Mér finnst það svo merkilegt hvað við erum öll ólík.
Finnst skrítið - að það sem getur vafist fyrir einum reynist öðrum leikandi létt.
Og ég hef þá bjargföstu trú að það sé hverjum manni hollt að takast á við hræðsluna í sér - að minnsta kosti annað slagið.
Því oft hræðumst við eitthvað sem reynist svo ekkert mál að gera - þó auðvitað komi það einstaka sinnum fyrir að það sem við kvíðum rætist og reynist jafnvel enn verra og erfiðara en við gerðum okkur í hugarlund.
En það gerist nú sem betur fer sjaldan.
Og svo má auðvitað alltaf deila um það hversu vel tímanum er varið í svartsýni og kvíða. Hvort ekki megi nota hann í að undirbúa sig betur eða bara eitthvað allt annað og uppbyggilegra.
Í dag gerði ég nokkuð sem ég hef ekki þorað að gera áður. Nokkuð sem ekki var nokkur leið að undirbúa sig fyrir. Nokkuð sem ég hefði ekki gert nema af því að það var nauðsynlegt.
Bráðnauðsynlegt.
Jebbs – í dag ég keyrði jeppa í fyrsta skipti.
Og svona ljómandi vel :-)
1 ummæli:
Hræðsla, hugrekki, ótti...
Já ég er sammála því að það er svo merkilegt hvað við mannfólkið erum ólík. Ég hef nokkrum sinnum fundið fyrir hræðslu á lífsleiðinni og sigrast á henni. Ég tel að stærsti sigur sem hægt er að vinna er sigur á sjálfum sér.
Og ég held að allir búi yfir hæfileikum, en það er sjaldgæft að fólk ráði yfir því hugrekki sem þarf til að fylgja hæfileikum sínum inn á þá myrku stigu sem leið þeirra liggur um.
Eða eins og einhver góður maður sagði:
"Hugrekki byggist ekki á því að horfa fram hjá hættunni í blindni, heldur að horfast í augu við hana og sigrast á henni."
Skrifa ummæli