laugardagur, 31. júlí 2010

Saumadagur

Veðrið er milt og allt úti er sérkennilega grátt.
Það er þokumistur yfir öllu og einhvers konar ævintýrablær.
Og fyrstu regndroparnir eru að falla.

Það bara gerast ekki betri saumadagar en þetta.

föstudagur, 30. júlí 2010

Mmmm

Ég elska carpaccio.
Og hef alltaf haldið að það væri aðeins á færi alfærustu matreiðslumanna að útbúa það - en ekki okkar venjulega fólksins.
Og hef borgað morð fjár fyrir þennan rétt á veitingastöðum.

En nú er ég búin að finna leið.
Á bændamarkaði Frú Laugu á Laugalæknum er hægt að kaupa carpaccio í neytendaumbúðum.
Fyrir sáralítinn pening.

Maður þarf ekkert að gera nema setja það á diska.
Ja setja kannski smá olíu, salt og pipar.
Og parmesan. Mikið af honum.

Og svo bara njóta.

fimmtudagur, 29. júlí 2010

Endurnýting og endurvinnsla

Ég hef alltaf verið dálítið veik fyrir hugsuninni um að endurvinna hluti.
Finnst það eiginlega dálítið smart - fyrir utan auðvitað hvað það er gott fyrir umhverfið.

Oft hefur það þó verið meira í orði en á borði hjá mér eins og fleirum.

En þessi hugsunin að henda ekki heldur nota áfram virkar svo vel á mig.
Og ég er svo sem alltaf að reyna.

Ég safna dagblöðum og þvæ mjólkurumbúðir og fer með á viðeigandi staði.
Og í nokkur ár höfum við safnað lífrænum úrgangi sem til fellur úr eldhúsinu í moltutunnu útí í garði - og það er auðvitað ákveðið kikk að sjá ruslið verða að fínustu gróðurmold.

Eitt af því sem heillaði mig við bútasauminn á sínum tíma var þessi hugsun að nýta allt sem til féll og búa til nýja flotta hluti. Það var náttúrulega vegna fátæktar og kreppu sem hann varð upphaflega til. Engu mátti henda sem hægt var að nýta áfram og nýjar flíkur voru saumaðar úr gömlum.
Ja -svo reyndar klikkaði ég illilega, þegar ég datt í bútasauminn, á því að það var auðvitað mun skemmtilegra að kaupa ný og falleg efni. En það eimir þó af nýtni hugsun hjá mér því ég get ekki hent einum einasta fjandans efnisbút - því kannski kemur hann að notum síðar.

En hvað um það. Hugsunin er til alls fyrst eins og einhver sagði.
Og ég er markvisst að vinna niður lagerinn ... og reyna að stilla mig um impulskaup. Því ég get játað það hér að ég hef eytt stórum fjárhæðum í sparnaðarinnkaup.

En í gær var ég í endurvinnslugírnum.
Þá urðu tveir bolir að tveimur strákaboxerum.
Og nýji eigandinn er bara nokkuð ánægður.
Og mamma hans líka.

þriðjudagur, 27. júlí 2010

Húrra húrra húrra

Ég fór í ræktina í morgun.
Rétt eins og ekkert væri sjálfsagðara.
Hljóp á brettinu á hraðanum 12 með 15 % halla í þrjú korter.

Neibb bara grín.
Glætan að ég geti það.

En ég fór samt í ræktina - í fyrsta skipti í meira en eitt og hálft ár.
Gekk á brettinu í nærri 20 mínútur og hljóp í ...uhmm ...180 sekúntur.
Brenndi 120 kalóríum - ef brettið lýgur ekki.

Mér reiknast til að með því að halda svona áfram á hverjum degi muni ég ná kjörþyngd eftir svona 20 - 25 ár.

En ég er þrátt fyrir það bara nokkuð ánægð með mig.

mánudagur, 26. júlí 2010

Taska

Ég er búin að sitja dálítið drjúgt við saumavélina í dag.
Þessi taska er þó það eina sem er tilbúið fyrir sýningu.

Efnin eru upprunalega úr Ikea en ég átti þau bæði til á lagernum.

Taskan getur snúið hvort sem maður vill með röndóttu hliðina út og rautt fóður - eða rautt út og röndótt fóður.
Ég setti flíselín í botninn til að styrkja hann.

Overlockvél

Ég vildi bara hafa það skjalfest að ég gat þrætt overlockvélina.
Alveg ein og sjálf
(með aðstoð leiðarvísisins)
Ég vissi að þetta námskeið myndi borga sig.

laugardagur, 24. júlí 2010

Pils fyrir frúna

Það er alveg ótrúlegt hvað mikið er til að efnum á þessu heimili.
Alls konar bútar, af mismunandi gerð, lit og stærð.

Í kassa fann ég þrjá búta af bláu joggingefni.
Akkúrat af passlegri stærð í buxur á svona sirka 2- 4 ára gutta.
Sem ég á auðvitað ekki í dag en hef væntanlega átt þegar ég keypti bútana.

Þannig að það er náttúrulega heilmikil áskorun - nýtingin altsvo - (útséð með það að ég eigi fleiri 2-4 ára stráka - í bili)
Hugs hugs.

Ég ákvað því að prófa að sauma pils.
Í fullorðins stærð.

Og hér má sem sagt sjá afraksturinn.

fimmtudagur, 22. júlí 2010

Kleinudagurinn mikli

Eitt af því sem ég var búin að plana í sumar var að baka kleinur.
Í gegnum árin hef ég gert nokkrar tilraunir til kleinubaksturs en árangurinn hefur í stuttu máli sagt verið herfilegur.
Og þá er ég ekki að ýkja.
Ýmist verður feitin of heit og þá verða kleinurnar svartar að utan og hráar inní eða þá að feitin er ekki nógu heit og þá drekka kleinurnar í sig alla feitina.
Og það leiðir til sömu niðurstöðu - því afraksturinn verður algjört óæti.

Það eru margar vikur síðan ég sá að ég yrði að fá aðstoð við baksturinn og talaði því við kleinusérfræðing sem er reyndur í sínu fagi og á trausta uppskrift.

Það var þó ekki fyrr en í dag sem kom að kleinudeginum mikla -því eins og allir vita þá eyðir maður ekki sólardegi slíkan bakstur.

Þetta var ekkert smá flott - við notuðum fjögur kíló af hveiti og fengum yfir 300 kleinur. Steiktum svo allt upp úr fjórum lítrum af Isio olíu.

Og svona er uppskriftin:

Kleinur

1 kg. hveiti
150 gr. smjör brætt
250 gr. sykur
3 egg
4 tsk. lyftiduft og 2 tsk. matarsódi
1 glas kardimommudropar
1 glas vanilldropar
1 peli súrmjólk eða rjómi

Eggin, sykurinn og smjörið hrært, öllu blandað saman við, hnoðað létt saman. Varist að gera deigið seigt. Rúllið útí ferhyrnig, ekki mjög þunnt. Búið til kleinur. Steikið í Isio-olíu - ljósbrúnt.

sunnudagur, 18. júlí 2010

Kjóll fyrir fröken

Verkefni vikunnar er kjóll á fröken B. (sem ég get líka notað).
Hann er búinn að vera dálítið lengi í smíðum - þó svo að sjálfur saumaskapurinn tæki ekki svo langan tíma.

Í hann notaði ég efni af lagernum - efni sem er frá því einhvern tíma á seinustu öld.
Sniðið er úr Ingelise (þarf að fletta upp hvaða)- og er sáraeinfalt -
Þetta er a-snið, þar sem smávegis tekið úr handvegi og svo er snúra þrædd efst á fram- og bakstykki.

Sól, sól, sól

Þetta er búin að vera alveg yndisleg vika og hefur liðið eins og örskot.

Ég hef bæði fundið mér tíma til að dundast eitthvað sjálf og svo hef ég líka tekið mig verulega á í félagslegri þáttum.
Þó ég hafi ekki verið neitt svakalega dugleg í vikunni að gera handavinnu þá hef ég lesið þeim mun meira, sólað mig frá morgni til kvölds (hja svona um það bil), hitt fólk, farið á kaffihús, í afmæli og í prjónaklúbb.
Ótrúlega aktív.

En í morgun er ég búin að vera heima að snuddast. Ein.
Stóri drengurinn er að vinna (eins og alla daga) og hin þrjú eru niðri í Kópavogsdal og taka þátt í Símamóti með einum eða öðrum hætti.

Og ég er komin í bikiníið og sest út á pall - með andlitið í sólina.
Alveg guðslifandifegin að hafa öll þessi tré sem skapa skjól fyrir vindi og nágrannaaugum.

laugardagur, 17. júlí 2010

Nýjar kartöflur

Nýjar kartöflur úr garðinum.
(Ja þessar eru nú reyndar ræktaðar keri uppi á palli)
- en fyrsta uppskeran er sem sagt komin í pott.

sunnudagur, 11. júlí 2010

Bröns í bongóblíðu

Það var ótrúlegt hvað það rættist úr veðrinu í morgun.
Fyrst var skýjaslæða yfir öllu en smá saman varð himininn nær alveg heiður og hitastigið fór bara upp á við.
Við komum okkur vel fyrir úti með bækur -og gott kaffi í seilingarfjarlægð.
Og ég er þvílíkt ánægð með fjarsýnissólgleraugun mín.

Ég er að lesa bókina Enzo sem á að taka fyrir í næsta prjónlesklúbbi.
Dálítið skrítin bók. Ég er ekki alveg viss hvað mér finnst um hana og bíð spennt eftir því að heyra hvað hinar stelpurnar segja.

Í hádeginu var okkur boðið í bröns.
Á risastórum svölum á þriðju hæð - með útsýni yfir allan bæ.
Veðrið var alveg frábært, maturinn æðislegur og fólkið skemmtilegt.
Við gleymdum okkur alveg og sátum í marga tíma.

Þetta getur bara ekki verið betra.

Púða lokið

Jæja nýju dúllurnar eru komnar á sinn stað þeirra sem 'láku'-
Ég er búin með bakstykkið og að hekla púðann saman.
Stærðin er fín 40x40

Ég var að spá í að hafa rennilás til að það væri þægilegra að taka ytra byrðið af til að þvo það
- en mundi svo að druslan lak - og verður því kannski ekki mikið þvegin. :-(
Ekki gott.
En að því frátöldu er ég bara ánægð með gripinn.

laugardagur, 10. júlí 2010

Minningar

Við systur hittumst í kaffi í dag - eins og svo oft áður.
Mér finnst það alveg frábært að sitja svona saman og ég held að henni finnist það líka.

Og við spjöllum og hlæjum, rifjum upp minningar eða kryfjum þetta daglega.
Og oft náum við ágætis flugi og oft fáum við fínar hugmyndir.

Í dag datt henni systur minni í hug að horfa á gamlar vídeomyndir.
Myndir sem voru teknar fyrir 20 árum þegar elstu krakkarnir voru litlir.
Og við vorum ungar og fallegar.

Þetta var gjörsamlega frábær dagur.
Við horfðum dolfallnar á mömmu leika við EH meðan hún mataði hann.
Og hlógum þar til við fengum í magann þegar mamma og fröken B. sem þá var tveggja ára sungu Ó Jesú bróðir besti og spjölluðu um bók.
Og við drukkum í okkur myndir af mömmu og pabba á ferðalagi um verslunarmannahelgi.
Og nutum þess að heyra raddirnar þeirra.

Þegar þriðja systirin var búin að vinna kom hún líka.
Við borðuðum allar saman saman og héldum svo áfram með vídeóið.

Þetta er náttúrulega fjársjóður. En pabbi og mamma voru nokkuð dugleg að taka myndir og enn er eitthvað til sem við eigum eftir að skoða.

Vá hvað ég hlakka til þegar við verðum búnar að setja kvikmyndirnar á stafrænt form.

föstudagur, 9. júlí 2010

Frjókorn

Frjókorn yfir öllu rétt eins og snjóskaflar.

Bæjarferð

Við Maja skruppum í bæjarferð í dag.

Við settumst við besta borðið á stéttinni fyrir framan Kaffi París, borðuðum salat og sóluðum okkur.
Blankalogn.
Bara frábært.

Gengum svo um og kíktum í búðir og ég keypti mér skyrtu.
Ekki slæmt.

Dagar

Það er svolítið fyndið að suma daga hittir maður ekki lifandi veru.
Það eru svona dagar þegar maður lúsles fréttablaðið og kemur sér svo fyrir í rólegheitum með bók eða handavinnu og er bara einn að dunda.

Svo eru aðrir dagar sem eru einhvern veginn allt öðru vísi.
Fólk kíkir í kaffi -og algjörlega óvænt koma allir á sama tíma - eins og þeir hafi sammælst um það og húsið iðar af lífi.

fimmtudagur, 8. júlí 2010

Loksins sól

Það rættist úr veðrinu seinni partinn.
Sól og blíða.
Vá hvað ég var búin að bíða lengi eftir þessu.

miðvikudagur, 7. júlí 2010

Reddingar

Í morgun fékk ég konur í kaffi sem reyndust miklir handavinnureddarar.
Þeim fannst agalegt að henda heklustykkinu til hliðar - en auðvitað kæmi aldrei til greina að hafa það eins og það var.

Þær fengu skæri og klipptu á þræði - og röktu upp ....
Og ég heklaði og setti saman og voila.. nýtt framstykki.

Á eftir setti ég garnið í klór til að reyna að ná litnum úr.
En ekki að ræða það - hann var pikkfastur.

mánudagur, 5. júlí 2010

Með tár í augum

Undanfarna daga hef ég verið að hekla dúllur.
Sem áttu að verða að púða.
Sumarlegum púða í öllum litum.

Og í gærkveldi þegar framstykkið var tilbúið ákvað ég að skola það í volgu vatni - og laga það og slétta.

Og fékk svo áfall í morgun þegar ég sá ....
...haldiði að appelsínuguli liturinn hafi ekki 'lekið' og litað út frá sér.

Ég gæti sko grátið.

sunnudagur, 4. júlí 2010

Nærbolaprjón

Ég pantaði mér ullargarn frá J.C Rennie í Skotlandi í vor.
Æðislegt garn, 900 grömm af 100 % shetlandsull.

Ullin kemur á stórum spólum, óþvegin og angandi af ... ja ég veit ekki hverju - einhvers konar olíu kannski.

Þetta er svakalega skemmtilegt efni að vinna með.
En ég var dálítið óheppin með litinn.
Ekki alveg litur fyrir mig.
Sem var þó meiningin þegar ég pantaði.
Þetta reyndist dálítið babylegt.

Ég ákvað að prófa að prjóna nærbol.
Fitjaði upp 120 lykkjur.
Prjónaði 25 cm (held ég), felldi af 8 undir ermi og fitjaði svo upp 32 fyrir axlarstykki.
Felldi af í annarri hverri umferð með laskaúrtöku.

Nú verður spennandi að sjá hvernig bolurinn nýtist - garnið er auðvitað töluvert snarpara en babyullin sem ég hef áður notað. Og svo má alls ekki þvo hann í vél.

laugardagur, 3. júlí 2010

Af lífi og sál

Ég legg mig alla fram á þessu fótboltamóti.
Ég reyni að fylgjast með leikjum míns liðs eins vel og hægt er og halda einbeitingu út allan leikinn.
Sem tekst bara nokkuð vel þó ég segi sjálf frá.
Svona oftast nær að minnsta kosti.
Smá einbeitingarleysi, þar sem ég stúderaði klæðaburð foreldra - veðrið eða eitthvað annað, hefur samt haft af mér mörk.

Ég er eiginlega best á klukkunni.
Ég er alltaf með það alveg á hreinu hvað margar mínútur eru eftir af leiknum.
Og get sko alltaf svarað því hvað leiktímanum líður- þó ég sé kannski ekki alveg viss hvernig markatalan er eða hvort liðið sé að vinna.

Eitt er það sem ég þarf að æfa mig í er lingóið sem tilheyrir boltanum.
Ég dáist mjög að þeim sem geta hrópað gáfulegar og uppbyggilegar athugasemdir sem hvetja leikmenn og hafa mögulega áhrif á gang leiksins.

Og ég legg mig alla fram við að læra viðeigandi orð og setningar.
Á þessu móti hef ég lært eftirfarandi:

preeessa
maður - maður
berjast
koma svo
ákveðinn
rólegur
vel gert
spila strákar
Og strákarnir standa sig eins og hetjur þrátt fyrir hróp og köll foreldranna.

fimmtudagur, 1. júlí 2010

1. júlí

Í dag rignir eins og hellt sé úr fötu.
Himnarnir hafa opnast.
Það er skítaveður.

Fína gistiherbergið er í útihúsi með oggu litlum glugga -og veggir og gólf eru ekki einangruð.
Og í herberginu er bæði rakt og skelfilega kalt.

Í dag er akkúrat eitt ár frá því að mamma dó.
Kannski er fyrsta 'dánarafmælið' erfiðast.
Ég veit það ekki.

(Er annars til annað orð en dánarafmæli. Það hljómar svolítið bjánalega. - Maður tengir afmæli við eitthvað gleðilegt.)

En mamma hefur verið rosalega sterk í huganum hjá mér í dag og undanfarna daga.

Og í dag er Ingó umsjónarmaður og fylgir liðinu.
Og ég er ein að vorkenna sjálfri mér.

Mér er kalt.
Ég er með höfuðverk.
Mér er illt í maganum.
Mér er óglatt.

Asi keppir þrjá leiki í dag.
Og þrisvar harka ég af mér og mæti upp á völl.