mánudagur, 25. janúar 2010

Laugardagskjúklingur á mánudegi

Afgangar í matinn í dag. Samtíningur frá helginni.
Svo sem ekki slæmt.


Á laugardag elduðum við nefnilega æðislegan kjúklingarétt þar sem ég gat klárað döðluafganga og kapers.

Set hann hér inn svo hann gleymist ekki. (Sumir kalla þetta spánska kjúklingaréttinn).


Kjúklingur með döðlum og ólífum


Kjúklingur - (skorinn í bita, enn betra að nota bringur og skera hverja í ca 3-4 bita)
settur í fat

Blanda saman:
Nokkrum hvítlauksrifjum (smátt skornum)
1/4 bolla oregano
1/2 bolla rauðvínsediki
1/2 bolla ólífuolíu
1 bolla hvítvíni
og hella yfir kjúklingabitana.

Salta og pipra (eftir tilfinningu og smekk), svo er kapers, ólífum og niðurskornum döðlum dreift yfir.

Kjúklingurinn er bakaður við 200° í ca 20 mínútur. Þá er púðursykri stráð yfir bitana og bakað í 10-15 mínútur í viðbót. (Lengur ef notaðir eru bitar með beini).

Meðlæti: hrísgrjón, salat eða hvað manni dettur í hug, en brauð er nauðsynlegt.



Og svona leit þetta út á disknum mínum.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Jammý, verð að prófa þennan :)
ÞS

Anna sagði...

Ekki spurning - einfalt, fljótlegt og gott - getur maður beðið um meira

Nafnlaus sagði...

Virkilega gómsætur réttur og myndin er hreint listaverk, en varðandi trefilinn frá því í gær þá langar mig að vita hvort Möbiusartrefill sé snúinn og endarnir síðan prjónaðir saman. Möbiusar flötur er eiginlega með aðeins eina hlið. Það er töluvert fjallað um Möbiusar flöt í stærðfræðinni. Ef ég horfi á fallegu myndina af treflinum þá sé ég ekki hvort hann er snúinn.

Anna sagði...

Takk fyrir það.
Jamm Möbiusartrefillinn er með snúningi og aðeins einni hlið. Ég get ekki útskýrt hvernig þetta gerist nákvæmlega - en maður byrjar í miðju stykki og prjónar svo í báðar áttir.
Hér er fínt myndband sem kennir uppfitina og vonandi skýrir eitthvað http://www.youtube.com/watch?v=LVnTda7F2V4

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir þetta.
Það er ótrúlegt hvað hægt er að horfa á á YouTube, aldrei hefði ég trúað því að hægt væri að horfa á kennslumyndband um prjónaskap, hvað þá í Möbiusarprjónaskap.
Annars er uppáhaldstrefillinn minn í Arsenal litum. Hvernig væri að prjóna, þunna en þétta Möbiusartrefla í litum efstu liða í ensku úrvalsdeildinni?
Ekki vissi ég að Möbiusartreflar væru svona vinsælir. Það eru til óteljandi útfærslur - ótrúlegt.
Ég sé að hið fornkveðna á alveg við hér:
"It's not how good you are, it's how good you want to be."

Anna sagði...

Já ég er sko búin að læra heilmikið í sambandi við prjónaskap af netinu. Skil ekki alveg hvernig maður fór að áður.
Takk fyrir Arsenal ábendinguna :-)
Hef hana í huga ef mig vantar verkefni.