þriðjudagur, 16. febrúar 2010

Londondon

Það var á föstudag, fyrsta dag í vetrarfríi sem við áttum bókað flug til London. Ég var með fiðring í maganum allan morguninn - eins og alltaf fyrir flug. En hann hvarf þegar ég var búin að tékka inn, birgja mig upp af tímaritum og var sest með smörrebrauð og hvítvín.

Ég hef alltaf talið mig líta nokkuð venjulega út - og er sjaldnast stoppuð í inn- eða úttékki. Enda búin að læra að rífa af mér belti og annan óþarfa - og labba um allt á sokkaleistum. Á útleiðinni vildu þeir skoða handtöskuna mína betur. Og þá meina ég grandskoða. Allt var opnað - gleraugnahulstur, servíettupakki, snyrtibudda - allt. Frekar óþægilegt -en sem betur fer höfðu þeir ekki yfir neinu að kvarta.

Við flugum til Stansted, tókum hraðlestina á Liverpool station og þaðan túbuna á Tottenham Court Road stöðina.

Hótelið var við lestarstöðina. Sem er náttúrulega frábær staðsetning - stutt niður á Oxford að versla og til að borða og spóka sig í Soho.
Herbergið var aftur á móti afar lítð. Pínu, pínu lítið.
Og rúmið var það minnsta sem ég hef sofið í lengi. Breiddin varla meira en 130 cm.
Það þurfti því bæði lagni og samhæfingu til að komast bæði þar fyrir án þess að fá hné í bakið eða olnboga í auga.

Í London er mikið hægt að gera en okkur finnst einna skemmtilegast að labba um og skoða fólk og staðhætti, setjast inn á kaffihús eða bar, fá okkur snarl eða alvöru máltíðir. Já og svo finnst mér reyndar líka dálítið gaman að versla.

Við fórum á veitingastað sem okkur hafði verið bent á. Hann heitir Skylon og er rétt hjá London Eye. Ægilega fínn. Þar var allt fullbókað þegar við komum þannig að við settumst bara á barinn með útsýni yfir Thames og fengum okkur hvítvín og blinis með reyktum laxi.
Veðrið var svo sem ekkert sérstakt í þessari ferð. Og þó. Hitinn fór niður undir frostmark seinni partinn og á kvöldin en yfir hádaginn var hitinn 4-6 gráður sem er jú allt í lagi. Og það hvorki rigndi né snjóaði og alla dagana var blankalogn. Þetta er kannski bara fínasta febrúarveður.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Rosalega flottar myndir :)
ÞS

Nafnlaus sagði...

mmmmmmmmmmmmmmmm ædi.
Verdum ad hittast i London.
Gódar myndir.
Kv.Adda

Anna sagði...

Takk fyrir það ÞS og Adda.

Og Adda ég er sko alltaf til í hitting London. Nefndu bara stað og stund :-)