föstudagur, 30. apríl 2010

Dimmisjón

Það er dimmisjón hjá stóra drengnum í dag.

Hann var vaknaður, sturtaður, klæddur og strokinn klukkan 5:30.
Gaf sér tíma í smá spjall og hafragraut áður en hann stakk af í morgunpartí og búningamátun, með bjórkippu í bakpoka.

Skipulag dagsins er ljóst svona í meginatriðum.
Fyrst er partý, svo er morgunmatur upp í skóla þar sem kennarar eru kvaddir með smá sprelli.

Og svo er auðvitað farið um allan skóla- já og út um allan bæ.
Það tilheyrir.
Í búningi og alles.

Skipulag seinni partsins er ekki alveg jafn fast í hendi.
Spurning hvort það ráðist ekki af einstaklingunum.
En ég geri ráð fyrir að einhverjir þurfi að leggja sig.

Í kvöld er svo búið að leigja sal.

Mikið held ég að þetta verði gaman.
(Og maður krossar fingur að allt gangi vel).

Ég veit ekki hvernig búningar hinna hópanna eru en hans hópur er klæddur sem Cookie Monster úr Sesame Street.

Ég vona að ég hitti á hann í dag til að taka mynd en þar til verður þessi að duga.

Mynd er héðan

fimmtudagur, 29. apríl 2010

Djarft og spennandi

Það er bæði djarft og spennandi...

...og smá málmbragð...

...já og ávaxtaríkt

Þetta voru setningar sem heyrðust áðan á vínkynningunni sem haldin var af vínklúbbnum í vinnunni hans Ingós.
Og mér var boðið með.
Ekki slæmt.

Og við smökkuðum fleiri fleiri gerðir af reyktum silungi og drukkum mismunandi hvítvín með.
Ég ákvað að það væri illa farið með gott vín að spýta því í dall og sleppti því þar af leiðandi.

En mér líst aldeilis vel á þennan vínklúbb.
Dominique heitir sú sem kynnir vínin - og hún er alveg ótrúlega fróð.
Bæði um vín og mat.
Og eins og á alvöru námskeiði punktuðum við niður heilmikið af upplýsingum - ég lét mér þó nægja að skrifa niður uppskriftir - af piparrótarsósu með silungnum - af marineringu á silungi og svo uppskrift af böku.
Treysti á að einhver annar sjái um að skrifa niður vínin.

Mér skilst að klúbburinn hafi farið til bæði Spánar og Ítalíu í vínsmökkunarferðir. Og svo var verið að spá í Frakkland. En þá kom kreppa og allt var sett á hold.
Spurning hvort eitthvað fari ekki að breytast.
Ég væri að minnsta kosti alveg til í að fara í svona ferð.
Og myndi sko ekki vera neitt pikkí í sambandi við land.

Neibb bara ljúf og þægileg.
Alltaf.

miðvikudagur, 28. apríl 2010

Ganga á Álftanesi

Gönguhópurinn í vinnunni gekk um Álftanesið í gær.

Veðrið var ofboðslega fallegt og hitinn hafði skriðið aðeins upp, þannig að venjulegum manni var vært úti í augnablik. Okei smá ýkjur.

Og ég skellti mér með. Enda var ein sem vann með okkur búin að bjóða í kaffi á eftir. Og maður missir sko ekki af því.

Við gengum aðeins um nesið - gegnum íbúðahverfi, opin svæði og framhjá golfvellinum.
Á golfvellinum var ekki nokkur lifandi maður en allt fullt af gæsum í ástarhug.

Og áfram gengum við í sjó og þaralykt, út að veitingastaðnum - sem ég man auðvitað ekki hvað heitir - en er væntanlega sá eini sem er starfræktur á nesinu. Þar var heldur ekki nokkurn mann að sjá en hænur vöppuðu um bílastæðið.
Þetta var eins og að vera í smáþorpi langt úti á landi.

Þegar við komum til baka til Elínar beið okkar kaffi og kruðerí. Hún hafði lagt á borð eins og fyrir stórveislu. Það kom sér nú aldeilis vel því við þurftum auðvitað að ná upp orku eftir gönguna.

Við settumst í stofuna - og maður minn - útsýnið.
Húsið hennar er yst á nesinu og maður sá sjó og svo fjöll í fjarska í nærri 270 gráður. Mig skortir orð að lýsa þessu. Þetta var ótrúlega flott.

Ég var nú samt fegin að veðrið var tiltölulega stillt - er nefnilega að spá í hvort maður geti ekki orðið sjóveikur í vondu veðri.

þriðjudagur, 27. apríl 2010

Nöldur

Suma morgna vakna ég og finnst ég ekki hafa sofið neitt.

Finnst ég hafa fylgst með á klukkunni alla nóttina.

Veit samt að það er ekki rétt því mig hefur dreymt þvílíkt mikið og þvílíka vitleysu.

Í nótt dreymdi mig endurtekið að ég væri á leið á fyrirlestur og auðvitað bæði allt of sein og illa undirbúin.

Þess á milli dreymdi mig að ég væri að leita að sturtu. Altsvo svona prívat sturtu.

Því þeir sturtuklefar sem voru í boði voru svona opnir og almennings - já fyrir allra augum.

(Og af því ég vil ráða alla drauma fyrir annað hvort peningum eða ferðalögum er ég að spá hvort þetta sé)

Og svo kemur loksins dagur og maður fer á fætur með augnþreytu og svima, pínu í höfði og bakverk.


Og þá er ágætt að vera snöggur í vinnuna. Syngja með útvarpinu í bílnum á leiðinni og ná smá kaffispjalli og flissi áður en dagurinn byrjar fyrir alvöru. Því það reddar sko deginum.

Jamm og já.

sunnudagur, 25. apríl 2010

Önnur lopapeysa

Jæja þá er lopapeysa númer tvö tilbúin.
Ég var alveg búin að gleyma hvað það er gaman að prjóna úr lopa.
Og það þrátt fyrir að íbúðin verði öll lopaloðin - ja og ekki bara íbúðin heldur ég og allir sem koma nálægt mér.

Það minnkar aðeins á lagernum en mér sýnist ég eiga nóg í 1-2 peysur enn - í þessari stærð.
Hefði mátt vera aðeins meira því Ingó langar í peysu - en mér sýnist þetta vera of lítið fyrir peysu í hans stærð.

Ætla að hugsa það í dag hvað ég prjóna næst - en valið stendur um að prjóna lopapeysu - vettlinga - sokka...
...já og svo á ég garn í a.m.k. tvær peysur.

Til minnis
Í peysuna fóru um 300 gr. af aðallit og hluti af hvítri og svartri dokku. Hún er prjónuð á prjóna nr. 6, stroff á prjóna nr. 5. Fitjað upp 134+2. Ég hugsa að þessi lykkjufjöldi væri passlegur úr tvíbanda plötulopa - þessi lopi er mjög fast spunninn.

Sama munstur og í peysunni fyrir fröken B.
Þessi peysa er þó styttri og svo hef ég hana einu munstri stærri.
Svona eftir á að hyggja hefðu það mátt vera tvö munstur.

Stroffið er prjónað röndótt því ég var ekki viss um að eiga nægan lopa.

laugardagur, 24. apríl 2010

Sítrónur og saffran...

...heitir bókin sem ég var að lesa.
Falleg bók þar sem kápan er í gulum sumarlegum litum.
Þetta er svona útlit sem hreinlega biður um athygli - já og biður mann að lesa sig.

Bókin fjallar um Agnesi sem er þjónn á veitingahúsi sem fær spennandi atvinnutækifæri - eftir að hafa misst bæði kærasta og fyrri vinnu.
Og sagan segir frá lífi hennar í nokkrar vikur eða mánuði.

Þetta er svona 'chick lit' bók einföld og auðlesin.

Uppskrift sem ég venjulega fell fyrir.

En af einhverri ástæðu - ég veit ekki hvað það var - þá náði bókin einhvern veginn ekki að fanga mig.
Ég veit ekki hvort sagan var flöt eða aðalpersónur óspennandi.
Eða kannski vantaði bara að sagan væri stundum svolítið fyndin.

Öskumistur

Við skruppum í morgun í kaffi upp í Breiðholt.

Þar eru í fóstri kettir sem þurfa lyf daglega, en kattaforeldrarnir spóka sig nú á Akureyri.
Og Ingó er í læknishlutverki.

Veðrið var skrítið. Það var heiður himinn en yfir öllu var mistur sem ég hélt fyrst að væri hitamistur.
En í fjögurra gráðu hita er það víst freeekar hæpið.

Ætli þetta sé ekki frekar öskumistur.
Að minnsta kosti var smá öskufall á hvítum diski sem tengdamamma hafði sett út á svalir.

Æ ég ætla rétt að vona að það fari ekki að hvessa með austanátt.

föstudagur, 23. apríl 2010

Úti er...

...enn einn fallegur dagur -sól og blíða en það er nístingskuldi - og mælirinn fer niður fyrir frostmark.

Og það hvarflar ekki að mér að hjóla.

Og í dag er mánudagsföstudagur.

Einn dagur og svo er aftur komin helgi.

fimmtudagur, 22. apríl 2010

Bækur

Ég er í nokkrum bókaklúbbum.
Og eins og gengur og gerist þá eru þær mis skemmtilegar bækurnar sem ég fæ sendar og stundum fæ ég jafnvel þær sem mig langar ekkert sérstaklega til að lesa.

Og þar sem forlagið er lengst vestur í bæ þar sem ég á sjaldan erindi þá safnast stundum upp bækur sem þarf að skipta.

En í gær dreif ég mig loksins með bunkann og til að velja mér nýjar.

Afraksturinn er hér, fjórar nýjar bækur - og allar sem mig langar að lesa.

Það er komið sumar og sól í heiði skín

Hann er fallegur þessi fyrsti sumardagur, sól og heiðskír himinn þó hitinn sé við frostmark.
Og ég er dauðfegin að þurfa ekki í skrúðgöngu.

Man eftir einni slíkri í gamla daga í pilsi og stuttum sokkum og annarri sem fánaberi í skátabúningi. Gott ef það var ekki sami kuldinn þá.

Mér finnst fyndin þessi gamla tvískipting á árinu í sumar og vetur. Þar sem sumarbyrjun er rétt þegar vorið er að ganga í garð.

Og Bubbi syngur Sumarið er tíminn meðan við skutlum Asa í fótbolta í vetrarklæðnaði og ullarnærfötum innan undir keppnisbúningnum og með húfu og vettlinga.

En bráðum kemur betri tíð með blóm í haga og vetur og sumar frusu saman og það á víst að vera ávísun á gott sumar.
Oh hvað ég hlakka til.

miðvikudagur, 21. apríl 2010

Af gefnu tilefni

Ég kem ekki í göngu í dag.

Vil samt taka fram að ég er ekki hætt í gönguhópnum – þó svo að fjarvera mín undanfarnar vikur bendi til þess.

Ja nema altsvo að ég sé rekin.

laugardagur, 17. apríl 2010

Víst á ég mér líf

Ég skrapp á málverkasýningu í Gallerí Fold hjá Elínu G.
Þar voru flest allir vinnufélagar mínir samankomnir.
Flott sýning hjá henni Elínu - og fallegir litir.

Þar hitti ég líka fólk sem ég hef ekki séð leeengi. Mann og konu sem komu saman.
Ég þekkti þau í gamla daga - þegar þau (mér vitanlega) þekktust ekki.
Ég vann með konunni og maðurinn var ágætis vinur minn um tíma - fyrir svo löngu síðan að það er eins og í öðru lífi.

Og nú voru þau í samfloti.
Fyndið.
Lítill heimur.

Laugardagur

Gluggaveður.
Úti er skítakuldi.
Og vorverk í garðinum tilheyra framtíðinni.

Ég hringa mig í sófanum með teppi og bók.
Alsæl.
Póstkortamorðin eiga hug minn allan.

Ég held stundum að ég eigi mér ekki líf.
Og veit ekki hvort er daprara að eiga ekki líf eða vera bara sáttur við það.

föstudagur, 16. apríl 2010

Afmæli

Í dag verður Margrét Danadrottning sjötug og mikið um að vera í Danaveldi.
Til lukku með það.

Í dag eru líka 22 ár síðan fröken B. var skírð.
Við ætlum nú svo sem ekki að hafa neina hátíð en þetta var sko merkilegur dagur.
Og svona lítur þessi elska út í dag - 22 árum síðar.
Nýkomin úr ferð með Hjálparsveitinni.
En myndin var tekin daginn sem hún tók lokaprófið þar.
Til lukku með það.

Lopapeysa


Undanfarna daga hef ég verið að prjóna lopapeysu á fröken B.

Þetta er tvíbanda lopi, sem nú kallast Létt-lopi, en heitir Lopi-light á miðunum hjá mér.
Lopinn sem ég nota er nefnilega eflaust orðinn 25-30 ára gamall.

Það er merkilegt hvað það er mikill munur á bandinu eins og það var unnið þá og svo nú.
En þessi lopi er unninn mun fastar og bandið er þéttara en nú er.

Ég var hálfhrædd á tímabili að lopinn væri ónothæfur í flík, því hann var bæði fast spunninn og í honum voru ójöfnur. En kunni samt ekki við að henda lopanum nema prófa hann fyrst.

Eftir tvo þvotta virðist þetta vera ágætis flík.

Og fröken B. er að minnsta kost hæstánægð.


Til minnis:
Í peysuna fara 350 gr af aðallit, örlítið af hvítu og enn minna af dökkbrúnu.
Munstrið er að hluta til Farmers Market en með smá breytingum efst.
Fitjaðar upp 126+2 lykkjur.
Prjónar nr. 5 í stroff og nr. 6 í peysuna.
Peysan er extra síð, 65 cm lengd á bol upp að handvegi.
9 tölur
Heklaður kantur. Hnappagöt sett í þriðju umferð.
Að lokum er kantur og hálsmál heklað með dökkbrúnu

fimmtudagur, 15. apríl 2010

Overlock

Það er komið heilt ár síðan ég keypti mér Overlockvélina.
Það var búið að vera draumur lengi að eignast slíka vél.

Og svo kom tilboð og ég splæsti henni á mig.

Ég saumaði nokkra boli í byrjun en lenti síðan í veseni með að þræða vélina eftir að kettirnir komust í hana.
Hafði svo engan veginn einbeitingu til að tileinka mér nýja hluti.

Og vélin var sett til hliðar.
Þannig að hún er búin að vera í hvíld mest allan tímann.


Þar til áðan.
Þá skellti ég mér á námskeið hjá Pfaff.
Loksins.

Og nú bíð ég bara eftir helginni.

miðvikudagur, 14. apríl 2010

Vor vor vor

Það er komið vor og fyrstu já allra fyrstu blómin eru sprungin út í garðinum hjá mér.

Það eru oggu litlar páskaliljur.

Hitinn er að mjakast upp og það fer að verða tímabært að huga að garðinum og hreinsa beðin.

Og ég er búin að taka fram hjólið og þeysist á því í vinnuna.
Hm ja þeysist eru kannski örlítil hliðrun á sannleika.
Og þó - ég puða dálítið á morgnana því það er allt upp í móti en renn svo heim í lok dags.
Og nýt þess.

þriðjudagur, 13. apríl 2010

Tölur


Þó svo ég eigi ótrúlegt magn af tölum af öllum stærðum og gerðum, þá átti ég ekki tólf tölur fyrir svörtu peysuna.
Ég þurfti því í töluleiðangur.

Maður minn.
Og ég komst að því að þær eru sko ekkert ókeypis.
Stykkið á allt að 400 krónur.
Það er nærri peysuverð fyrir tólf stykki.

En við nánari skoðun kom í ljós að inn á milli voru til ódýrari eintök. Og stundum kannski tvö verð á sams konar tölum.
Og eftir mikla leit fann ég ágætis tölur í réttum lit, passlegri stærð og á fínu verði.

Það var ekki fyrr en ég kom heim að ég sá að þær voru dökkbláar en ekki svartar.

mánudagur, 12. apríl 2010

Stabílus

Ég er orðin ægilega þreytt á þessum aukakílóum sem ég hef.

Og er algjörlega tilbúin að gera hvað sem er til að losna við þau.

Nema kannski að hreyfa mig...
...og hætta að borða.

Hmm

Fór í rauðvínsbindindi fyrir nokkrum vikum.
Hélt að þá myndi ég léttast eitthvað.
Ætlaði að vera fram að mánaðarmótum en hætti um helgina, því ég fékk heimsókn og kunni bara ekki við að láta hana drekka eina.
Peer Pressure - þetta er greinilega jafningjaþrýstingur - sem er erfitt að berjast gegn.

Enda hef ég ekki minnkað um gramm.
Uss uss uss handónýt megrunaraðferð.

Sú svarta

Ég er búin með svörtu peysuna.
Það er ótrúlegt hvað seinustu handtökin hafa tekið langan tíma.
En hún er sem sagt tilbúin.
Og hún á sko eftir að vera uppáhalds.

Og garnið er ææðislegt.
Ég er ákveðin í að panta meira svona garn.
Þó það kosti hvítuna úr augunum á mér.

Til minnis:
Uppskrift: Garter Yoke Cardi frá Vogue Knitting
600 gr Cascade garn
prjónar nr 5
12 hnappagöt
Peysan er prjónuð fram og til baka - sem er þægileg sjónvarpshandavinna, en stundum dálítið þreytandi og seinlegt

Helgin

Helgin leið - gjörsamlega án þess að ég tæki eftir því.

Og án allra þrekvirkja af minni hálfu.

Ég las og prjónað, prjónaði og las.

Skrapp reyndar á laugardag í tvær garnbúðir á Laugaveginum.
Vaá vá vá þvílík dýrð og dásemd og mig langaði í allt sem ég sá.
Var rétt eins og barn í nammibúð.
Og ég strauk og skoðaði, fann áferð og spáði í liti og gæði og verð.

Keypti mér svo garn í peysu, og skilaði inn afgangsdokkum frá eldra verkefni. Stórgræddi á því.
Þurfti varla að borga nokkuð á milli.
Hja eða þannig sko.

fimmtudagur, 8. apríl 2010

Ég sakna þín

Í dag fór ég í jarðarför.

Og þar var sungið eitt það alflottasta lag sem ég hef heyrt.
Altsvo textinn - svooo fallegur að ég nær táraðist.

Þetta var lagið/ljóðið Tvær stjörnur sem er eftir Megas og er af plötunni Bláir draumar.

Hér er smá brot úr textanum

Ég sakna þín í birtingu að hafa þig ekki við hlið mér
og ég sakna þín á daginn, þegar sólin brosir við mér.
Og ég sakna þín á kvöldin þegar dimman dettur á.
En ég sakna þín mest á nóttunni, þegar svipirnir fara á stjá.

Hugsið ykkur tilfinninguna við kveðjustund - í jarðarför.

Annars las ég hér að textinn væri ekki um söknuð eftir þeim sem er dáinn heldur söknuð eftir lifandi manneskju og vonina um að hitta hana aftur.

Þetta er ekkert smá flott ástarljóð.

Lestur er bestur...

...er slagorð sem ég hef stundum notað.

Og venjulega fer ég eftir þessu og les heilmikið - þó þær bækur teljist nú seint til bókmenntaverka sem ég hef mest gaman af. En hvað um það. Svona er það nú bara.

Mér finnst æðislegt að koma mér vel fyrir í þægilegum stól eða sófa og detta inn í einhverja sögu.
Og í gær las ég Hafmeyjuna, sem er nýjasta bókin hennar Camillu Läckberg.

Alla.

Og á meðan ég las þá prjónaði ég, sauð fisk og kartöflur, borðaði, fór í fótabað, gaut öðru auganu á fréttir og fékk herðanudd.
Þó ekki allt í einu og eða í þessari röð.

En bókin kláraðist rétt eftir miðnætti - fín skemmtun.

Skrítin forgangsröðun

Nú á tímum niðurskurðar í skólakerfinu, heilbrigðiskerfinu - ja í raunar velferðarkerfinu öllu,
...á tímum atvinnuleysis, launalækkana og biðraða eftir mat hjá Mæðrastyrksnefnd

Þá finnst mér skrítinn forgangur hjá borgaryfirvöldum að setja alla þessa peninga í golfvöll.
Og skýringarnar - tómstundaiðkun fyrir atvinnulausa - Jebbs right

mánudagur, 5. apríl 2010

Afgangakarfa

Ég átti smávegis afgangsefni frá púðunum sem ég saumaði um daginn og nokkra búta frá töskunni í dag.
Rétt nóg til að gera litla körfu eftir hugmynd og leiðbeiningum frá Pink Penguin.
Ég hef gert nokkrar svona körfur áður og veit að þær nýtast vel.

Taska, paska

Ég er búin sauma dálítið undanfarna daga.
Meðal annars þessa tösku - fyrir fröken B. - (og mig kannski líka).
Enda á maður aldrei nógu mikið af töskum.
Þessi taska er í stærra lagi og dálítið djúp en hún á að vera nógu stór fyrir tölvu og bækur.

Efnin eru af saumalagernum að sjálfsögðu - en þar sést ekki högg á vatni, ekki enn að minnsta kosti.
Ætli það verði ekki margra ára verkefni við að vinna niður lagerinn.
En einn er hver einn.

Til minnis:
Brúna efnið er hör, fóðrið er léreft en ég man ekki úr hverju ljósa efnið er.
Flíselín er sett á ytra byrði töskunnar til að styrkja hana. Ég hefði mátt setja auka í botninn þannig að hún gæti staðið.
Mál: Hæð 43 cm, dýpt 39 cm og böndin eru 41 cm.
Vasar eru 17x24 cm, annar er framan á töskunni, hinn er inní fóðri á bakstykki.
Til að búa til botninn voru teknir 2x2 tommu ferningar.

Voila - tilbúin - lítið mál.

sunnudagur, 4. apríl 2010

Orð


Þetta eru öll handavinnuorðin mín sem ég mundi eftir áðan.

Ég fann nefnilega nýtt forrit Wordle sem gerir manni mögulegt að leika sér með orð, raða þeim saman á mismunandi hátt, lita, stækka og minnka.
Mér líst vel á þetta forrit og á pottþétt eftir að skoða það nánar.

Skemmtilegt dundur á páskadegi.

Já gleðilega páska.

laugardagur, 3. apríl 2010

Læti

Í stofunni er hrópað, kallað hástöfum, stappað í gólf og höndum lamið saman af fullum krafti.
Skipanir, ókvæðisorð og blótsyrði heyrast milli þess sem það er óað og æjað.

Ég læt mig hverfa - vil ekki taka þátt í svona látum.

Stuttu seinna er allt dottið í dúnalogn og stóri drengurinn rýkur upp og skellir hurðum.

Og ég átta mig á því að Manchester hefur tapað.

Spekúlasjón

"Life isn't about finding yourself. Life is about creating yourself".
er haft eftir George Bernard Shaw

Ég rakst á þessa tilvitnun áðan og fannst hún alveg frábær.
Kannski ekki einfalt, en ég held að þetta sé alveg rétt.

Við lesum, reynum og upplifum.
Gerum suma hluti vel en mistekst líka margt og lærum af hvorutveggja.

Þetta er, held ég, spurning um að bera ábyrgð á því sem maður vill standa fyrir og vera.
Og ef maður samþykkir þetta þá er maður svolítið búinn að gefa frá sér möguleikann á afsökunum um að þetta eða hitt sé hinum að kenna, slæmum aðstæðum, eða óheppilegum genum.
Enda er maður ekki stikkfrí í eigin lífi - og á auðvitað ekki að vera það.

Eða eins og góður maður sagði - það er ekki spurning um það sem maður lendir í - heldur hvernig maður tekur á því.

Spurning um það hvernig við spilum úr þeim spilum sem okkur var úthlutað - jafnvel þó manni finnist það stundum vera tómir hundar.

föstudagur, 2. apríl 2010

Súkkulaðispeki

Við laumuðumst í að opna eitt páskaegg áðan.
Fannst okkur vanta eitthvað til að bjóða gestunum með kaffinu.
Og smá súkkulaði er alltaf vinsælt.

Þegar þeir voru farnir kíkti ég á málsháttinn.

Eflaust rétt.
En mikið svakalega þarf stundum laaangan tíma.

Sumarpúðar

Það er ekkert smá vetrarlegt úti.
Annan daginn í röð er veðrið aprílgabb og maður fær kalbletti við að hlaupa út í bíl.

Mig vantaði því eitthvað bjart og sumarlegt mótvægi.
Á saumalagernum átti ég til skræpóttan efnisbút (kemur á óvart).
Stórmynstrað - gult, hvítt og rautt efni sem varð að tveimur púðum - á meðan beðið var eftir matargestum.

Til minnis:
Ikea-efni.
Stærð 30 x 50 cm.
Innra byrði gamalt lak og púðafylling endurnýtt.

Ég er svo sparsöm og nýtin að ég gæti tárast.

fimmtudagur, 1. apríl 2010

Aprílgabb

Það er fyrsti apríl í dag. Ótrúlegt hvað tíminn líður hratt, ég veit ekki hvað varð af þessum marsmánuði, hann hvarf bara einhvern veginn.

En þetta er fallegur dagur, sól og heiður himinn.
Og eitt augnablik býst maður við að vorið sé rétt handan við hornið. Og sér í anda sólstóla og notalegar stundir á pallinum.

Þar til maður fer út.
Því úti er sko ekkert vor heldur nístings bítandi skítakuldi. Fjögurra stiga frost. Það kemur sér vel að vorverkin í garðinum eru ekki búin og laufhrúgan hylur þessar aumingjans plöntur sem héldu líka að vorið væri í nánd.

En auðvitað kemur vor á endanum, það á að fara að hlýna strax á laugardag.

En í dag höfum við um annað að hugsa.
Því að í dag er stór dagur í báðum fjölskyldum okkar.
Tvær fermingar.
Tvö fermingarbörn.