Undanfarna daga hef ég heilmikið hugsað um árið sem er rétt er liðið. Um atburði og persónur og ýmislegt sem gerðist. Ég ber nefnilega svolítið blendnar tilfinningar til gamlárskvölds. Það eru alltaf ákveðin lok. En það þarf ekki að vera slæmt, neibb alls ekki, því nýtt ár gefur jú fullt af nýjum möguleikum.
Og núna gaf ég sjálfri mér nýjársheit. Það hef ég aldrei gert áður – ekki svona í alvöru að minnsta kosti. Ég er búin að vera í marga daga að formúlera orðalagið. Vil orða það þannig að ég hafi möguleika á að standa við það.
Mig langar nefnilega svo að taka á ýmsu sem hefur hlaðist upp – hlutum sem ég hef veigrað mér við og ýtt á undan mér - hlutum sem ég hef trassað lengi eða jafnvel forðast – alls konar hlutum sem eru beintengdir hinu eilífa samviskubiti.
Og ég hef bútað þetta niður – ætla að gera einn hlut amk á viku – og skrifa um það hér eða sýna mynd. Ég held svei mér þá að þetta sé áskorun sem hægt er að standa við.
Og er strax farin að hlakka til að sjá hluti verða til úr efni og garni (sem til eru á heimilinu) og myndir komast í skipulag, auk annarra hluta.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli