Gönguhópurinn í vinnunni gekk um Álftanesið í gær.
Veðrið var ofboðslega fallegt og hitinn hafði skriðið aðeins upp, þannig að venjulegum manni var vært úti í augnablik. Okei smá ýkjur.
Og ég skellti mér með. Enda var ein sem vann með okkur búin að bjóða í kaffi á eftir. Og maður missir sko ekki af því.
Við gengum aðeins um nesið - gegnum íbúðahverfi, opin svæði og framhjá golfvellinum.
Á golfvellinum var ekki nokkur lifandi maður en allt fullt af gæsum í ástarhug.
Og áfram gengum við í sjó og þaralykt, út að veitingastaðnum - sem ég man auðvitað ekki hvað heitir - en er væntanlega sá eini sem er starfræktur á nesinu. Þar var heldur ekki nokkurn mann að sjá en hænur vöppuðu um bílastæðið.
Þetta var eins og að vera í smáþorpi langt úti á landi.
Þegar við komum til baka til Elínar beið okkar kaffi og kruðerí. Hún hafði lagt á borð eins og fyrir stórveislu. Það kom sér nú aldeilis vel því við þurftum auðvitað að ná upp orku eftir gönguna.
Við settumst í stofuna - og maður minn - útsýnið.
Húsið hennar er yst á nesinu og maður sá sjó og svo fjöll í fjarska í nærri 270 gráður. Mig skortir orð að lýsa þessu. Þetta var ótrúlega flott.
Ég var nú samt fegin að veðrið var tiltölulega stillt - er nefnilega að spá í hvort maður geti ekki orðið sjóveikur í vondu veðri.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli