mánudagur, 30. ágúst 2010

Pabbi


Átta ár.

Það er ótrúlegt hvað tíminn líður.

En í dag eru átta ár síðan pabbi dó.

Pabbi var..

.. stór og kraftmikill og forkur til vinnu
.. fyndinn og rak upp hláturrokur sem áttu uppruna lengst ofan í maga
.. heiðarlegur og réttsýnn
.. hugrakkur
.. maður með skoðanir - en flíkaði þeim ekki í óspurðum
.. maður sem gott var að leita til

Ég man setningar sem hann sagði, frasana, áherslurnar, brosið, hendurnar..
..og ég man hvernig hann hristist allur þegar hann hló

það eru komin átta ár ...
og ég sakna hans á hverjum degi

sunnudagur, 29. ágúst 2010

Litun

Það eru mörg ár síðan ég litaði seinast.
Ég man að það var gífurlegt maus.
Risastór pottur á eldavélinni - sjóðandi vatn og litaslettur út um alla veggi.

Í dag er þetta allt annað.
Ekkert mál að henda lit og salti í þvottavélina ásamt því sem lita á.
Segja þeir sem hafa prófað.
Og ég ákvað að reyna líka.

Ég átti efnisbúta (kemur á óvart) í litum sem nýttust engan veginn.
Slatta af hvítu þykku efni sem væri kjörið að nota í töskur ef það væri dekkra.
Dálítinn bút í babyljósbláu.
Og smá jersey-bút í óræðum gul-græn-brúnum lit.

Allt fór þetta í vélina ásamt lit.
Alls ekki flókið.
Svo var bara að vona að efnin væru ekki úr allt of miklu gervi - svo þau tækju við litnum.
Afraksturinn var að mestu leyti grár.

Hvíta efnið, sem er lengst til vinstri á myndinni, varð milligrátt.
Ljósbláa efnið varð ljósgrátt.
En jerseybúturinn fékk þennan fína kolsvarta lit.
Það var ágætt að ég skellti honum með - annars hefði ég haldið að ég hefði klúðrað lituninni.

Ætla að prófa þetta aftur við fyrsta tækifæri.

Handavinnuraunir


Ég er búin að grauta í alls konar handavinnu undanfarið.

Ég saumaði nærföt - hmm á mig, sem ég hef ekki alveg verið tilbúin að sýna hér.
Svo er ég með bútasaumsteppi sem er langt komið.
Með þessu er ég með tvær peysur í vinnslu - önnur var alveg að klárast þegar ég stakk henni til hliðar - og hin er styttra komin.
Tveir nærbolir eru eiginlega tilbúnir - ég þarf bara að klára að hekla líningu og þá eru þeir tilbúnir.
Svo á ég slatta af stökum sokkum og vettlingum sem þurfa auðvitað einhvern tíma að fá makkera.

En ég á greinilega við eitthvað kláruvandamál að stríða þessa dagana.
Langar hreint ekkert að ganga ljúka við og ganga frá.
Finnst skemmtilegra að byrja á einhverju nýju.

Og í dag ákvað ég að sauma nálapúða.
Fullt af þeim.

Ákvað að nota efni úr afgangakörfunni sem geymir búta sem eru svo litlir að þeir nýtast eiginlega ekki í neitt (en má samt ekki henda) eða eru í skrítnum - eða jafnvel ljótum litum (en má samt ekki henda).

Gerði fyrst fjóra - og bætti svo einum enn við.
Enda nauðsynlegt að eiga allskonar nálapúða.

Inn í púðana fór ullarkembuafgangur sem ég er búin að eiga síðan hér um árið er ég fór í gegnum þæfingartímabilið.
Hugsið ykkur ef ég hefði nú verið búin að henda kembunni.




laugardagur, 28. ágúst 2010

Laugardagur

Laugardagur er minn uppáhaldsdagur.

Jafnvel laugardagur eins og í dag þegar ég vakna þreytt eftir næturgöltur með beinverki, vöðvaverki og ónýtar tær.

Ég er greinilega ekki í nógu góðri hælaskóþjálfun eftir heilt sumar á fótlaga sandölum.

Og var með áhyggjur af því að þurfa að styðjast við göngugrind í dag.
En það slapp þó fyrir horn.

Sem var eins gott því planið í dag var vinkonumiðbæjarferð.

Þá tilheyrir að rölta Skólavörðustíg, skoða í fatabúðir, fara á kaffihús og skoða í bókabúðir.

Jamm og svo fórum við reyndar líka á opnun listsýningar.
Þetta var samsýning nokkurra einstaklinga og viðfangsefni hennar var silkiþrykk - í mismunandi útfærslum.


Sumt var bara nokkuð flott.
Sérstaklega þar sem myndir voru þrykktar á efni.
Ég gæti alveg hugsað mér að læra þessa tækni.
Og sé fyrir mér púða, töskur og fleira því um líkt.

Ég náði að versla bráðnauðsynlega hluti eins og fataliti og salt.

Og var svo ljónheppinn að finna bolla - einmitt eins og mig vantaði.

fimmtudagur, 26. ágúst 2010

Sjálflægni

Ég sat og prjónaði og horfði með öðru auganu á Amazing Race í sjónvarpinu.

Ég veit ekki hvort þið hafið séð þáttinnn en hann gengur út á æðislegt þrautakapphlaup þar sem nokkur lið keppa hvert á móti öðru. Og hver þáttur endar á því að seinasta liðið í mark dettur út.

Og eins og gefur að skilja er mjög óvanalegt að menn hjálpist að milli liða.

Þar til áðan.

Þá hjálpaði lið A liði B.

Og svo var það í mynd og útskýrði ástæðuna.

Lið A: hja við erum bara svona gott fólk sem hjálpar öðrum

Næst í mynd var lið B - og þeir höfðu þetta að segja

Lið B: hja við erum bara svona góðir gæjar sem allir vilja hjálpa

Mér fannst þetta alveg frábært -
Einn atburður - tvær sögur

Hvort lið lýsti atburðinum út frá sér og sinni sjálfhverfu.

Æj það er svoo krúttlegt.

miðvikudagur, 25. ágúst 2010

Að berjast við vindmyllur

Don Kíkóti er nafn sem hringir bjöllum.

Ég fletti því upp í Gegni áðan -að það var árið 1981 sem fyrsta bókin um Don Kíkóta kom út í þýðingu Guðbergs Bergssonar.

Ég man að þetta var mikið verk og margar bækur.

Sem ég las reyndar ekki þá - ja og er svo sem ekki búin að því enn - en á svipuðum tíma voru í sjónvarpinu teiknimyndir um ævintýri Don Kíkóta sem ég sá.

Mig rámar því aðeins í kynni af þessum bilaða riddara, sem ásamt vini sínum Sansjó Pansa, barðist meðal annars við vindmyllur, sem Don Kíkóti taldi vera risa.

Og allir sjá náttúrulega hvað það er vonlaust.

Í mér leynist dálítill Don Kíkóti - en nú hef ég ákveðið að læra af gjörðum hans.

Og ætla að hætta að berjast við vindmyllur.
(Að minnsta kostir sumar þeirra.)

Og sætta mig við að sumt sigra ég ekki - eða breyti.

Amen.

þriðjudagur, 24. ágúst 2010

Fyrsti skóladagurinn

Fyrsti alvöru skóladagurinn var í dag.
Í gær var bara rétt skroppið að ná í stundaskrá.

Það er búið að vera smá spenningur í loftinu.

Ný skólataska hefur beðið í holinu í heila viku - algjörlega tilbúin - fyrir utan nestið náttúrulega.

Þetta er taska sérvalin af tólfáringnum

Og hún var ekki valin af því hún er sérlega vönduð með styrktum botni, breiðum böndum og púðum í bakið -

Onei - þetta var sú eina sem var með hólf fyrir i-pod og leiðslur fyrir heyrnartólin.

Morgunhani

Það er notaleg kyrrð í loftinu.
Enda ekkert skrítið - það er eiginlega varla kominn morgunn.
Og venjulegt fólk er enn í draumalandinu

Það er náttúrulega bilun að vakna og fara á fætur á þessum tíma.
Og ég veit að það er stresstaugin sem ýtir við mér.
Sú sama sem rænir mig kvöldunum með því að láta mig sofna allt of snemma.

En ég verð reyndar að viðurkenna að mér finnst þetta alltaf dálítið góður tími - þessi tími eldsnemma á morgnana sem ég á algjörlega fyrir mig.

mánudagur, 23. ágúst 2010

Súkkulaðimuffins

Á ferð minni um blogland í gær rakst ég á myndir og uppskrift af súkkulaðimuffins.

Sem ég varð auðvitað að prófa.
Þær tóku 5 mínútur í framkvæmd og 15 mínútur í ofni.
Einfalt, þægilegt og ferlega gott.

Þar sem uppskriftin er á dönsku - ætla ég að snara henni á ylhýra - en læt fylgja link með í þá upphaflegu.

Súkkulaðimuffins
- 12 stk - stórar

250 gr hveiti
1 tsk. matarsódi
225 gr sykur
40 gr kakó
1 tsk vanillusykur
100 gr brytjað súkkulaði
1 1/4 dl mjólk
90 gr bráðið smjör
2 1/2 dl AB-mjólk
1 egg

Allt sett í skál og hrært saman með skeið (ekki hræra í vél). Sett í muffinsform (12 stór eða 20 minni). Bakast við 200 gr í 15- 20 mínútur.

sunnudagur, 22. ágúst 2010

Sunnudagur

Það fer ekkert á milli mála að það styttist í haustið.

Öll þessi ber - og meira að segja reyniberin eru að verða rauð.
Blómin eru að komast á seinni hlutann.
Trén eru að byrja að fá á sig nýjan lit.

Og það er einhvern veginn öðruvísi lykt í loftinu.

Og ég hef tekið eftir því að það er orðið andkalt á morgnana -þó svo að suma daga hitni ágætlega yfir daginn.

Annars sýnist mér það vera að breytast líka - ég held að hitinn í gær hafi ekki farið yfir 12 stig þegar heitast var. Og núna sýnir mælirinn aðeins 6 stig.

Jebbs það er nokkuð ljóst að sumrinu er að ljúka.

En það er ekki svo slæmt - því þá tekur við ný byrjun og aðrar áherslur.

Skólafólk fer að setja sig í stellingar.
Rökkrið kallar á kertaljós sem alltaf fylgir einhver notaleg stemming.
Og það sem var á to-do listanum í sumar og átti að gerast inni - fer kannski að komast aftur á dagskrá.

En núna ætla ég að njóta kaffisins, skoða blogg og dunda mér -þar til aðrir heimilismenn fara á fætur.

laugardagur, 21. ágúst 2010

Menningarnótt

Ég er með hálfgert samviskubit.

Við ættum náttúrulega að fara í bæinn, með tólfáringnum, og kíkja á menninguna.
Kíkja í gallerí og á kaffihús.
Horfa á flugeldasýninguna.
Sýna okkur og sjá aðra.

En það er bara svooo kalt úti -
og endalaust af fólki í bænum
og engin bílastæði

já og kalt - var ég búin að nefna það?

Að við ætlum bara að vera heima þetta árið.

föstudagur, 20. ágúst 2010

Sumar á flösku

Fyrir nokkrum árum kenndi ágæt kona mér að búa til sólberjalíkjör.

Uppskriftin getur ekki verið einfaldari því aðeins þarf sykur, sólber og vodka.
Ja reyndar líka stóra krukku og nauðsynlegt er að hafa slatta af þolinmæði.

Líkjöragerðinni fylgir smá vinna í upphafi - því krukkunni þarf að snúa einu sinni á dag þar til allur sykur hefur náð að leysast upp og vökvinn er orðinn fallega rauður.

Svo er bara að bíða - og helst að reyna að gleyma öllu um væntanlega líkjör - þar til í desember.
Þá er krukkan dregin fram, berin síuð frá og vökvinn fer á flöskur.

Ótrúlega hollt og gott.
Og þá er bara að smakka og bjóða og njóta.

fimmtudagur, 19. ágúst 2010

Ræktun


Á pallinum hjá okkur er risastórt ker sem í hafa verið gerðar ýmsar ræktunartilraunir.
Ég hef sett niður sumarblóm, trjárunna, jarðarber og kartöflur.
Ekki þó allt í einu - heldur hvert í sínu lagi.

Afraksturinn hefur svo sem ekki verið merkilegur fyrr en í sumar.

Fyrst settum við niður kartöflur - sem voru teknar upp um miðjan júlí - og svo sáði ég spínat- og salatfræjum.
Og grænmetið sprettur þvílíkt í þessu góða veðri sem er búið að vera undanfarið.
Og hér er auðvitað borðað grænt í hvert mál.

Græðgi

Þegar ég kom heim fór ég út í garð
og fékk mér lúkufylli af berjum.
Og svo aðra
og eina enn
og hefði eflaust haldið áfram að úða í mig
en beit í eitthvað skrítið
- eitthvað hart
- sem gaf ekki eftir eins og berin höfðu gert
Hrækti og spýtti
Arrgg
Ég var nærri búin að éta bjöllu
ojj ojj ojj

miðvikudagur, 18. ágúst 2010

Bíó

Ég var að spá í hvort það væri ellimerki að sitja á miðvikudagskvöldi og horfa á nærri þrjátíu ára gamla söngvamynd.

Ég hef það mér til afsökunar að hafa ekki séð myndina áður...
..og Julie Andrews syngur alveg ótrúlega flott

Ég held að ég sé smám saman að breytast í foreldra mína.

þriðjudagur, 17. ágúst 2010

Tekist á við hversdaginn

Fyrsti vinnudagurinn gekk bara fínt.
Þó okkur liði samt mörgum eins og við værum bara rétt að koma úr löngu helgarfríi.
En það er alltaf gaman að hitta fólk aftur og fá uppdateringu á því hvað hefur gerst síðan síðast. Og fólk, frísklegt og brúnt eftir sumarið, situr í kaffi og spjallar og hlær og spjallar - já og vinnur auðvitað líka.

Í lok dags fengum við frábæran fyrirlestur um ADHD - orsakir - áhrif - meðhöndlun og fleira. Fyrirlesturinn hélt Gylfi Jón Gylfason sálfræðingur og kennari, sem hefur unnið mikið með börn með ADHD, heimili þeirra og skóla

Í gærkveldi var ég frekar þreytt eftir langan dag - það bókstaflega slokknaði á mér. Ég varð algjörlega meðvitundalaus í sófanum.
En það tengist kannski líka því að nóttina á undan svaf ég ekki mikið - var alltaf að vakna og kíkja á klukkuna- ætlaði sko ekki að sofa yfir mig. Og þegar Ingó fór á fætur um fjögurleytið að keyra systur sína glaðvaknaði ég og fór líka á fætur.
Þessir fyrstu dagar í vinnunni eru oft einhvers konar jafnvægisstilling.

mánudagur, 16. ágúst 2010

Vinni vinni

Fyrsti vinnudagur eftir frí er í dag.

Það er í mér dálítill fiðringur.
Ég hlakka til að hitta fólk aftur eftir sumarfrí.
Suma hef ég ekkert hitt lengi.
Hlakka til að fara í vinnustellingar og svona.

En líka dálítil eftirsjá.
Eftir sumrinu, frjálsræðinu, fríinu.

fimmtudagur, 12. ágúst 2010

Sulta

Það er aldeilis mikið af berjum þetta árið.
Bæði sólber og rifs.
Og það þótt það hafi verið klippt grimmt í vor.

Við borðum sólberin beint af trjánum og svo eru þau auðvitað frátekin í jólalíkjörinn.
Og þau eru alveg að verða tilbúin.

Úr rifsinu bý ég til hlaup og sultu úr hratinu.
Tími auðvitað ekki að henda neinu

Tíndi nokkur ber um daginn - um leið og þau urðu rauð.
Fékk sultu í tvær oggulitlar krukkur - sem kláruðust auðvitað um leið.

Nú er ég búin að búa til nokkrar í viðbót - bæði hlaup og hrat.
Mmm.

Og enn eru til ber.
Ég er að spá í að frysta slatta - það verður fínt að fá nýtt hlaup einhvern tíma í vetur.

þriðjudagur, 10. ágúst 2010

Framhald af stressi

Mér tókst að stressa mig í nærri fimm daga...
...yfir einhverju sem gekk svo ekki upp.

Vorkenndi mér svo þessi lifandis ósköp.

En svo var það líka búið.

sunnudagur, 8. ágúst 2010

Sunnudagsnotalegheit

Það stefnir í fallegan dag.
Himinninn er að verða heiður.
Og hitinn mjakast upp og er núna kominn í 13 stig.

Ég vaknaði fyrir allar aldir og tókst að laumast niður án þess að vekja sambýlingana.
Sit við tölvuna, drekk ilmandi kaffi og nýt þess.

Það er svolítil haustlykt í loftinu.
En kannski er það bara í kollinum á mér - sem er farin að sjá fyrir endann á sumarfríi eins besta sumars sem ég man eftir.

laugardagur, 7. ágúst 2010

Garðurinn

Það er ljóst að garðvinna er eilífðarverkefni.
Og þá er ég ekki bara að tala um að arfareitingu, slátt og trjáklippingar.
Eða gróðursetningu af ýmsu tagi og pallaviðhald.

Nei það þarf líka að skipta um jarðveg, laga grasflöt og jafnvel helluleggja.
Auk þúsund annarra hluta sem ég man ekki að nefna.

Undanfarin sumur höfum við (lesist Ingó) hellulagt bæði fyrir framan hús og meðfram því.
Og nokkrar hellur hafa farið í kringum matjurtabeðin.
Og nú er komið að því að setja stétt frá pallinum að matjurtagarðinum.

Og ég sé um móralska stuðninginn.

Stressuð - hvað?

Ég hef stundum verið að spekúlera í hvernig stress hefur mismunandi áhrif á fólk. Þið vitið hvernig sumum fallast hendur undir álagi meðan aðrir segjast aldrei vinna betur en einmitt þá.

Ég hef nefnilega alveg einstakt lag á því að hafa áhyggjur og stressa mig yfir hlutum og aðstæðum.
Og ekki bara stórum og mikilvægum hlutum heldur ekki síður yfir einhverju litlu og jafnvel nauðaómerkilegu.
Og það er allt of oft sem ég burðast með klump í maganum, ógleði og hjartslátt upp í háls. Og á meðan er hugurinn á fleygiferð.

Og ég öfunda þá sem að geta tekið á stressinu og unnið með það á jákvæðan hátt. Bæði þá sem róa sig með því að koma röð og reglu á næsta umhverfi og líka þá sem ná að nýta óróann með því að taka á í ræktinni eða hlaupa út um allar jarðir. Augljósir kostir, fyrir utan kyrrari huga, eru náttúrulega annars vegar snyrtilegra umhverfi og hins vegar stæltari einstaklingur.

Ég hef meira að segja öfundað þá sem missa matarlyst við þessar aðstæður.

Því ekkert af þessu á við um mig.
Ónei.
Því miður.

Stressuð hef ég sko enga eirð í tiltekt, mig langar ekki vitund í ræktina og það hvarflar bara ekki að mér að fara út að hlaupa. Meira að segja bækur og handavinna ná ekki að halda athyglinni.

Ég freistast hins vegar í eldhúsinu.
Baka...
narta...
og narta meira

Sem hefur náttúrulega hræðilegar afleiðingar.

En eins og allir vita að þegar stressið hellist yfir þá er það allra meina bót að setjast niður með notalegu fólki.
Og spjalla.
Og hlæja svolítið.

Og maður áttar sig allt í einu á að stressklumpurinn er horfinn.

föstudagur, 6. ágúst 2010

Skógarhögg

Það er stór og falleg ösp fyrir framan hús hjá mér.
Ja þær eru eiginlega þrjár á örlitlum bletti.

Undanfarið ár eða svo hefur ein þeirra tekið upp á því að halla í átt að húsinu.
Og ég verð að játa að ég hef haft af því dálitlar áhyggjur - og er alls ekki viss hvort þak og gluggar þoli ef hún skyldi nú taka upp á því að fara alveg á hliðina.
En ég var samt ekki alveg til í að fórna þeim öllum.

Og eftir að hafa borið okkur upp við fólk sem vit hefur á málum - ákváðum við að láta slag standa og freista þess að fella hættuvaldinn.
Það dæmdist á Ingó að klífa tréð og saga niður greinar...
...en ég stóð fyrir neðan, hrópaði hvatningarorð og sýndi móralskan stuðning.

Og greinarnar fóru hver af annarri - þar til ekkert var eftir nema þriggja metra stofnspíra.
Nú vantar okkur bara stóra sög - þá er þetta komið.

miðvikudagur, 4. ágúst 2010

Verslunarmannahelgi

Við vorum bara þrjú heima um verslunarmannahelgina.

Stóri drengurin fór til Eyja á fimmtudagskvöld.
Eitthvað sem hann var búinn að plana með margra vikna fyrirvara.
Og systir hans ákvað með aðeins styttri undirbúningi að fara á sama stað á laugardeginum.

En við vorum sem sagt heima.
Og fannst það bara fínt.
Að snudda í garðinum, fella tré, sauma og lesa.
Og Asi og vinir hans fóru í tjaldútilegu í garðinum og skemmtu sér hið besta langt fram á nótt.

Eitt kvöldið fórum við út að borða.
Á Sægreifann sem er niðri við höfn - í alveg dásamlegu umhverfi.
Veðrið var eins og eftir pöntun svo að við sátum úti og borðuðum hina víðfrægu fiskisúpu Sægreifans.
Súpan er borin fram í glærri skál og með henni fær maður einnota plastskeið. Súpan sem er ljómandi góð, komst samt ekki í hálfkvisti við lúðubita á teini, sem eru þeir alalbestu sem ég hef smakkað.
Og með þessu drukkum við hvítvín úr plastglasi.
Ekki kannski fínt og lekkert en stemmingin maður.


Asi kunni þó ekki alveg að meta gæðin.
Harðneitaði að borða súpu eða fisk.
Og vildi alls ekki kók (sem var reyndar pepsi).

Málinu var því reddað á bakaleiðinni.