sunnudagur, 31. janúar 2010

One size fits all


Jæja peysunni er loksins lokið.
Eftir að hafa setið stíft við um seinustu helgi þá átti ég bara eftir að prjóna annan hnappagatalistann á sunnudagskvöldið og svo auðvitað þvo peysuna og festa á tölur.

Ég náði að klára mohairgarn sem ég hef átt í ægilega langan tíma, það var held ég keypt í Þýskalandi fyrir 25 - 30 árum.

Ég er ferlega ánægð með peysuna og tel víst að hún verði mikið notuð...
...af okkur mæðgum báðum ...
...svona One Size Fits All
Hér kemur smávegis til minnis.
Peysan vegur 430 gr.
Prjónuð úr einföldum lopa og mohair, á prjóna nr. 5
Í hana fara 200 gr ljósgrár lopi, og tæplega 200 gr Zareska-mohair
Fremst á ermum, neðst á bol og listar eru úr dökkgráum lopa og með honum er afgangur af Super kid mohair
8 tölur
Uppskriftin heitir Transitions Yoke Cardigan og er líka á Ravelry

föstudagur, 29. janúar 2010

Klár í kvöldið



Pizzan í vinnslu.

Stóllinn, prjónarnir, rauðvínið, sjónvarpið - allt klárt.

Bara eftir að kveikja á kertum og kvöldið getur byrjað.

Mmm einmitt eins og ég vil hafa það.

fimmtudagur, 28. janúar 2010

Árekstur


Það varð fimm bíla árekstur á Kringlumýrarbraut í gærmorgun.
Fröken B var ökumaður fimmta bílsins. Hana sakaði sem betur fer ekki, en bíllinn er ansi krumpaður.

Miðvikudagur er lengsti dagurinn hennar í skólanum, svo tekur við þjálfun og hjálparsveit. Hún kom því ekki heim fyrir en um tíu. Hélt bara sínu plani eins og ekkert væri á þessum vandræðalegasta degi í lífi sínu - eins og hún kallar hann.

miðvikudagur, 27. janúar 2010

Uppskriftir

Í matargerð er í lagi að cirka og slumpa en í kökubakstri gengur það síður.

Venjulega dugar að hraðlesa prjónuppskriftir og breyta og bæta eftir því sem við á
(lesist: redda því sem þarf að redda af því uppskriftin var ekki lesin nægjanlega vel).

Því mér leiðist hræðilega að rekja upp. Geri það bara helst ekki. En stundum þegar allt er komið í flækju verður ekki hjá því komist.

Og ég les uppskriftina aftur ...og aftur ...og aftur. Og merki við hverja prjónaða línu. Og sé að ég þarf að nota Cable cast on sem ég veit ekkert hvað er.

Og fer á You Tube læri nýja uppfit.

þriðjudagur, 26. janúar 2010

Þolinmæði

Stóri drengurinn eldaði kvöldmatinn. Uppáhaldið sitt, hakk og tortelini. Hann er með þá tillögu að gera þetta að föstum þriðjudagsmat og sleppa fiskmáltíðinni í staðinn.
Yeah Right!

Við Ingó skruppum upp á slysó til að líta betur á bólgna hönd. Ja skruppum er kannski ekki alveg rétta orðið því svona ferð tekur óratíma og við mættum brynjuð þolinmæði.

Eftir tveggja tíma bið var búið að kalla inn alla þá sem voru á staðnum þegar við mættum og líka þessa fjóra sem komu á eftir okkur. Og ekki nokkur maður eftir á biðstofunni.
Og enn biðum við. Það hvarflaði að mér að annað hvort væru þeir að bíða eftir fleirum til að afgreiða á undan okkur - eða að við hefðum gleymst.

En svo kom auðvitað að okkur að lokum og afgreiðslan eftir það tók ekki svo langan tíma.
Ingó þarf hins vegar að koma þrisvar á dag næstu daga til að fá lyf. Ég er hrædd um að hann geri ekki mikið annað þá daga ef það verður þriggja tíma bið í hvert skipti.

Á meðan við vorum að þessu stússi var svo múrarinn að flísaleggja.

mánudagur, 25. janúar 2010

Laugardagskjúklingur á mánudegi

Afgangar í matinn í dag. Samtíningur frá helginni.
Svo sem ekki slæmt.


Á laugardag elduðum við nefnilega æðislegan kjúklingarétt þar sem ég gat klárað döðluafganga og kapers.

Set hann hér inn svo hann gleymist ekki. (Sumir kalla þetta spánska kjúklingaréttinn).


Kjúklingur með döðlum og ólífum


Kjúklingur - (skorinn í bita, enn betra að nota bringur og skera hverja í ca 3-4 bita)
settur í fat

Blanda saman:
Nokkrum hvítlauksrifjum (smátt skornum)
1/4 bolla oregano
1/2 bolla rauðvínsediki
1/2 bolla ólífuolíu
1 bolla hvítvíni
og hella yfir kjúklingabitana.

Salta og pipra (eftir tilfinningu og smekk), svo er kapers, ólífum og niðurskornum döðlum dreift yfir.

Kjúklingurinn er bakaður við 200° í ca 20 mínútur. Þá er púðursykri stráð yfir bitana og bakað í 10-15 mínútur í viðbót. (Lengur ef notaðir eru bitar með beini).

Meðlæti: hrísgrjón, salat eða hvað manni dettur í hug, en brauð er nauðsynlegt.



Og svona leit þetta út á disknum mínum.

sunnudagur, 24. janúar 2010

Sunnudagskvöld

Jæja aftur komið sunnudagskvöld. Jebbs showtime.

Ég hef setið undanfarna daga og prjónað gráa peysu og það munar svooo litlu að hún sé tilbúin. En það vantar smávegis uppá svo hún verður vonandi hér í næstu viku.




Verkefni þessarar viku er Möbiusartrefill fyrir dótturina. Mér skilst að það sé prjónaverkefni sem allir verði að prufa, ferlega skemmtilegt og tekur aðeins eitt kvöld. Uppskriftin er á ravelry og í trefilinn fóru 160 grömm af garni. Allt af lagernum.

Ræktin

Hann Ingó hefur óbilandi trú á mér.
Í dag endurnýjaði hann árskortið mitt í ræktina.

laugardagur, 23. janúar 2010

Álafoss


Mér finnst alltaf svolítið gaman að koma við í Álafossbúðinni. Staðsetningin er flott og svo er þar til óskaplega mikið af alls konar hlutum sem ég girnist.

En í dag var tilfinningin pínulítið öðruvísi. Ég var með nokkra hluti sem ég vildi losna við og selja og aðra sem ég vildi skipta. Og eins kjánalega og það hljómar þá dauðkveið ég fyrir, var andstutt og með kvíðahnút í maga.

En það reyndist ástæðulaust. Búðin keypti af mér allar lopavörur sem ég kom með og ekkert mál reyndist að skipta lopa í kambgarn.

Svo nú þarf ég bara að halda áfram og klára peysuna sem ég er að prjóna - svo ég geti sem fyrst byrjað á að prjóna úr nýja bandinu.

föstudagur, 22. janúar 2010

Svona hjólhýsapakk...

...sem kaupir stöð 2 og horfir á Loga í beinni sagði Benedikt Erlingsson víst einu sinni. Þeir eru náttúrulega í algjörri andstöðu við menningarvitana í 101 sem fara í leikhús og á tónleika og drekka ekki kaffi nema á kaffihúsum.
Og nú er ég formlega orðin ein af hjólhýsapakkinu. Og horfi í alvöru á Loga í beinni.

En málið er sem sagt þetta - okkur var boðið að koma í stúdíó og fylgjast með. Mér leist nú ekkert voðalega vel á þetta í byrjun - fannst hálf hallærislegt að sitja þarna og klappa eftir pöntun. En Ingó og Asa leist æðislega vel á og ég lét til leiðast.

Við mættum hálftíma fyrir útsendingu. Ekki samt í smink heldur í pítsuveislu. Og gos og vatn og bjór eins og hver vildi.

Gestirnir voru í öllum útgáfum. Sumir voru ægilega fínir svona rétt eins og þeir væru að fara í leikhús en aðrir voru í jogging. Við hækkuðum meðalaldurinn talsvert því flestir voru nálægt tvítugu en þó vorum við alls ekki elst.

Svo hófst útsendingin. Það kom mér á óvart hversu margir vinna að henni. Fyrir utan fjóra myndatökumenn, voru að minnsta kosti tveir hljóðmenn, útsendingarstjóri, sviðsmenn, sminkur, matarstelpa og svo er eflaust einhver í myndstjórninni þó svo að hann hafi ekki verið sýnilegur.
Og ég hló og klappaði - og skemmti mér þrælvel.


Bóndadagur

Ég er nokkuð góð í að skipuleggja og skrifa lista (í huganum) yfir það sem ég ætla mér að gera þegar vinnudeginum lýkur. Ég ætla kannski í búð, niður í bæ eða í heimsókn. En þegar líður á daginn og klukkan nálgast fjögur þá verða þessir hlutir allt í einu ekki eins mikilvægir og ég stroka þá út hvern af öðrum eða færi yfir á lista morgundagsins.

Og druslast svo heim alveg búin og sé sófann í hillingum.

Í dag samanstóð listinn af fjórum atriðum. Þrjú verða geymd til betri tíma en eitt komst í verk.



Ég viðurkenni að ég var hvorki jafn hugmyndarík og sú sem vakti manninn sinn með nýbökuðum vöfflum í tilefni dagsins né sú sem sendi sínum manni krúttleg sms í allan dag.


En ... til hamingju með daginn.

Það er ágætis...

...æfing í þolinmæði
að hafa múrara í vinnu.
Við höfum núna æft okkur í viku.

fimmtudagur, 21. janúar 2010

Grár fimmtudagur

Mikið er allt grátt úti.

Í dag labbaði ég heim úr vinnunni og veðurguðirnir gerðu hlé á öllu veðri á meðan.
Bara sól og blíða.
Jamm ...eða þannig.

Ég heyrði varað við ofsaveðri. Og það fer svo sem ekkert á milli mála að eitthvað er að gerast því það hvín í öllu og hellirignir.
Og ég sem ætlaði á veislusiðanámskeið í kvöld. Læra að leggja á borð og mingla og ég veit ekki hvað og hvað.
En svo urðu allir á undan að skipuleggja sitt og við Asi erum ein eftir og bíllaus í þokkabót. Og við verðum bara tvö í mat - sem er sko ekki algengt.
Kannski ég æfi minglið hér heima yfir grjónagrautnum.

miðvikudagur, 20. janúar 2010

Spekúlering

Mér var litið í spegil um daginn - og það flaug í gegnum hugann á mér - úff hvað gerðist eiginlega?
Og gamall brandari rifjaðist upp fyrir mér: Góði guð ef þú getur ekki gert mig mjóa - gerðu þá vini mína feita.
Nei nei nei auðvitað hugsaði ég það ekki.
Undanfarna viku hef ég haft súrdeig í undirbúningi og í gær varð það að brauði, svona þéttu dökku rúgbrauði. Ekki ósvipað því sem við höfum fengið í Danaveldi. Og það heppnaðist svona ljómandi vel.
Og ég sem er að reyna að taka mig á í nestismálum tók með mér tvær í nesti ásamt grænmeti.
Annars var ég bíllaus í dag og ákvað að slaufa hittingi og Elliðaárdalsgöngu - og labba heim úr sjúkraþjálfuninni.
Tuttugu mínútur og samviskan er hrein.

mánudagur, 18. janúar 2010

Eldhússkápa-eftirjóla-tiltekt

Núna er janúar rúmlega hálfnaður og ég er búin að taka niður allt jólaskraut fyrir löngu síðan.
Ja fyrir utan jólagardínur altsvo en þær verða uppi aðeins lengur.
Og nokkur jólaljós ... og jóladúkar.

Í eldhússkápum leynast hins vegar enn ýmsir afgangar frá jólum sem ég reyni að klára svona smám saman. Konfekt kláraðist um daginn í heitu eplapæi og í gær urðu möndluafgangar að biscotti.

Ég hef áður bakað biscotti og tekist ágætleg en í gær mistókst allt sem hægt var að klúðra.
Eggin og sykurinn sem áttu að hrærast ljós og létt urðu það ekki, deigið vildi ekki loða saman og varð að misstórum klessum í stað fallegra brauðstanga, og svo var hitinn of mikill þannig að brúnirnar brunnu.

Og auðvitað litu kökurnar skelfilega illa út.
En voru ægilega góðar.

Ég er að spá í hvort ég verði ekki að kaupa dálítið meira af möndlum og reyna aftur.
Bara til að æfa mig.
Ekkert annað.

sunnudagur, 17. janúar 2010

Trassverk

Ég veit ekki hvort trassverk er alvöru orð, en hitt veit ég að trassverk eru til. Þessi litlu og stóru verk sem maður ýtir á undan sér og eyðir meiri tíma í að hugsa um og hafa áhyggjur af en tekur í raun að leysa þau.

Í vikunni fækkaði trassverkunum mínum um eitt - þegar ég loksins prjónaði bætur og setti á peysu.

52 hlutir - 52 vikur

Ég sá konu í blaðinu í gær sem gerði 52 húfur á einu ári. Ég hafði heyrt af henni áður því þaðan kom hugmyndin mín um að ljúka einu verkefni á viku - sko áramótaheitið. Og þar sem ég hef lengi haft áhuga á að minnka garn- og efnalagerinn og sá ég þarna leið. Ég treysti mér þó ekki í vikulega hönnun. Eða eiginlega bara alls enga hönnun.

En verkefni þessarar viku er klárt. Það hefur þó tekið meiri tíma en eina viku.

Og skyrtu- og flónelsefnastaflinn hefur aðeins minnkað við þetta - teppið vegur ca. kíló. Ónýtanlegir afgangar (jebbs þetta var dálítið erfið ákvörðun) frá báðum teppum er um 1,5 kíló. Allar stærðir eru þær sömu og í fyrra teppi.
Og nú er teppið komið á nýjan stað.

Sláturgerð


Í dag tóku Ingó og Asi slátur.

Ekki kannski alveg tíminn fyrir það sem er venjulega haustverk, en haustið hvarf okkur einhvern veginn og hráefnið lenti í frystinum.

En í dag var sem sagt komið að því. Og tók nákvæmlega tvær klukkustundir.
Og á meðan kláraði ég handavinnuverkefni vikunnar.

Og nú eru ekki nema nokkrar mínútur í að við fáum nýja lifrarpylsu, rófur og kartöflumús.

laugardagur, 16. janúar 2010

Happadagur

Það gerist ekki oft að við sofum yfir okkur - en það munaði litlu í morgun. Asi náði þó á fótboltamótið, dóttirin í skólann og stóri drengurinn í vinnuna - á tiltölulega réttum tíma. Rétt fyrir 11 ætluðum við í flísaleiðangur og kippa Asa með.

Ég veit ekki hvað gerðist en Ingó ætlaði að æða yfir gatnamót án þess að taka eftir því að það var á móti rauðu ljósi. Ég missti andann en þvílíkt lán var yfir okkur og hann náði að stoppa rétt áður en bíll keyrði þvert fyrir okkur.

Við vorum nærri tvo tíma í burtu, náðum í Asa, keyptum flísar og skoðuðum innréttingar. Rúntuðum. Spjölluðum. Spáðum og spekúleruðum. Þá allt í einu mundi ég ...sko var ekki alveg viss ...hvort ég hefði slökkt á kertunum frá því um morguninn.
Heimferðin tók heila eilífð- og á leiðinni svipaðist ég um eftir slökkviliðsbílum og reyk á himni. Hlustaði eftir sírenum.
Þegar við komum heim voru það aðeins gleymdu kertin sem loguðu. Þvílíkt lán.

föstudagur, 15. janúar 2010

Föstudagur

Mmm ég elska föstudaga ...að minnsta kosti eftir hádegi (ja svona eftir klukkan 3).

Það er eitthvað svo notaleg þessi tilfinning um alla helgina framundan og þægilegt að vita að einhverjir aðrir bera ábyrgð á matnum -því krakkarnir sjá alltaf um föstudagspitsuna.


Og við þessi gömlu sitjum inni í stofu við kertaljós og klárum jólalíkjörinn.

fimmtudagur, 14. janúar 2010

Hælsæri

Mér varð hugsað til göngulags mannsins sem lét tattóvera á sér ilina eftir tapað veðmál ...þegar ég gekk um allt með hælsæri á báðum eftir gönguferð gærdagsins.

miðvikudagur, 13. janúar 2010

Miðvikudagsganga

Miðvikudagar eru göngudagar. Mér finnst þessi klukkutími sem við æðum um Elliðaárdalinn alveg frábær. Við förum alltaf sama hringinn og það hentar mér ágætlega því þá veit ég alltaf nákvæmlega hvað ég á eftir að ganga lengi. Ég verð að játa að það er nú aðallega spjallið og hittingurinn sem ég sæki í en ekki kannski hreyfingin sem slík.

Stelpurnar sem ég labba með eru þvílíkir gönguhrólfar og ég verð að hafa mig alla við að fylgja þeim. Ég geri mér þó vonir um að einhvern tíma verði ég búin að ná hraðanum þeirra og er einmitt að spá í að skjótast í smá æfingaferðir inn á milli -...nja það var nú reyndar ráðlegging frá sjúkraþjálfaranum sem vill að ég hreyfi mig meira.

Annars hélt ég í dag að ég væri farin að grennast. Pilsið var eitthvað svo miklu rýmra en venjulega og í réttri sídd (svona við hné) en ekki á miðju læri. En neei það var ekki svo gott - heldur gekk ég um allt með rennilásinn opinn á rassinum.

þriðjudagur, 12. janúar 2010

Nesti


Í gær bjó ég til þessa líka fínu súpu.
Laukur, gulrætur og sveppir sett á pönnu og látið malla í smá smjöri. Svo örlítið hveiti, hellingur af vatni og súpurkraftur. Eftir dálitla stund er fínt að setja tómatpúrre (eða afgang af taccosósu ef maður á hana) og rjómaost (helst með pipar) og kjúklingaafgang frá deginum áður. Smá sletta af grískri jógúrt gerir heilmikið ...eða tortillaflögur og rifinn ostur ...jafnvel heimabakað brauð.
Og í dag fór ég með það sama í nesti.

mánudagur, 11. janúar 2010

Dugnaður

Fyrir allmörgum vikum, í nóvember held ég, fékk ég tösku sem þurfti að laga. Hengdi hana upp í holinu til að minna mig á ...og fékk í magann í hvert sinn sem ég sá hana.

En í dag gerðist það - og tók nákvæmlega 2 mínútur plús smá bið meðan límið þornaði.

sunnudagur, 10. janúar 2010

Sunnudagur - handavinna

Svakalega er þessi helgi búin að vera fljót að líða. Varla byrjuð þegar hún er búin.

Eftir að hafa vaknað rólega og náð í bílinn fór annað okkar í ræktina meðan hitt las blogg og sinnti ýmsu öðru mjööög mikilvægu. Svo skruppum við í morgunkaffi upp í Breiðholt. Þá var meiningin að hella sér í handavinnu því verkefni næstu viku er komið vel af stað. En það reyndist meira freistandi að fara upp í rúm með bók.
Annars er ég búin að vera með hjartsláttartruflanir í dag sem ég held að séu samt ekki af spenningi yfir bókinni - kannski að rauðvínið í gær sé orsökin.


En hér er sem sagt verkefni síðustu viku



Sunnuhlíðarpottaleppar: 80 gr (eða voru það 90?) bómullargarn
Fitjaðar eru upp 30 lykkjur. Heklaðar 46 umferðir (eða uþb). Tveir og tveir eins.
Og þeir hafa yfirgefið heimilið - voru hluti af afmælisgjöf 5. janúar.

laugardagur, 9. janúar 2010

Fyrsta vikan

Loksins laugardagur og fyrstu vinnuviku ársins er lokið. Ég verð nú að játa að það var stundum erfitt að vakna á morgnana -það er oft heilmikið sjokk að stökkva yfir í venjulegt hversdagslíf eftir þetta langt frí. Eða eins og segir í dagbókinni minni "mánudagurinn er oft slæmur, því hann kemur svo snögglega eftir sunnudaginn".

En þetta var gott frí - besta jólafrí í mörg ár. Sem er auðvitað svolítið skrítið. Eflaust spilar þó margt inní - og ég er viss um að minni streita og betri svefn gegna stóru hlutverki.

Úti er rigning og enn dimmt en hér inni er allt komið á fullt. Eftir miklar vangaveltur með flísar höfum við loks ákveðið okkur og eigum von á múrara á eftir.

Þetta verður fínn dagur.
Og ég ætla að koma mér vel fyrir og prjóna svolítið og jafnvel sauma líka.
Og í kvöld er okkur boðið í mat.

miðvikudagur, 6. janúar 2010

Ég veit ekki alveg...

...hvort mér finnst þetta daður sem á sér stað milli ákveðinna aðila hér á vinnustaðnum dálítið krúttlegt eða bara vandræðalegt.

Og þó ég veit það alveg.

mánudagur, 4. janúar 2010

Fyrsti vinnudagurinn á nýju ári

Það var bara fínt að mæta í vinnuna í morgun. Ég hafði dálitlar áhyggjur af því að komast ekki fyrir í skrifborðsstólnum eftir allt jólaátið, en þær áhyggjur reyndust óþarfar. Hjúkket. Held að það sé samt að verða kominn tími á vatnsbland og hafraseyði.




Í átt að heilsusamlegra mataræði keypti ég fisk. Og vegna þess að ekki má henda mat voru afgangar í eftirrétt. Epli með kanil og möndlum... og súkkulaði... já og fullt af konfektmolum.

sunnudagur, 3. janúar 2010

Af hverju..

...get ég ekki sett inn myndir lengur? Er búin að vera að reyna í langan tíma - setti inn mynd og þurfti að breyta - og aftur - og svo allt í einu virkar ekki lengur að smella á image hnappinn. Skil þetta ekki.

Æji það var ekki flókið - var með gluggann opinn á bakvið.
Er aftur á móti í vandræðum með að setja inn myndir inní texta - endaði á að færa þær í html-inu.

Fyrsta verkefni ársins...

...er flónelsteppi.

Ég er búin að eiga þessi efni allt of lengi og finnst gott að "losna" við þau, ég tala nú ekki um í eitthvað nýtilegt.

Teppið er saumað úr 54 bútum (6x9) í stærðinni 10"x 10", saumfar er 1". Í teppinu eru líka fjórir bútar úr skyrtum sem ég geymdi frá pabba.

Eins og sjá má er teppið strax komið í notkun.

Sunnudagsmorgunn


Ég er búin að koma mér vel fyrir með sjóðandi kaffi í nýja kaffibollanum ætla að skoða fréttir í tölvunni. Er að reyna venjast Moggalausum morgnum – en Ingó hafði sitt fram á endanum og sagði upp blaðinu frá áramótum. Ég les kannski ekki svo mikið af pólitískum greinum þar – enda eru þær algerlega úr takti við allt eftir komu nýja ritstjórans – en fylgist nokkuð vel með dánartilkynningum og minningargreinum. Hmm sem hljómar ekki alveg nógu vel - það er kannski kominn tími, á nýju ári, á að taka sér frí frá veikindum og dauða og einbeita sér að öðrum hlutum.


Tölvan var uppi og útsýnið af efri hæðinni var æðislegt. Svona póstkortastemming í frosti og stillu.

laugardagur, 2. janúar 2010

Finnst þér ekki Esjan vera sjúkleg...


... og Akrafjallið geðbilað að sjá - söng Megas hér um árið. Það á vel við þessa dagana því birtan er æðisleg bæði á morgnana og kvöldin og litaskiptin svo ótrúlega flott. Annars erum við í þvílíkri nostalíu og spilum Megas -og ekki af diskum heldur plötum. Ingó er þvílíkt hamingjusamur með afmælisgjöfina og plöturnar sem komnar voru í geymslu upp á háaloft - eru nú komnar niður og í fulla aksjón.

föstudagur, 1. janúar 2010

Nýtt ár - nýir möguleikar


Undanfarna daga hef ég heilmikið hugsað um árið sem er rétt er liðið. Um atburði og persónur og ýmislegt sem gerðist. Ég ber nefnilega svolítið blendnar tilfinningar til gamlárskvölds. Það eru alltaf ákveðin lok. En það þarf ekki að vera slæmt, neibb alls ekki, því nýtt ár gefur jú fullt af nýjum möguleikum.


Og núna gaf ég sjálfri mér nýjársheit. Það hef ég aldrei gert áður – ekki svona í alvöru að minnsta kosti. Ég er búin að vera í marga daga að formúlera orðalagið. Vil orða það þannig að ég hafi möguleika á að standa við það.

Mig langar nefnilega svo að taka á ýmsu sem hefur hlaðist upp – hlutum sem ég hef veigrað mér við og ýtt á undan mér - hlutum sem ég hef trassað lengi eða jafnvel forðast – alls konar hlutum sem eru beintengdir hinu eilífa samviskubiti.

Og ég hef bútað þetta niður – ætla að gera einn hlut amk á viku – og skrifa um það hér eða sýna mynd. Ég held svei mér þá að þetta sé áskorun sem hægt er að standa við.

Og er strax farin að hlakka til að sjá hluti verða til úr efni og garni (sem til eru á heimilinu) og myndir komast í skipulag, auk annarra hluta.