sunnudagur, 28. febrúar 2010

Handavinna vikunnar

Handavinna vikunnar er frekar rýr.
Vegna flensu og annars aumingjaskapar hef ég lítið getað prjónað.

En ég get saumað.
Og töskur af öllum stærðum og gerðum hafa alltaf verið í uppáhaldi.
Gerði tvær buddur eins og Timotei gerir.
Lítið mál.
Á eftir að sauma fleiri svona - í mismunandi stærðum.

Helgin...

...er búin að vera frekar skrítin en líka alveg ágæt.

Ferðin norður gekk vel en þeir feðgar voru komnir á Akureyri rúmlega tvö á föstudag. Þeir hafa skemmt sér frábærlega á fótboltamótinu sem lauk um fimmleytið i dag en þá lögðu þeir af stað heim - í ágætisveðri.

Ég er hins vegar búin að vera lasin alla helgina.
Eða eiginlega frá því fyrir helgi.
Með beinverki, hálsbólgu, kvef og kverkaskít.
Hef meira og minna legið fyrir - fyrir utan smá tíma í gærkveldi.
Þá skrapp ég í heimsókn til vinkonu minnar.

(Fröken B. var nefnilega búin að bjóða hálfum bænum til sín í afmæli.)

Við fórum út að borða.
Á Saffran. Þar fær maður góðan mat, stóra skammta og borgar lítið.
Það er sko staður sem ég mæli með.

Þegar ég kom heim var partýið enn í fullum gangi - en mér tókst að lauma mér inn án þess að nokkur tæki eftir.
Í morgun var íbúðin ótrúlega snyrtileg. En það má fara í vænt ferðalag fyrir söluandvirði tómra bjórdósa.

föstudagur, 26. febrúar 2010

Arrg

Ég er að reyna að stilla mig.

En það eru 50 bílar fastir undir Hafnarfjalli.
Í snjókomu, skafrenningi og afar slæmu skyggni. Blindbylur segir visir.is

Og ég sá í fréttum að fjöldi fólks þurfti að gista í Borgarnesi í nótt vegna illviðrisins.

Og rútan sem átti að leggja af stað klukkan átta er enn ekki farin - sem betur fer.
Þeir ætla að bíða til klukkan níu og kanna aðstæður þá. Ég veit samt ekki eftir hverju þeir eru að bíða. Vori kannski.

Og ég sit hér dauðstressuð og drullupirruð og vildi að ég gæti bara bannað svona vetrarferðir. Eða að minnsta kosti bannað mínu fólki að fara.

Ég meina hvaða bull er það að æða norður á þessum tíma árs.
Arrg.

fimmtudagur, 25. febrúar 2010

Tepokaspeki



Snjór

Ég verð nú að játa að ég er ekkert voðalega spennt að keyra í þessu veðri.
Og er óskaplega fegin að þurfa ekki að fara langt í vinnuna.

Í fyrsta skipti keyri ég bíl með abs-bremsum (heita þær það ekki annars) og ég átta mig ekki alveg á þeim. Skil ekki alveg hvað er sniðugt við bremsur sem hemla bara alls ekki neitt heldur ískra og svo rennur bíllinn bara eitthvað áfram.
Algjörlega stjórnlaust.
Eða þannig.

Annars skilst mér að veðrið eigi að vera svona eitthvað áfram og er ekkert ferlega ánægð með það.

Ef ég mætti ráða væri sól og blíða. Ég þekki nefnilega feðga sem eru á leið norður á Akureyri um helgina á fótboltamót. Þeir stefna á að fara snemma í fyrramálið með rútu fullri af ellefu ára strákum.

Ég var um tíma að spá í að fljúga norður á laugardag og vera fram á sunnudag - en maður minn það kostar an arm and a leg - bara flugið sko. Og þá er gistingin eftir.

Nei ég verð bara heima -fröken B. og stóra drengnum til ánægju og yndisauka.

Átján bræður


Ef öskudagur á sér átján bræður sem líkjast honum að veðurfari þá er nokkuð ljóst að þessi dagur í dag er annað hvort undanvillingur eða fjarskyldur frændi.

miðvikudagur, 24. febrúar 2010

Morgunbirta

Svona var birtan í morgun klukkan 7:45 þegar ég fór í vinnuna.

Ekki lengur svartamyrkur heldur blátónaður himinn með smá tötsi af bleiku.

þriðjudagur, 23. febrúar 2010

Göngum göngum

Skellti mér í þriðjudagsgöngu með stelpunum í vinnunni.
Þær eru ægilega duglegar og labba flesta þriðjudaga - að minnsta kosti ákveðinn kjarni úr hópnum.

Ég hef oft ætlað að mæta og nú var sem sagt komið að því. Það var hryllilega kalt úti en ég var gölluð í flest -í síðum nærbuxum og lopapeysu undir útifötunum. (Rétt farin að jafna mig á kalblettunum frá því í síðustu viku.)
Með trefil og vettlinga.
Ja gleymdi reyndar húfu - og hélt á tímabili að eyrun dyttu af mér - en annars klár í alla útiveru.

Og þetta var auðvitað þrælfín hálftímaganga -kringum Vífilstaðavatn - fyrir átta konur með einn hund.

sunnudagur, 21. febrúar 2010

Sunnudagshandavinna

Þessi gráa er loksins tilbúin.
Mér líst bara nokkuð vel á hana. Og fröken B. er mér sammála og fékk hana lánaða áðan.

Til minnis:
Uppskriftin er fengin á Ravelry og heitir Peasy
Prjónuð top-down, átti að vera fram og til baka en ég setti bolinn á hringprjón og klippti svo upp
Ég lengdi líka bæði ermar og bol (bol um amk 15 cm)
Í peysuna fóru rétt rúmar 8 dokkur af kambgarni (rétt rúm 400 gr)
Prjónar númer 3 1/2, nema líningar eru á númer 3

Þessi prjónaskapur tók 3 1/2 viku.

Konudagur

Jebbs - hann klikkar ekki

Þessi nýji

Ég fór í gær og kíkti á lítinn nýfæddan strák með mikið hár.

Sem svaf og umlaði.

Og kúrði í fangi mömmu sinnar og drakk.

Og opnaði augun og leit á heiminn.

Og lokaði þeim aftur og hélt áfram að sofa

Og ég fékk að halda á honum í augnablik. Fann lyktina. Fann hvað hann var mjúkur. Og fisléttur.

Tíu fingur og tíu tær.

Fullkominn.

föstudagur, 19. febrúar 2010

Furðuföt

Þar sem enginn þekkir mann
þar er gott að vera
því að allan andskotann
er þar hægt að gera


Þessa vísu fór pabbi stundum með í gamla daga.

Og bara það að klæða sig öðruvísi - í einhver furðuföt - gefur manni leyfi til að haga sér á annan hátt en venjulega.

Á öskudag fór Asi íklæddur kjól með appelsínugula hárkollu og söng út um allan bæ fyrir nammi. Nokkuð sem hann myndi aldrei nokkurn tíma gera annars.

Og í dag var furðufatadagur í vinnunni og ég fór með svarta hárkollu og eldrauðan varalit.
Nokkuð sem ég myndi aldrei nokkurn tíma gera annars.

Pakki með póstinum

Ég fékk pakka með póstinum í gær.
Garn sem ég pantaði mér frá Pavi.
Ægilega fínt ullargarn. Cascade 220.
Sem kostaði að vísu hvítuna úr augunum á mér.
Oh ég hlakka svo til að klára þetta gráa og byrja á þessu.

Nei nei ég er ekkert búin að gleyma að ég ætlaði ekki að kaupa meira garn.

Eða var það kannski bara ég sem trúði því að ég myndi standast það.

fimmtudagur, 18. febrúar 2010

Og það var...

...strákur.
16 marka stákur.

miðvikudagur, 17. febrúar 2010

Líffræðiverkefni

Ísskápurinn minn er frekar tómur.
Það litla sem í honum er minnir helst á líffræðiverkefni.

Það er nokkuð ljóst að í dag þarf að spúla út og versla.

þriðjudagur, 16. febrúar 2010

Londondon

Það var á föstudag, fyrsta dag í vetrarfríi sem við áttum bókað flug til London. Ég var með fiðring í maganum allan morguninn - eins og alltaf fyrir flug. En hann hvarf þegar ég var búin að tékka inn, birgja mig upp af tímaritum og var sest með smörrebrauð og hvítvín.

Ég hef alltaf talið mig líta nokkuð venjulega út - og er sjaldnast stoppuð í inn- eða úttékki. Enda búin að læra að rífa af mér belti og annan óþarfa - og labba um allt á sokkaleistum. Á útleiðinni vildu þeir skoða handtöskuna mína betur. Og þá meina ég grandskoða. Allt var opnað - gleraugnahulstur, servíettupakki, snyrtibudda - allt. Frekar óþægilegt -en sem betur fer höfðu þeir ekki yfir neinu að kvarta.

Við flugum til Stansted, tókum hraðlestina á Liverpool station og þaðan túbuna á Tottenham Court Road stöðina.

Hótelið var við lestarstöðina. Sem er náttúrulega frábær staðsetning - stutt niður á Oxford að versla og til að borða og spóka sig í Soho.
Herbergið var aftur á móti afar lítð. Pínu, pínu lítið.
Og rúmið var það minnsta sem ég hef sofið í lengi. Breiddin varla meira en 130 cm.
Það þurfti því bæði lagni og samhæfingu til að komast bæði þar fyrir án þess að fá hné í bakið eða olnboga í auga.

Í London er mikið hægt að gera en okkur finnst einna skemmtilegast að labba um og skoða fólk og staðhætti, setjast inn á kaffihús eða bar, fá okkur snarl eða alvöru máltíðir. Já og svo finnst mér reyndar líka dálítið gaman að versla.

Við fórum á veitingastað sem okkur hafði verið bent á. Hann heitir Skylon og er rétt hjá London Eye. Ægilega fínn. Þar var allt fullbókað þegar við komum þannig að við settumst bara á barinn með útsýni yfir Thames og fengum okkur hvítvín og blinis með reyktum laxi.
Veðrið var svo sem ekkert sérstakt í þessari ferð. Og þó. Hitinn fór niður undir frostmark seinni partinn og á kvöldin en yfir hádaginn var hitinn 4-6 gráður sem er jú allt í lagi. Og það hvorki rigndi né snjóaði og alla dagana var blankalogn. Þetta er kannski bara fínasta febrúarveður.

Komin heim

Við erum komin heim frá London.

Komum seint í gær og okkar biðu þrjár ungar manneskjur í tandurhreinni íbúð og buðu upp á bolludagsbollur. Mm ekkert smá notalegt. Þau eru nú alveg ótrúlega dugleg þessir krakkar mínir.
Á meðan við vorum í burtu gekk auðvitað allt eins og í sögu - og ég er farin að halda að við séum eiginlega óþörf. Þau hafa hins vegar af því áhyggjur að við eigum aðra fjölskyldu í London og séum þar af leiðandi svona mikið þar.

Við tókum upp úr töskum í gærkveldi og þvottavélin hefur verið í aksjón frá því að við opnuðum augun. Það er enginn smá þvottur sem safnast upp á örfáum dögum og það þó að fröken B. hafi skellt í einstaka vél á meðan við vorum í burtu.

Ingó er farinn í vinnuna en ég er í vetrarfríi og mín bíður stafli af dagblöðum og alvöru kaffi. Mmm.

sunnudagur, 14. febrúar 2010

Sunnudagshandavinna

Aftur kominn sunnudagur og ég náði ekki að klára peysuna þó það muni grátlega litlu.
Ég á eftir að prjóna ca 15 cm á bol auk lista og annars frágangs.
Stefni á að klára hana í vikunni - enda í vetrarfríi.


Þá er gott að geta skellt hér inn öðrum verkefnum.


Eins og í seinustu viku er það þægileg hugsunarlaus handavinna. Svona handavinna sem er tilvalin að taka með sér á saumaklúbbskvöld þar sem athyglin á að vera á fólkinu sem maður situr með en ekki í einhverju úttalningarstressi.


Til minnis

Blágræni borðklúturinn er úr Mandarin petit - og er prjónaður úr klukkuprjóni. Hann er ægilega ljótur en ég held (vona) hann skáni við notkun.

Þessi hvíti er úr bómullarblöndu-garni úr Europris - en það garn hefur komið mér skemmtilega á óvart. Ég á eina svona tusku og hún er alltaf eins - alveg sama hversu oft hún er þvegin. Munstrið í þeim hvíta er fjórar sléttar og svo ein brugðin. Brugðna lykkjan færist svo lengra til hægri í hverri umferð.

Lykkjufjöldi er 40-50 lykkjur

Var ég búin að nefna það að svona prjónaðir borðklútar eru með þeim betri sem ég hef notað.



fimmtudagur, 11. febrúar 2010

Vetrarfrí

Jæja þá er að koma að því.
Eftir tæplega hálfan sólarhring er ég komin í vetrarfrí.
Og ég er algjörlega tilbúin.

miðvikudagur, 10. febrúar 2010

Morgunstund gefur gull í mund

Það hefur ótvíræða kosti að vakna snemma.

Mér finnst til dæmis alveg ótrúlega notalegt að geta tekið allan þann tíma sem ég þarf í sturtu og að gera mig til, lúslesa blöðin (blaðið!) og hafa svo jafnvel tíma til að kíkja á netið eða prjóna eða ..

Hins vegar er spurning hversu sprækur maður er eftir aðeins fimm tíma svefn.

þriðjudagur, 9. febrúar 2010

Blómabúð í hverfinu

Það er búið að opna blómabúð hér í næstu götu við mig. Og ekki degi of seint.

Frábær staðsetning og ég er alveg ákveðin í að leggja mitt af mörkum og styrkja verslun í mínu hverfi .
Jebbs -bara góðmennska.


Ég hélt einu sinni að engin blóm væru til nema rauðar rósir.
En fyrir rétt tæpum 22 árum fékk ég fékk fjólubláa túlipana í fyrsta skipti.
Og síðan finnst mér þeir ekki bara fallegir heldur fylgir þeim einhver notaleg tilfinning.

Aðgát skal höfð

Ég var á alveg frábærri ráðstefnu -eða málþingi - áðan. Það var haldið í tilefni alþjóðlegs netöryggisdags og SAFT sá um undirbúning. Yfirskrift málþingsins var 'Hugsaðu áður en þú sendir'.

Fyrirlesararnir voru hver öðrum betri ...ja eða nei sumir voru nú reyndar mun betri en aðrir.
En erindin hefðu sko fleiri mátt heyra en þessir örfáu sem voru staddir í salnum.

Talað var um ábyrgð, virðingu og friðhelgi og það sem gerist eða getur gerst í skjóli nafnleyndar (jebbs fólk bloggar víst bæði nafnlaust og commentar líka).

Talað var um hvernig fólk getur bæði hannað sig og endurskapað á félagsnetum -og hve jákvæður sá heimur birtist - þar er vettvangur hughrifa og stemmingar- (því auðvitað setur enginn neikvæðan status). Og við fengum meðal annars að sjá myndbrot sem sýnir Facebook-hegðun í raunheimi.

Og það var minnt á að það sem einu sinni fer inn á netið fer ekki svo glatt þaðan aftur.
Ætli allir sem setja inn myndir á Facebook viti til dæmis að þær séu áfram til þó þeim sé eytt?
Og í því tilfelli séu þær séu líka eign annarra.

sunnudagur, 7. febrúar 2010

Borðklútar


Handavinna vikunnar eru borðklútar - tuskur.

Ég á dálítinn lager af bómullargarni sem ég keypti á sínum tíma í eitthvað sem ekki gekk upp.
Stelpurnar í vinnunni prjónuðu klúta fyrir jól sem þær gáfu í jólagjöf og ég varð að prófa. Fannst þetta alveg frábært - bæði til að nýta garn og svo eru þetta þrælfínar tuskur.

Ég á slatta af tuskum sjálf - en einhverjar hef ég gefið.

Til minnis:

Borðklútar
Bómullargarn -úr hverri hnotu fást tvær tuskur
Fitja upp 50 lykkjur - prjóna 2-3 garða í byrjun stykkis og lok - og líka 3 lykkjur í hvorum jaðri
Munstur er fjórar slétt og fjórar brugðið
Lengd - sama og breidd

Ostabollur

Mér datt í hug að baka bollur fyrir okkur ..og fótboltamennina - og geri ráð fyrir að fröken B. fúlsi ekki við þeim þegar hún kemur þreytt heim á eftir.

Þessar bollur eru alveg ótrúlega fljótlegar, einfaldar og síðast en ekki síst bragðgóðar.


Ostabollur


375 gr hveiti
3 tsk lyftiduft
1 tsk salt
rifinn ostur (ca 100 gr - ekki mjög nákvæmt)
1 egg
3 msk olía
AB-mjólk og mjólk (samtals ca 250ml)

Blandið öllu saman í skál og hrærið saman með sleif - bara rétt að láta deigið samlagast og ekki of lengi. Deigið á að vera blautt.

Setjið bollurnar með skeið á plötu. (Þessi uppskrift er tvær plötur)

Fínt að pensla með eggi eða mjólk og strá smá rifnum osti yfir.

Bakið við 180° í ca 20 mínútur.

Næturgestir

Í nótt voru tveir næturgestir hjá Asa. Tveir vinir hans sem deila gífurlegum fótboltaáhuga þó svo dálítill aldursmunur sé á þeim og þeir styði ekki endilega sömu liðin.

Þegar þeir eru inni geta þeir geta endalaust spjallað um boltann og spilað Football Manager og þegar þeir eru úti er tuðran aldrei langt undan.

Þeir voru í tölvunni fram yfir miðnætti en fóru þá í rúmið og það tók þá að minnsta kosti klukkutíma að sofna. Það kom mér því dálítið á óvart hversu sprækir þeir voru í morgun - allir komnir á stjá milli hálf níu og hálf tíu. Og eftir smá morgunmat eru þeir stungnir af í tölvuleik og njóta þess að fröken B. er ekki heima og þeir hafa litlu íbúðina til ráðstöfunar.

Smart hvítir sokkar


Ég er hræðilegur safnari.

Losa mig ekki við hluti sem ég er þó löngu hætt að nota.

Svo kvarta ég um plássleysi með jöfnu millibili og er algjörlega fyrirmunað að sjá samhengið þarna á milli.

Sokkaskúffan mín er eitt dæmi. Þar voru að minnsta kosti tuttugu pör af hvítum sokkum - sem ég er búin að eiga í fjölda ára.

Og ég sem er aldrei í hvítum sokkum. Aldrei.

En núna á ég nærri tóma sokkaskúffu.

laugardagur, 6. febrúar 2010

Hræðsla

Mér finnst það svo merkilegt hvað við erum öll ólík.

Finnst skrítið - að það sem getur vafist fyrir einum reynist öðrum leikandi létt.

Og ég hef þá bjargföstu trú að það sé hverjum manni hollt að takast á við hræðsluna í sér - að minnsta kosti annað slagið.

Því oft hræðumst við eitthvað sem reynist svo ekkert mál að gera - þó auðvitað komi það einstaka sinnum fyrir að það sem við kvíðum rætist og reynist jafnvel enn verra og erfiðara en við gerðum okkur í hugarlund.

En það gerist nú sem betur fer sjaldan.

Og svo má auðvitað alltaf deila um það hversu vel tímanum er varið í svartsýni og kvíða. Hvort ekki megi nota hann í að undirbúa sig betur eða bara eitthvað allt annað og uppbyggilegra.

Í dag gerði ég nokkuð sem ég hef ekki þorað að gera áður. Nokkuð sem ekki var nokkur leið að undirbúa sig fyrir. Nokkuð sem ég hefði ekki gert nema af því að það var nauðsynlegt.

Bráðnauðsynlegt.

Jebbs – í dag ég keyrði jeppa í fyrsta skipti.
Og svona ljómandi vel :-)

föstudagur, 5. febrúar 2010

Biðarinnar virði

Það er komið að því (trommuhljóð) ...

...ný handklæði - kerti - hiti í gólfi og alles ...

...loksins ...
...nýtt klósett

Lengri dagar

Pabbi sagði í gamla daga að daginn lengdi um hænufet á dag og ég man að við skoðuðum upplýsingar í mogganum um tíma sólarupprásar og sólarlags. Fylgdumst með lengingunni og fundum breytinguna.

Núna þegar við erum hálfnuð að jafndægrum er daginn farið að lengja mikið. Og svakalega munar mig um það. Það er ótrúlegt hvað birtan hefur mikil áhrif á mann.

Ég var að spá í það hvað það er skrítið að daginn skuli ekki lengja jafnt í 'báðar áttir'.
Það eru nokkrar vikur síðan ég tók eftir breytingum seinni partinn en það var ekki fyrr en í seinustu viku sem ég sá mun á morgunbirtunni.

Og þó það sé enn svarta myrkur rétt fyrir átta þá fer að sjá í smá bláma litlu síðar og klukkan hálf tíu er orðið bjart. Og þetta gerðist einhvern veginn í seinustu viku.
Bara allt í einu.

miðvikudagur, 3. febrúar 2010

Litbrigði

Ég skellti mér í smá göngu með stelpunum áðan og tók myndavélina með í þeirri von að ná einhverju af þessari æðislegu birtu sem hefur verið undanfarið.

Úti var skítakuldi en við vorum vel klæddar.

Þegar við lögðum af stað var himinninn blár og sólin skein á Esjuna...


...svo sást örlítið í rauðbleikan lit...

...sem varð sterkari

Svona leit himinninn út þegar við vorum að koma heim.
Litaspilið hélt svo áfram útí rautt og appelsínugult og alla hugsanlega liti af bláu.
Ótrúlega flott.

Rósa

Í gærkvöld fékk ég höfuðverk dauðans og panodil virkaði ekki frekar en vatn. Því varð lítið úr saumaklúbbsferð og ég skreið snemma í bólið. Svefn er oft það eina sem hægt er að gera í þessari stöðu.

Það var því ekki fyrr en í morgun að ég heyrði fréttirnar.

Rósa er komin í leitirnar.

Hún var búin að vera týnd síðan í haust að hún strauk frá Dýrahjálp við Garðheima og er búin að vera á flækingi síðan. Eftir að hún týndist fóru krakkarnir nokkrum sinnum og leituðu, ég svipaðist um eftir henni í hverri viku (ja þegar ég labbaði) í Elliðárdalnum og kallaði á hana í hvert skipti (!) sem ég fór í Garðheima.

Við vorum hrædd um að hún myndi ekki lifa veturinn og kuldann af.

En hún er seig - og bíður nú eftir nýjum eiganda.
Hér heima eru reyndar nokkrir búnir að mæla með því að hún flytji aftur til okkar - en ég þori ekki að taka sénsinn.



Rósa

Á vef Dýrahjálpar má lesa meira um ævintýri Rósu.

þriðjudagur, 2. febrúar 2010

Þreyta

Stundum er ég svo búin að ég er eins og undin tuska og í mér er ekki að finna heila hugsun. Ekki einu sinni smá brot.

Neibbs. Nothing. Nada. Nix.

En ef Eyjólfur hressist þá er saumaklúbbur í vinnunni í kvöld.

mánudagur, 1. febrúar 2010

Draumar

Sumir trúa að draumar hafi ákveðna merkingu meðan aðrir telja að í draumum sé hugurinn að vinna úr ýmsu sem við erum að fást við.

Ég er svona beggja blands. Og hef tekið þá afstöðu að ráða alla drauma fyrir annað hvort peningum eða ferðalögum. Ef hins vegar hvorugt passar inní þá er greinilegt að maður er að vinna betur úr sínu.

Ekki veit ég hvernig það er með aðra en mig dreymir alveg óskaplega mikið. Fæsta drauma man ég þó nákvæmlega -heldur bara einhver brot eða tilfinningu - stundum notalega en stundum líkari martröð.

Í nótt dreymdi mig draum sem mig hefur dreymt nokkrum sinnum -þó hann birtist í aðeins mismunandi útfærslum.

Í draumnum standa yfir flutningar og ég -eða við- þurfum að pakka ótrúlegu magni af alls konar dóti í töskur og kassa sem duga engan veginn fyrir allt þetta dót.

Við erum nefnilega að verða of sein í flug. Og í stað þess að hlutunum fækki þá fjölgar þeim og við erum alveg að missa að vélinni.

Og við þurfum að velja hvað á að taka með og hvað verður skilið eftir...

Einhvern veginn held ég að ráðning þessa draums tengist hvorki ferðalögum né peningum.