Hann er fallegur þessi fyrsti sumardagur, sól og heiðskír himinn þó hitinn sé við frostmark.
Og ég er dauðfegin að þurfa ekki í skrúðgöngu.
Man eftir einni slíkri í gamla daga í pilsi og stuttum sokkum og annarri sem fánaberi í skátabúningi. Gott ef það var ekki sami kuldinn þá.
Mér finnst fyndin þessi gamla tvískipting á árinu í sumar og vetur. Þar sem sumarbyrjun er rétt þegar vorið er að ganga í garð.
Og Bubbi syngur Sumarið er tíminn meðan við skutlum Asa í fótbolta í vetrarklæðnaði og ullarnærfötum innan undir keppnisbúningnum og með húfu og vettlinga.
En bráðum kemur betri tíð með blóm í haga og vetur og sumar frusu saman og það á víst að vera ávísun á gott sumar.
Oh hvað ég hlakka til.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli