sunnudagur, 7. mars 2010

Að borða fíl

Við höfum flest heyrt spurninguna: Hvernig borðar maður fíl?

Ég man að þegar ég heyrði þetta fyrst þá datt mér ekkert annað í hug en að það væri ómögulegt.
En nú veit ég að svarið er: með því að taka einn bita í einu.

Og mikið rétt. Hugmyndin er auðvitað að búta yfirþyrmandi verkefni niður í viðráðanlegar einingar. Ekki bara fíla heldur þau verkefni sem maður upplifir annars sem allt að því óyfirstíganleg.

Þetta er auðvitað bara ein útgáfa af skipulagi og tímastjórnun.

Og í gegnum tíðina hef ég stöðugt verið að reyna að koma á einhverju skipulagi og reglu hjá mér.

Þegar krakkarnir mínir voru yngri notaði ég stundum klukku til að búta verkefni niður og það reyndist ótrúlega vel.
Krökkum geta fallist hendur við að eiga að taka til í 'öllu' herberginu sínu á meðan það er ekkert mál að taka til í 15 mínútur. Og eftir nokkra daga eða nokkur skipti er herbergið hreint.
Og allir eru sáttir og finnst þeir hafa staðið við sitt.

Ég hef líka notað þetta á sjálfa mig. Þegar ég var í háskólanum lenti ég stundum í því í ritgerðavinnu að allt sat fast og ekki komst stafur á blað. Engin leið að einbeita sér og ekki nokkur leið að sitja kyrr við tölvuna. Þá tók ég fram klukkuna og 'varð' að sitja við í tölvuna í ákveðinn tíma og skrifa eða að minnsta kosti reyna það. Og auðvitað ekki gera neitt annað hvorki skoða tölvupóst né flakka á netinu.

Í dag - er ég enn að reyna að temja mig. Reyni að setja mér markmið sem ég get staðið við.

Núna tengjast markmiðin meðal annars efni og garni.
Ég er búin að sjá að markmiðið sem ég setti í byrjun árs um að 'kaupa ekkert nýtt og nota bara það sem ég á' er hræðilega óspennandi og gengur engan veginn upp. Það þarf því að endurskoða. Mér líst vel á að umorða þetta og segja að ég þurfi að 'nota af lagernum í að minnsta kosti annaðhvert verkefni'.
Einn biti í einu og þá hefst það.

Engin ummæli: