fimmtudagur, 22. júlí 2010

Kleinudagurinn mikli

Eitt af því sem ég var búin að plana í sumar var að baka kleinur.
Í gegnum árin hef ég gert nokkrar tilraunir til kleinubaksturs en árangurinn hefur í stuttu máli sagt verið herfilegur.
Og þá er ég ekki að ýkja.
Ýmist verður feitin of heit og þá verða kleinurnar svartar að utan og hráar inní eða þá að feitin er ekki nógu heit og þá drekka kleinurnar í sig alla feitina.
Og það leiðir til sömu niðurstöðu - því afraksturinn verður algjört óæti.

Það eru margar vikur síðan ég sá að ég yrði að fá aðstoð við baksturinn og talaði því við kleinusérfræðing sem er reyndur í sínu fagi og á trausta uppskrift.

Það var þó ekki fyrr en í dag sem kom að kleinudeginum mikla -því eins og allir vita þá eyðir maður ekki sólardegi slíkan bakstur.

Þetta var ekkert smá flott - við notuðum fjögur kíló af hveiti og fengum yfir 300 kleinur. Steiktum svo allt upp úr fjórum lítrum af Isio olíu.

Og svona er uppskriftin:

Kleinur

1 kg. hveiti
150 gr. smjör brætt
250 gr. sykur
3 egg
4 tsk. lyftiduft og 2 tsk. matarsódi
1 glas kardimommudropar
1 glas vanilldropar
1 peli súrmjólk eða rjómi

Eggin, sykurinn og smjörið hrært, öllu blandað saman við, hnoðað létt saman. Varist að gera deigið seigt. Rúllið útí ferhyrnig, ekki mjög þunnt. Búið til kleinur. Steikið í Isio-olíu - ljósbrúnt.

Engin ummæli: