Klukkan 13:15 í gær labbaði ég út úr skólanum og var komin í langþráð sumarfrí.
Jebbs.
Allt kemur þetta á endanum.
Þessi fyrsti dagur var skipulagður hverja mínútu.
Fyrst fór ég heim - og byrjaði á bókinni sem átti að ræða í prjónalesklúbbnum um kvöldið.
Slepptu mér aldrei eftir Kazuo Ishiguro
Mér fannst þetta frekar skrítin bók, svona í upphafi alla vegana, og er hrædd um að ég hefi gefist upp ef ég hefði álpast á hana svona ein og sjálf.
En svo reyndist þetta vera hin fínasta lesning.
Og ég mæli með henni.
Og alls ekki gefast upp þó fyrstu blaðsíðurnar séu skrítnar.
Í eftirmiðdaginn tók ég pásu, fyrir kaffihúsahitting.
Hitti gamla vinkonu sem mér finnst alltaf jafn gaman að hitta. Við spjöllum um allt milli himins og jarðar, flissum ýmist eins og smástelpur eða hlæjum stórkallalega.
Og þegar við kveðjumst endum við svo á að ákveða að hittast miklu miklu oftar - en af einhverri ástæðu rennur það samt alltaf út í sandinn.
En mikið rosalega er hún skynsöm og skemmtileg og hefur jákvæða sýn á lífið.
Svona vítamín á tveimur fótum.
Eftir kaffið fór ég aftur heim.
Ingó og Asi fóru á leik, stóri drengurinn í vinnuna og fröken B. var eitthvað að bardúsa.
Ég plantaði mér því í sófann með teppi og te innan seilingar og las.
Og las og las og las.
Korter yfir átta var ég búin með bókina - nákvæmlega korteri áður en klúbburinn byrjaði.
Ég var svo upprifin út af bókinni að ég steingleymdi að taka með mér handavinnu.
Og svo sátum við þarna fimm, drukkum hvítvín og borðuðum.
Spjölluðum og hlógum.
Áttum alveg fínasta kvöld.
Ah hvað er gott að vera komin í sumarfríi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli