær dagur.
Við horfðum dolfallnar á mömmu leika við EH meðan hún mataði hann.
Og hlógum þar til við fengum í magann þegar mamma og fröken B. sem þá var tveggja ára sungu Ó Jesú bróðir besti og spjölluðu um bók.
Og við drukkum í okkur myndir af mömmu og pabba á ferðalagi um verslunarmannahelgi.
Og nutum þess að heyra raddirnar þeirra.

Þegar þriðja systirin var búin að vinna kom hún líka.
Við borðuðum allar saman saman og héldum svo áfram með vídeóið.

Þetta er náttúrulega fjársjóður. En pabbi og mamma voru nokkuð dugleg að taka myndir og enn er eitthvað til sem við eigum eftir að skoða.

Vá hvað ég hlakka til þegar við verðum búnar að setja kvikmyndirnar á stafrænt form.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

hinni systurinni finnst það líka :)
ÞS