miðvikudagur, 31. mars 2010

Undirbúningur...

...fermingar er búinn að vera í fullum gangi hjá henni systur minni.

Allt er skínandi hreint. Bollar og diskar eru komnir í hús. Kransakakan er skreytt.

Og búið er að endurhanna íbúðina, herbergin tæmd og inn eru komin borð og stólar í tugatali.
Það eru ótrúlega mörg handtök sem fylgja svona veislu. En kannski ekki svo mikill tími þegar allir leggjast á eitt. Og þó - það er endalaust þetta litla sem maður man eftir þegar maður heldur að allt sé tilbúið.

Og nú er allt að smella saman.
Ekkert eftir nema finna til föt.
Bara bíða eftir morgundeginum.

Valkvíði

Það á alveg svakalega vel við mig að vera í fríi.
Tilhugsunin að geta gert það sem ég vil.
Þegar ég vil.

Og möguleikarnir eru margir.
Fyrir utan augljósa hluti sem þ a r f að gera eins og að elda, þrífa og ganga frá þvotti.
Þá eru fullt af öðrum hlutum sem mig langar að gera.
Til dæmis að drífa mig í að klára peysuna sem ég er að prjóna. Því ég er búin að ákveða hvernig næsta peysa á að vera ...og reyndar næsta þar á eftir líka.

Ég gæti líka farið í nýja saumahornið mitt og saumað, er með bæði dúkkuföt og buddur í vinnslu.

Svo er alltaf möguleiki að ljúka bókinni sem ég er að lesa og er virkilega spennandi.

En stundun þegar tíminn er nægur fyllist ég valkvíða, mér fallast hendur og ég dett í að vafra á netinu. Og tíminn flýgur.

Að gera ekki neitt -til að skemma ekki möguleikana, kallaði pabbi það stundum.

sunnudagur, 28. mars 2010

Sokkar

Ég hef ekki unnið mikla handavinnu í þessari viku.
Það tók mig einhvern veginn alla vikuna að jafna mig eftir setuna yfir teppinu um seinustu helgi.

Og svo þarf ég að fara að taka tíma í að lesa. Það hefur setið á hakanum allt allt of lengi.
Og ég er með stóran ólesinn bunka af skemmtilegum bókum.

En ég náði þó að gera eitt sokkapar. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en ég var búin með sokkana að garnið er skelfilegt. Svona hart klæjugarn úr Europris - Asi gat varla staðið kjurr vegna kláða, meðan ég tók myndina.

Til minnis:
2 dokkur sokkagarn (ekki úr Europris)
Fitja upp 40 lykkjur á prjóna nr. 4.
Prjóna 4 lykkjur slétt og 4 lykkjur brugðið til skiptis út prjóninn.
4 umferðir eins. Þá er munstrið látið færast eina lykkju til vinstri.
Prjónað þar til dokkan er að verða búin þá er búin til tá.
Sokkurinn verður snúinn og enginn hæll er prjónaður.

Í dag er...

...pálmasunnudagur.

Og svo sem ekkert meira um það að segja.

Hjá okkur fylgir ósköp lítill hátíðleiki þessum degi.

Hér eru hvorki pálmar né lambakjöt en þegar ég kom heim áðan var Ingó í eldhúsinu að undirbúa mangókjúklingarétt. Mmm æði.

Ég var hins vegar örlítið að aðstoða við undirbúning fermingarveislu. Það er nú ekkert smá mál að bjóða heim til sín 70 manns og mamma fermingarbarnsins er aðeins komin með fiðring.
Aðeins.

Og þó að sumt sé hægt að útbúa með fyrirvara þá er annað ekki hægt að gera fyrr en rétt fyrir veislu.

En kransakökubita má frysta og við bjuggum til heilmarga slíka.

Og við erum orðnar s v o góðar í rice-crispies kransakökum að við getum bráðlega farið að taka að okkur veislur.
Mjög bráðlega.
Fylgist með auglýsingum hér á síðunni.

Myndin...

...The Notebook var í sjónvarpinu í gærkveldi.
Þriggja klúta mynd.
Þó ég hafi séð myndina áður þá grét ég úr mér augun en reyndi að láta ekki á neinu bera.
Sneri mér undan og hóstaði og notaði öll þau ráð sem maður notar undir þessum kringumstæðum.

En þetta er ótrúlega falleg saga og flott mynd. Og ég mæli með henni við þá sem hafa ekki séð hana.

Þó að í henni séu fullt af hlutum sem engan veginn geta gengið upp.
Þá get ég alveg litið fram hjá þeim flestum.

Mér finnst samt svolítið skrítið að sjá að heilabilaða vinkonan hafði engu gleymt nema sínum nánustu. Hún átti auðvelt með samræður, fór létt með að muna öll orð, gat lesið nótur og spilað á píanó.

Mér fannst þetta frekar vera eins og heilaskemmd á afmörkuðu svæði.
En líkast til er ekki jafn myndrænt að sýna fólk sem þekkir fólkið sitt en hefur til dæmis gleymt hvernig á að nota hnífapör.
Nei ég segi nú bara svona.

laugardagur, 27. mars 2010

Garnvöntun



Þær dönsku komu með garnpakka frá Holst-garni sem ég hafði pantað og beðið þær að kippa með.
Og ég get varla beðið eftir því að byrja að prjóna. Verð samt að klára þá svörtu fyrst.

Eru þetta ekki fallegir litir?

Danirnir heim

Danski hluti fjölskyldunnar kom til landsins í dag.
Þær ætla að stoppa hér í rúma viku, skoða nýja barnið, fara í fermingu og skírn, og bara hitta fólk.

Öll stórfjölskyldan skrapp í kaffi upp í Breiðholt til að kíkja á ferðalangana. Enda er allt of langt milli hittinga og símtöl einstaka sinnum eru engan vegin nóg til að fylgjast með.
Litla frökenin (sem verður tveggja ára í maí) tók öllu þessu fólki með jafnaðargeði og eftir stutta stund var mesta feimnin farin og hún farin að spjalla og leika sér.

Þegar nýjasti fjölskyldumeðlimurinn kom fékk hann þó mesta athygli - sú litla var ægilega hrifin og þurfti mikið að skoða baby eins og hún kallaði hann. Fór samt ótrúlega varlega.
Æ þau eru æðisleg þessi litlu kríli.

Olympíugull

Það var útskrift hjá Asa í Ólympíustærðfræðinni í dag.
Hann er búinn að vera í tímum einu sinni í viku frá því í október, sem eru um 20 tímar.
Þar hefur hann glímt við stærðfræðidæmi sem eru mörg hver alveg ótrúlega flókin og hefur skemmt sér hið besta.


Fjöldinn sem tekur þátt er alltaf að aukast og nú skilst mér að alls séu um 250 krakkar í 20 skólum í Reykjavík í þessum tímum.


Og í dag var sem sagt uppskeruhátíð, rétt eins og í boltanum.
Og þeim var boðið sem fengu verðlaun. Og foreldrum þeirra að sjálfsögðu.


Mér skilst að stefnan sé að um helmingur fái verðlaun - silfurverðlaun. Og mig minnir að um 10 prósent fái gullverðlaun.


Og litli drengurinn (sem er auðvitað alls ekkert lítll heldur bæði stór og duglegur) fékk gullverðlaun. Og hann var næst stigahæstur í sínum hópi.
Ekki slæmt.


Og alla þessa stærðfræðigáfu hefur hann fengið frá mér.

Held ég.

Sko ekki spurning.

Ég meina hvaðan annars ætti þetta að koma.

fimmtudagur, 25. mars 2010

Berar tær og vítamín

Ég settist út á pall áðan. Með andlitið í sólina og berar tær.
Náði góðum klukkutíma með D-vítamín beint í æð.
Það var sko ekki vanþörf á því eftir skort undanfarinna mánaða.
Nú fer að líða að sokkalausum dögum og frjálsum tám.
Kannski það sé kominn tími á fótsnyrtingu.

Eruð þið ekki bara að grínast...

... með þetta frábæra veður.
Vá hvað ég vona að það sé komið til að vera.

Ég kom heim í fyrra fallinu í dag og var með ógurleg hjólalöngun.
Gróf mig gegnum ægilegan haug í sólstofunni fann hjólin og dreif fröken B. í smá hjólatúr.
Frábært.

Mikið rosalega finnst mér gaman að hjóla.
Á jafnsléttu altsvo.
Og niður brekkur.

Þegar ég kom heim tók ég 15 mínútna tiltekt í sólstofunni. Ekki að það væri nóg - en ég er alla vegana byrjuð.
Og svo er ekki nema einn dagur í páskafrí.

miðvikudagur, 24. mars 2010

Vorjafndægur

... fór algjörlega fram hjá mér.
Altsvo dagurinn sem slíkur.
En ekki birtan og vorið og fuglasöngurinn.

þriðjudagur, 23. mars 2010

Skonsur

Þegar ég kom heim áðan var löngunin í nýbakaðar skonsur öllu yfirsterkari.

Smá hveiti og smjör og sitthvað fleira.
15 mínútur og allt er tilbúið.
Ostur og sulta.
Og maður minn, sultan er æði.
Nýgerð rifsberjasulta a la tengdó.

mánudagur, 22. mars 2010

Búin

Teppið er tilbúið.
Og tvær vikur í afhendingu.
Vá hvað ég er spennt að gefa það.

Til minnis:
Stærð 85 x 115
5 lengjur - 4,5''
Á milli lengja eru 3'' breiðir listar
Ullarvatt á milli laga.

sunnudagur, 21. mars 2010

Teppish

Það er alveg að fæðast teppi.
Ég er búin að sauma alla búta og quilta.
Á bara eftir að 'loka' því.
Það verður þó ekki fyrr en á morgun.
Er búin að fá nóg í dag - og sé sófann í hillingum.

Mottumars

Ég verð alltaf jafn hissa þegar ég lít framan í Ingó og hugsa...

...hvaða karl er þetta eiginlega?

Smá skegg og alveg splunkunýtt andlit.

Sunnudagur

...í allan dag.
Frábært.

Saumaskapur og heimsóknir.
Garn og kós.

laugardagur, 20. mars 2010

Verslunarferð

Ég er ekkert voðalega dugleg að fara í búðir en í dag þurfti ég að fara á nokkra staði.
Í Blómavali var æðisleg túlipanasýning. Þar voru túlipanar í óteljandi afbrigðum og öllum litum. Hverjir öðrum fallegri.
Ég fékk mér þó ekki túlipana heldur keypti mér vorlegar páskaliljur í potti.

Þegar við vorum í Smáralind var þar slatti af fólki en í Kringlunni var hvert einasta stæði upptekið og inni var, að okkur meðtöldum, öll þjóðin að spássera.

Eftir að hafa skoðað og keypt það sem til stóð, þá fórum við á kaffihús.
Það er toppurinn.
Ilmandi kaffi og ostakaka.
Í góðum félagsskap.
Uppáhaldið mitt.

Laugardagurinn...

...hefur verið drjúgur.

Ég var komin á stjá um klukkan hálf sjö. Og farin að raða saman efnum í teppi.

Það reynist mér alltaf svolítið erfitt að finna út hvað fer best með hverju og ég eyði löngum tíma í að færa búta fram og til baka. En að lokum kemst á einhver mynd sem maður er sáttur við.

En þar sem ég átti ekki til efni til að setja milli raðanna varð ég að skjótast í Virku.
Og reyndi að horfa ekki á alla dýrðina þar heldur einbeita mér að þessum 80 sentimetrum sem mig vantaði.
Kaupa þá og ekkert annað.
Standast allar freistingar.
Vera stabíl.

Og halda áfram að sauma.

fimmtudagur, 18. mars 2010

Huggulegt

Tíu rauðar rósir
og fínn matur
í góðum félagsskap
allra á tuttugu og fimm
Er hægt að biðja um meira


Merkisdagur

Í dag er sjötugasti og sjöundi dagur ársins.

Það er vor í lofti og fimm stiga hiti.
Og orðið albjart löngu fyrir klukkan átta.

Og ég skrifa færslu númer 100.
Sem er mun meira en ég bjóst við að endast.

Fyrir flesta er þetta þó ekkert merkilegur dagur. Bara dagur eins og í gær.

Og þó...
... Queen Latifah er fertug í dag og Vanessa Williams 47 ára - en það er ekki það.

Það er ekki þess vegna sem dagurinn er merkilegur.
Í dag er nefnilega 21 ár síðan ég gifti mig.

Það finnst mér dálítð merkilegt.

miðvikudagur, 17. mars 2010

Ferming

Ég fór í fyrstu fermingu vorsins um seinustu helgi.
Þetta var fínasta veisla í skemmtilegum sal og veitingar voru af bestu sort.

Fermingarbarnið og fjölskylda þess voru í sínu fínasta pússi.
Og hinir auðvitað líka.

Mér finnst alltaf svolítið gaman að stúdera fólk, skoða tískuna eins og hún birtist, spá í skóna, töskurnar og fleira í þeim dúr.

Og þegar svona margir eru samankomnir er kjörið tækifæri.

Ég tók til dæmis eftir því að himnháir skór eru mjöög mikið í tísku.
Ótrúlega smart.
Ég held samt ég þyrfti bæði jafnvægis- og gönguæfingar til þess að þora í svoleiðis skó. Hvað þá á almannafæri.

Kosturinn við svona veislur er svo að sjá ýmsa ættingja sem maður sér annars allt of lítið af. Alls konar frænkur og frænda.

Og það þarf heilmikið að tala.
Rifja upp og spjalla.

Gullkorn dagsins átti þó ein frænka mín sem heilsaði systur sinni með orðunum:

"mikið er nú gott að faðma svona feita konu"

mánudagur, 15. mars 2010

Ég var að spekúlera

Ef að lifrarkæfa inniheldur lifur og kindakæfa er af kind ...
...hvað ætli sé þá innihaldið í þessari kæfu?

Litir

Aðalhandavinna mín þessa dagana er svört peysa úr Cascade garni. Og þó hún sé einföld þá er hún prjónuð fram og til baka og það tekur mig óratíma.

Mér finnst því ágætt að grípa í eitthvað annað á milli og fínt að vinna niður bómullargarnið.
Þó ég eigi enn eftir slatta af heilum dokkum þá eru aðrir hnyklar farnir að minnka þannig að ég varð að finna hvernig mætti nýta þá.

Ég prjónaði fyrst einn borðklút úr einlitu appelsínugulu.
Næsti klútur varð til úr tveimur litlum hnyklum af hvítu og bleiku.
Og sá þriðji úr enn smærri hnyklum.
Og enn eru til hnyklar.

Til minnis:
Múrsteinaprjón
Fitja upp 45 lykkjur með lit A, prjóna 2 umferðir slétt.
Garðaprjón 4 umferðir í lit B (2 garðar).
munstur: prjóna 4 lykkjur, taka næstu óprjónaða upp á prjóninn, prjóna 5, 1 óprjónuð, út á enda prjóns - þar eru að vísu 4 lykkur eins og í byrjun
2 sléttar umferðir með lit A
2 garðar af lit B, prjóna 1 lykkju, taka næstu óprjónaða upp á prjóninn, prjóna 5, 1 óprjónuð, út á enda

Vikubyrjun

Það er náttúrulega bilun að vera búin í sturtu og komin á fætur þegar klukkan er bara rétt rúmlega fimm.
Aðrir á heimilinu í fastasvefni.

En það er líka notalegt.
Að sitja hér með heitt myntute og kósa sig.
Og bráðum detta blöðin inn um lúguna.

En fyrst ætla ég í smá blogghring og svo að prjóna í nokkrar mínútur.

sunnudagur, 14. mars 2010

Bleyjupoki

Fórum loksins í gær og kíktum á litla prinsinn.

Ég er búin að bíða í heila viku eftir því að hóstinn lagaðist, þannig að við gætum farið með nærbolina áður en þeir yrðu of litlir.

Fór líka með agnarlitla húfu sem einn vinnufélaginn vildi endilega að ég færði þeim litla.

Og svo fór ég líka með bleyjupoka sem ég saumaði.

Hann rúmar 2-3 bleyjur og blautservíettur. (Það er þá hægt að sleppa plastpoka eða lausum bleyjum í tösku.)
Það verður spennandi að fá að vita hvernig hann reynist.

Til minnis:
Pokinn er sniðinn eftir A-4 blaði (2x ytra byrði og 2x innra byrði)
Úr hornum er sniðinn 1,1" ferningur til að móta botn, sem er svo styrktur með flíselíni.
Lokið er í stærðinni 6x6 tommur. Í það er líka sett flíselín.
Lokað með frönskum rennilás.
Sem þarf að sauma fastan þó svo að Rúmfatalagerinn segi að hann þurfi einungis að líma niður.

Vor í lofti

Mikið ægilega er veðrið búið að vera gott undanfarna daga.
Um miðjan dag í gær fór hitinn upp í 10 stig og á sama tíma var sólin að glenna sig.

Og það var blankalogn.
Ekki slæmt.

Og fyrstu merki vorsins sjást út um allan bæ.

Og nágranninn í húsinu á móti er búin að fara fyrsta vorhringinn í garðinum- og hefur hreinsað lauf og drasl úr blómabeðum.

Ég er ekki alveg komin þangað.

Er þó búin að fylgjast með vexti á krókusum og perlulaukum í marga daga og bíða eftir því að þeir springi út.
Og skoða brumið á trjánum.

Fór svo í gær og kíkti undir laufþekjuna og viti menn - þar voru túlipanar (ja eða páskaliljur) komnir nokkra sentimetra upp úr moldinni.

Það er bara allt að gerast.

fimmtudagur, 11. mars 2010

Munum að endurnýja

Í dag fór ég í klippingu.

Það er allt of langt síðan ég fór síðast þannig að lopagrár var orðinn ríkjandi litur.

Sem er náttúrulega engan veginn smart og alls ekkert skvísulegt.

Ég naut þess að láta stjana við mig, fékk hárþvott og höfuðnudd og flunkunýjan lit.
Og nýja klippingu.

Og labbaði út algjörlega...

...hjaa endurnýjuð.

miðvikudagur, 10. mars 2010

Tiltekt

Frystikistan okkar er orðin tæp og í hana safnast heil snjófjöll.
Venjulega dugar að lemja snjóinn af en svo einn daginn gengur það ekki lengur.

Ingó tók sig því til um helgina, tæmdi hana - afþýddi og gerði lista yfir innihaldið.
Og þar kenndi sko ýmissa grasa.
Sumu var hent, annað verður eldað á næstunni og eitthvað fór til tengdamömmu.

Hún fékk meðal annars 8 kíló af niðurskornum rabbabara sem vonandi verður sulta fyrir alla ættina. Og ég hlakka til að sjá hvað hún gerir úr þessum 3 kílóum af rifs- og sólberjum sem við áttum.

Hér þarf heldur ekki að kaupa mat á næstunni heldur verður hann sóttur í gnægtarborð kistunnar.

Og matseðillinn verður fjölbreyttur - ó já.
Fiskibollur, kjötbollur og grísasteikur- hakk og fiskur og kjúklingur í kílóavís...

þriðjudagur, 9. mars 2010

Dagurinn í dag

Í dag fór ég í gönguferð í rigningu, með tæplega 30 börn
og tvær ferðir niður í bæ - þar af aðra að óþörfu.

Í dag sprakk líka á bílnum mínum - en aðeins 100 metra frá dekkjaverkstæði svo vaskir menn björguðu málunum á engri stundu.

Í dag kom ég heim alveg hundþreytt en þá tók fröken B. á móti mér með nýbakaða snúða og tandurhreina íbúð.

Svona samanlagt - þá var þetta ágætis dagur.

Takk fyrir mig elsku besta fröken B.
You made my day.

Ákeyrsla

Þegar ég kom út í gærmorgun sá ég að einhver hafði keyrt utan í bílinn minn.

Ég var svo sem ekkert viss um hvar og hvenær það hefði gerst - en fannst líklegt að það hefði gerst um helgina. Kannski á einhverju stóru bílastæði þar sem hinn aðilinn hefði miklað fyrir sér að finna eiganda bílsins.

En nei það var ekki - þegar ég kom heim þá sá ég glerbrot í stæðinu þar sem minn bíll hafði verið - brot úr ljósi þess sem keyrði á bílinn.

Þetta hefur sem sagt verið einhver sem er búsettur hér í götunni eða gestur hans.

Skrítið að láta ekki vita.

mánudagur, 8. mars 2010

Syngjandi mánudagur

Ég vaknaði syngjandi í morgun. Lag sem Nýdönsk söng hér einu sinni.
Ekki veit ég hvað mig var að dreyma en laglínan er algjörlega pikkföst í kollinum á mér.

'Frelsið er yndislegt, ég geri það sem ég vil'

Ekki slæm byrjun á nýrri viku.

sunnudagur, 7. mars 2010

Hlýtt fyrir frænda


Ég frétti um daginn að lítinn frænda vantaði ullarboli.
Ég átti slatta af fínu garni svo að í vikunni prjónaði ég tvo boli.
Það verður hins vegar smá bið á að hann fái þá afhenta því að kvef er enn að hrjá mig.


Til minnis:
Hvíti bolurinn er úr barnagarni úr Europris. Ég átti rúmlega 1/2 dokku og notaði svo smá fjólublátt með. Uppskriftina er að finna hér

Í græna bolinn notaði ég Dalegarn Baby ull og fóru í hann um það bil 40 grömm.
Ég studdist við mynd frá Design-club.dk -og tókst hann ágætlega, ég þarf þó aðeins að laga úrtökuna ef ég prjóna svona bol aftur.

Uppskriftin er nokkurn vegin svona:
Fitjið upp 104 lykkjur á hringprjón númer 4 (betra að prjóna laust) og prjónið 17-18 cm.

Fellið af 6 lykkur í hvorri hlið (handvegur) og þá eru 2 x 46 lykkjur á bak- og framstykki.
Í næstu umferð eru fitjaðar upp 22 lykkjur (mega alveg vera 26). Til að bolurinn sé nógu rúmur á axlarstykki er fínt að prjóna 2-3 umferðir áður en byrjað er á úrtöku.

Úrtakan er gerð í annarri hverri umferð, með laska.
Merkið 2 lykkjur þar sem ermi og bolur koma saman (alls 4 sinnum) -þær lykkjur eru alltaf prjónaðar sléttar - og takið saman tvær lykkjur sitthvoru megin við sléttu lykkjurnar.

Í þessari umferð þarf líka að huga að klauf og er framstykki skipt milli miðjulykkja og prjónað fram og til baka þannig að klauf myndist.

Haldið svona áfram þar til 53 lykkjur eru á prjóninum og fellið þá af.

Svo heklaði ég í kringum klaufina og setti tvö hnappagöt.

Þvoði bolina og þeir eru tilbúnir.

Ég get varla beðið eftir því að koma þeim í réttar hendur og sjá hvernig þeir passa.

Lýðræði eða lýðskrum

Það sem mér finnst merkilegast í sambandi við kosningarnar er ekki sú staðreynd að flestir sögðu nei.
Nei -það var nokkuð ljóst frá upphafi - enda var verið að kjósa um eitthvað sem var orðið úrelt.

Hins vegar finnst mér athyglivert að spá í hversu léleg kosningaþátttakan var og hve margir skiluðu auðu.

Það segir nú svolítið.

Að borða fíl

Við höfum flest heyrt spurninguna: Hvernig borðar maður fíl?

Ég man að þegar ég heyrði þetta fyrst þá datt mér ekkert annað í hug en að það væri ómögulegt.
En nú veit ég að svarið er: með því að taka einn bita í einu.

Og mikið rétt. Hugmyndin er auðvitað að búta yfirþyrmandi verkefni niður í viðráðanlegar einingar. Ekki bara fíla heldur þau verkefni sem maður upplifir annars sem allt að því óyfirstíganleg.

Þetta er auðvitað bara ein útgáfa af skipulagi og tímastjórnun.

Og í gegnum tíðina hef ég stöðugt verið að reyna að koma á einhverju skipulagi og reglu hjá mér.

Þegar krakkarnir mínir voru yngri notaði ég stundum klukku til að búta verkefni niður og það reyndist ótrúlega vel.
Krökkum geta fallist hendur við að eiga að taka til í 'öllu' herberginu sínu á meðan það er ekkert mál að taka til í 15 mínútur. Og eftir nokkra daga eða nokkur skipti er herbergið hreint.
Og allir eru sáttir og finnst þeir hafa staðið við sitt.

Ég hef líka notað þetta á sjálfa mig. Þegar ég var í háskólanum lenti ég stundum í því í ritgerðavinnu að allt sat fast og ekki komst stafur á blað. Engin leið að einbeita sér og ekki nokkur leið að sitja kyrr við tölvuna. Þá tók ég fram klukkuna og 'varð' að sitja við í tölvuna í ákveðinn tíma og skrifa eða að minnsta kosti reyna það. Og auðvitað ekki gera neitt annað hvorki skoða tölvupóst né flakka á netinu.

Í dag - er ég enn að reyna að temja mig. Reyni að setja mér markmið sem ég get staðið við.

Núna tengjast markmiðin meðal annars efni og garni.
Ég er búin að sjá að markmiðið sem ég setti í byrjun árs um að 'kaupa ekkert nýtt og nota bara það sem ég á' er hræðilega óspennandi og gengur engan veginn upp. Það þarf því að endurskoða. Mér líst vel á að umorða þetta og segja að ég þurfi að 'nota af lagernum í að minnsta kosti annaðhvert verkefni'.
Einn biti í einu og þá hefst það.

laugardagur, 6. mars 2010

Dilemma

„Nei eða já nú eða þá? Aldrei mér tekst að tak' af skarið" var sungið hér um árið.

Og þetta var einmitt klípa dagsins.

Erfitt val - en ég held samt að ég hafi kosið rétt.
Ég meina - það er ekki eins og valkostirnir hafi verið margir.

Sirkus Geira Smart

Ég held nefnilega stundum að það vanti algjörlega í mig öll tónlistargen. Og man sjaldnast eftir að setja á músik. Finnst oft ágætt að hafa þögn eða í mesta lagi eitthvað rólegt og lágstemmt -sem spilað er í tónhæð sem varla heyrist.

Það er nokkuð því ljóst að krakkarnir okkar hafa erft áhuga pabba síns á tónlist en ekki minn eða öllu heldur áhugaleysi.

Hjá þeim er músik í gangi allan daginn og áhugasviðið nær frá því nýjasta yfir í eldri tónlist. Og mismundandi tónlist - maður minn.

Úr eldhúsinu áðan hljómaði meðal annars Sirkus Geira Smart í flutningi þeirra og Spilverks þjóðanna og Veislan á Hóli var sungin hástöfum með Ríó tríóinu.

Ja þau kunna að skemmta sér yfir uppvaskinu.

föstudagur, 5. mars 2010

Ungur í anda

Það er skemmtilegt að fylgjast með litlum börnum sem eru að uppgötva heiminn og eru sífellt forvitin og undrast allt. Hjá þeim er hver dagur -dagur nýrra uppgötvana.


Það segir sig kannski sjálft að þegar maður eldist þá koma færri hlutir á óvart og vekja undrun.

Maður hefur einhvern veginn séð þetta allt áður.

Það er því alveg frábært þegar upp koma aðstæður þar sem maður áttar sig á að maður hefur ekki alveg glatað hæfileikanum til að láta koma sér á óvart.

Og undrast.

Já og gleðst...
...yfir því að vera að minnsta kosti enn ungur í anda.

Vinnuvikulok

Þetta er búin að vera skrítin vika.

Slen og almennur aumingjagangur hafar verið í aðalhlutverki þessa dagana og hafa meðal annars haft af mér tvo saumaklúbba. Uss suss uss ekki gott.

Það er ekki eins og maður sé vaðandi í saumaklúbbstilboðum.



En nú sé ég fram á bjartari tíð.

Kom við í blómabúðinni út á horni áðan og keypti bæði túlipana og kerti.
Pizzan er í ofninum og rauðvín í glasi.
Það finnst mér prýðis byrjun á föstudagskvöldi.
Og fyrirheit um notalega helgi.

þriðjudagur, 2. mars 2010

Upprisin

Jæja ég er risin úr rekkju. Og það mátti sko ekki seinna vera.
Örlítið lengur ...og ég hefði fengið legusár.