föstudagur, 22. janúar 2010

Svona hjólhýsapakk...

...sem kaupir stöð 2 og horfir á Loga í beinni sagði Benedikt Erlingsson víst einu sinni. Þeir eru náttúrulega í algjörri andstöðu við menningarvitana í 101 sem fara í leikhús og á tónleika og drekka ekki kaffi nema á kaffihúsum.
Og nú er ég formlega orðin ein af hjólhýsapakkinu. Og horfi í alvöru á Loga í beinni.

En málið er sem sagt þetta - okkur var boðið að koma í stúdíó og fylgjast með. Mér leist nú ekkert voðalega vel á þetta í byrjun - fannst hálf hallærislegt að sitja þarna og klappa eftir pöntun. En Ingó og Asa leist æðislega vel á og ég lét til leiðast.

Við mættum hálftíma fyrir útsendingu. Ekki samt í smink heldur í pítsuveislu. Og gos og vatn og bjór eins og hver vildi.

Gestirnir voru í öllum útgáfum. Sumir voru ægilega fínir svona rétt eins og þeir væru að fara í leikhús en aðrir voru í jogging. Við hækkuðum meðalaldurinn talsvert því flestir voru nálægt tvítugu en þó vorum við alls ekki elst.

Svo hófst útsendingin. Það kom mér á óvart hversu margir vinna að henni. Fyrir utan fjóra myndatökumenn, voru að minnsta kosti tveir hljóðmenn, útsendingarstjóri, sviðsmenn, sminkur, matarstelpa og svo er eflaust einhver í myndstjórninni þó svo að hann hafi ekki verið sýnilegur.
Og ég hló og klappaði - og skemmti mér þrælvel.


Engin ummæli: